131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[13:47]

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel það ekki vera sérstakan árangur hjá hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur eftir að hafa verið 18 mánuði á þingi að standa fyrir því að álögur á stúdenta hækki um 40%.

Hv. þm. Dagný Jónsdóttir sagði að ég talaði markleysu. Hins vegar hrakti hún ekki eina einustu staðreynd sem ég hef sett fram. Hv. þm. Dagný Jónsdóttir talaði um að ríkisstjórnin hefði aukið fjármagn til háskólastigsins. Hins vegar hefur það margoft komið fram, m.a. hjá hæstv. menntamálaráðherra, að sú fjármagnsaukning nær ekki einu sinni að fylgja nemendafjölguninni hvað þá meira. Við vorum í nógu vondum málum árið 2001 og við höfum ekkert gert til að laga þá stöðu.

Ég er mjög feginn að hv. þm. Dagný Jónsdóttir er komin í umræðuna, ég fagna því því að hún hefur mikið til að svara fyrir. Mig langar að spyrja hana beint: Af hverju segir hv. þingmaður ekki nei við þessari 40% hækkun á stúdenta? Hver er ástæðan fyrir því að fyrrverandi framkvæmdastjóri stúdentaráðs treystir sér ekki til að segja hreint og kalt nei við hinum auknu álögum á stúdenta?