131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[14:11]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hér hafa verið fluttar ágætar ræður í dag um þetta mál sem er til 3. umr. Við 2. umr. var einnig rætt talsvert um það þannig að ég býst ekki við að taka langan tíma frá þinginu á síðasta deginum. Hins vegar hafa orðið ýmis tíðindi milli 2. og 3. umr. og það er rétt að ég bæti við ræðu mína frá 2. umr., sem fólst mestmegnis í því að kynna nefndarálit okkar í svokölluðum minni hluta menntamálanefndar, nokkrum hugleiðingum vegna þeirra tíðinda sem orðið hafa.

Fyrst er að skýra frá því að eins og aðrir ræðumenn hafa vitnað til hafa komið fram gögn sem vantaði fyrir 2. umr. málsins. Þar á ég einkum við gögn frá Háskóla Íslands sem skýra aðeins þann gang sem málið hefur haft og forsögu þess. Það er kannski rétt að taka það sérstaklega fram, m.a. vegna þess sem síðar segir í þessari ræðu, að þessi gögn komu ekki til menntamálanefndarmanna að frumkvæði formanns menntamálanefndar, hv. þm. Gunnars I. Birgissonar, eða meiri hlutans, heldur þurfti minni hluti nefndarinnar að sækja gögnin sjálfur. Þau finnast auðvitað á netinu að því leyti sem um fundargerðir háskólaráðs er að ræða en síðan þurfti að leita eftir þeim sérstaklega á skrifstofu rektors háskólans og það gerðum við í samvinnu við ritara menntamálanefndar sem ég þakka hér með fyrir sín störf að þessu máli. Ég veit að hún var önnum kafin þegar hún var um það beðin.

Hvað gera þessi gögn, hvað segja þau okkur um þá sögu sem við vorum að leita eftir? Jú, þau staðfesta að sjálfsögðu að hugmyndin um 45 þús. kr., um hækkun úr 32.500 kr. í 45 þús. kr., á sér a.m.k. að hluta til uppruna í Háskóla Íslands. Það sýnir að sínu leyti að þau orð í athugasemdum með frumvarpinu að þetta sé að ósk ríkisháskólanna eru ekki rétt. Ef þetta er ósk að einhverju leyti ríkisháskóla er það aðeins eins þeirra, þ.e. Háskóla Íslands, því að hinir skólarnir munu hafa verið tengdir við þá eimreið á leiðinni í gegnum menntamálaráðuneytið og niður í þing.

Það er merkilegt, og fyrri ræðumenn hafa tiplað á því, en forsaga málsins gefur ákveðna innsýn í hvers eðlis það er. Eitt þeirra gagna sem mestu máli skipta er minniblað til háskólaráðs frá formanni fjármálanefndar háskólaráðs um nemendagjöld frá 24. febrúar 2004. Það er skrifað í tilefni af tillögu sem deildarfundur lagadeildar samþykkti nokkru áður:

„Deildarfundurinn fer fram á að fjárveitingar ríkisins til lagadeildar og annarra deilda háskólans verði auknar. Að öðrum kosti fer lagadeild þess á leit við háskólaráð að það óski eftir því að deildin fái heimild til þess að innheimta gjöld af nemendum hennar, einkum í framhaldsnámi, til að standa að hluta straum af kostnaði við kennslu þeirra.“

Nauðugir, viljugir og sennilega með hnífinn á barkanum leita forustumenn lagadeildar háskólans eftir því — þeirrar virðulegu deildar, einnar af þremur elstu deildum Háskóla Íslands sem mætti jafnvel rekja enn þá lengra aftur, að vísu með því að tengja hana yfir hafið til Kaupmannahafnar — og fara hreinlega fram á að fá að innheimta skólagjöld með einhverjum hætti, gjöld fyrir hluta af kennslu vegna þess að fjárveitingar til deildarinnar eru ekki nægar.

Ég verð að segja að það kemur mér ekki á óvart. Samfylkingarmenn fóru eftir síðustu áramót í sérstaka ferð upp í háskóla og ræddu þar bæði við forustumenn deilda, forustumenn stúdenta og gesti og gangandi á svæðinu. Fyrir mig, sem stundaði nám við þann skóla, og nokkur ár síðan ég kom þar í fullri alvöru, var eiginlega nokkurt áfall að sjá hvernig menn voru þar þrautpíndir af fjárskorti. Suma þeirra var búið að berja þannig að þeir voru í raun tilbúnir að grípa til örþrifaráða, sem jafnvel væru andstæð þeirra eigin hugmyndum um skólann og fjármögnun hans til að geta haldið áfram að fræða, kenna og rannsaka.

Fjármálanefnd háskólaráðs brást þannig við að hún þyrfti tíma til að fjalla um tillögur lagadeildar og sagðist ætla að gera það á næsta fundi sínum. Við höfum ekki frétt af honum en hins vegar bregst hún þannig við að hún ákvað að kanna stöðu skráningargjaldsins. Könnun þessarar nefndar á stöðu skráningargjaldsins er í beinu framhaldi af beiðni lagadeildar háskólans um hærri fjárveitingar eða skólagjald ella. Það sýnir hvernig þessu máli er háttað, að skráningargjaldið, svokallað, á að koma í staðinn fyrir skólagjöld að því er lagadeildina varðar.

Nefndin telur að mögulegt sé að rökstyðja hækkun á skrásetningargjaldinu í 45 þús. kr. Þar stendur þessi upphæð fyrst á blaði, 45 þús. kr., í þessu minnisblaði frá 25. febrúar 2004. Það er sérkennilegt, að minnisblaðinu fram komnu, en frá því skýrði Páll Skúlason, rektor Háskóla Íslands, réttilega og sannlega á fundi sínum og fleiri rektora með menntamálanefnd, að nefndin lætur fylgja minnisblaði sínu töflu um þær forsendur sem standa að baki 45 þús. kr. hugmynd nefndarinnar. Það er merkileg tafla. Hún virðist hin fyrsta af þremur útgáfum Háskóla Íslands af rökstuðningi fyrir gjaldinu, sem hins vegar er alltaf það sama, þ.e. alltaf 45 þús. kr. eða þar um bil.

Við vissum af fyrri útgáfu þessarar töflu. Stúdentaráð Háskóla Íslands upplýsir um hana í greinargerð með umsögn þess, sem er prentuð í nefndaráliti minni hluta menntamálanefndar um þetta mál. Í henni var því m.a. lýst að reiknað hefði verið með kostnaði við íþróttahús Háskóla Íslands í skráningargjaldi. Þar var að auki minnst á nemendaskírteini, að því er stúdentar segja. Ég hélt í upphafi að þetta væri það minnisblað en það virðist ekki vera. Þegar það er rannsakað þá er þar ekkert um íþróttahús Háskóla Íslands en hins vegar er hér dyggilega minnst á stúdentaskírteini. Kostnaður af þeim var árið 2001 talinn 500 kr. og framreiknaður yrði það partur af gjaldinu 2005, af 45 þús. kr.

En í greinargerð stúdentaráðs Háskóla Íslands kemur fram að engin stúdentaskírteini eða nemendaskírteini eru gefin út við Háskóla Íslands. Ég hygg að svo hafi verið eitt sinn og ég borið mynd af sjálfum mér á slíku skírteini. En svo virðist ekki vera lengur og þess vegna er fullkomlega út í loftið að gert sé ráð fyrir því í þessari töflunni. Það hafa menn vissulega séð en ég veit ekki hvenær það gerðist vegna þess að okkur vantar milliskjalið, okkur vantar þá útgáfu sem stúdentaráð Háskóla Íslands virðist hafa komist yfir á einhverju stigi eða fengið að sjá.

Við fyrstu útgáfuna hefur hins vegar bæst kostnaður við íþróttahúsið. Þeir sem um hafa vélað hafa hins vegar ekki treyst sér til að færa þann kostnaðarlið fram í þriðju útgáfunni, enda nokkuð hlálegt.

Það vekur líka athygli að í þessari útgáfu er sérstök lína um ljósrituð námsgögn til stúdenta, sem er a.m.k. ekki í því líki í fylgiskjali háskólans við frumvarpið. Það vekur einnig athygli að þar er talað um kostnað við próf. Þetta átti að vera kostnaður við skráningu og heitir skráningargjald. Próf er ekki skráning heldur mundi maður telja próf til loka kennslu eða eitthvað álíka. En hér er kostnaður við próf, samtals 2.350 kr.

Í fylgiskjali við frumvarpið er eina dæmið sem maður finnur hliðstætt, um kostnað á nemanda 2005, 2.242 kr., nokkru lægri upphæð en sá kostnaður sem þarna er nefndur, en hann er ekki fyrir próf heldur skipulag kennslu og prófa. Ég veit ekki hvort deila megi um þá tilhögun en varla telst það skráning, þ.e. skipulag kennslu og prófa. Skýringin „bókfærð gjöld, prófgæsla“ getur varla talist vera skráning.

Hér er þetta a.m.k. orðað öðruvísi. Skipulag kennslu og prófa á að kosta 2.242 kr. en ekki það sem hér er kallaður kostnaður við próf samtals. Ég er að vísu með ákaflega vont ljósrit af þessu, en það virðist felast í eftirtöldum upphæðum, með leyfi forseta:

„Próflaun annarra en kennara, prófdómarar og prófgögn.“

Þetta datt nefndinni sem sé í hug í febrúar 2004 að væri hægt að flokka sem skráningargjald. Síðan komst nefndin ofan af því og endaði í orðalaginu „skipulag kennslu og prófa“. Hér er síðan inni, þannig að maður minnist einnig á það þegar háskólinn hefur verið samkvæmur sjálfum sér, lengri opnunartími Þjóðarbókhlöðu sem reiknast inn í sérstakt skráningargjald í Háskóla Íslands.

Þannig mætti halda áfram í allan dag að bera saman útgáfurnar af töflunni sem Háskóli Íslands hefur séð sóma sinn í að láta fylgja rökstuðningi sínum við svokallað skráningargjald. Það ætla ég ekki að gera en þetta segir mér og öllum þeim sem vilja sjá og heyra að fyrst er ákveðin tala, 45 þús. kr. Í febrúar 2004 er hún ákveðin í háskólanum og væntanlega líka í menntamálaráðuneytinu, og hókus pókus: Það er talan sem stendur núna í öllum frumvörpunum þremur þrátt fyrir að allur rökstuðningurinn hafi gjörbreyst frá fyrstu útgáfu töflunnar í Háskóla Íslands til hinnar þriðju.

Ég tel þetta hæpin vinnubrögð af hálfu Háskóla Íslands. Ég harma að menntamálaráðuneytið skuli hafa þrýst háskólanum til þess arna. Þetta sýnir auðvitað að gjaldið hefur engan rökstuðning, er fullkomlega í lausu lofti og er af ríkisstjórnarinnar hálfu sett fram án þess að grunnur sé undir. Vinna okkar í nefndinni, í minni hlutanum einkum, hefur leitt það í ljós. Það er athyglisvert, sérstaklega fyrir hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur sem hefur vitnað til þessa rökstuðnings, að hann virðist allur í rugli og ber ekki uppi þá byggingu sem ofan á hann er sett.

Þetta er fyrsta atriðið sem ég ætla að ræða um af þeim tíðindum sem orðið hafa milli 2. og 3. umr. Annað sem gerst hefur milli 2. og 3. umr. er að fjallað hefur verið um málið í menntamálanefnd. Ég vil segja af því tilefni að ég hef, síðan ég var kosinn á Alþingi og kom hingað í fyrra, starfað í tveimur nefndum, annars vegar í umhverfisnefnd og hins vegar í menntamálanefnd. Það hefur verið afar sérkennilegt að finna muninn á starfsanda og árangri af vinnunni í þessum tveimur nefndum.

Í umhverfisnefndinni, í fyrra undir forustu núverandi hæstv. umhverfisráðherra, Sigríðar Önnu Þórðardóttur, og það sem af er hausti undir forustu hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, hefur starfið gengið vel þrátt fyrir ýmiss konar ágreining sem eðlilega er uppi og á eiginlega að vera á Alþingi Íslendinga. Það væri skrýtið Alþingi ef ekki væri uppi einhvers konar ágreiningur, stór eða smár. En nefndin hefur haft þá stefnu að ræða sig til niðurstöðu í þeim málum sem hún hefur fengið inn á borð og reyndin er sú að hún hefur oft skilað sameiginlegu áliti um flókin og erfið mál. Stundum höfum við haft fyrirvara, eins og fyrr í dag, um einstök atriði á nefndarálitinu sjálfu. Þegar ágreiningur er hefur verið leitast við, eins og verða má, að skýrt sé um hvað hann snýst og það er mjög mikilvægur árangur í störfum okkar, að skýrt sé um hvað ágreiningurinn snýst milli meiri hluta og minni hluta eða annarra deilda sem þingmenn skiptast í í nefndum. Jafnframt er skýrt um hvað menn eru sammála. Þessi stefna í starfi umhverfisnefndar hefur, að ég held, eflt áhuga nefndarmanna á viðfangsefnum sínum og skilað á þingið vönduðum málatilbúnaði í þessum málaflokki.

Hins vegar er sorglegt er að segja frá því að í menntamálanefnd, undir forustu hv. þm. Gunnars Birgissonar, hefur gegnt öðru máli. Formaður nefndarinnar virðist hafa þann skilning að nefndin sé fyrst og fremst afgreiðsluapparat þar sem formskröfum um afgreiðslu mála sé fullnægt. Umræða um einstök mál er þar jafnan fátækleg. Stjórnarfrumvörp eru iðulega afgreidd frá nefndinni á færibandi inn í umræður hér í þinginu, stundum án þess að fram hafi komið gögn eða skýringar sem nefndarmenn hafa talið nauðsynleg. Þó hefur svo sem til málamynda verið kallað eftir þeim eftir 2. umr. eins og er í þessu tilviki. Eins og ég lýsti áðan voru það fulltrúar minni hlutans sem kölluðu eftir því sem máli skipti milli 2. og 3. umr. í þessu máli.

Þingmannamál eru sjaldnast tekin úr möppunum sem þau eru færð í eftir að hafa verið vísað til nefndarinnar. Þau mál sem eðlilegt er og hefð er fyrir að reyna að ná um samstöðu, í menntamálanefndinni get ég nefnt heiðurslaun listamanna, eru afgreidd utan nefndarinnar og síðan lögð á borð hennar sem gerður hlutur. Hér virðist ráða starfsstíll formanns nefndarinnar sem ég hef ekki haft þann heiður að vinna með áður en auðvitað frétt ýmislegt um vegna þess að hv. formaður nefndarinnar er einn af forustumönnum í nágrannabæjarfélagi. Ég hef auðvitað orðið var við umsagnir bæjarbúa um starfsstílinn þar.

Á nefndarfundi í morgun keyrði síðan um þverbak. Þangað kom maður úr menntamálaráðuneytinu og eftir að hann hafði fjallað um sín mál og var farinn þá tók formaðurinn hv. til máls og veittist að mér fyrir ókurteisi við gesti nefndarinnar fyrr í vikunni og virtist þá eiga við heimsókn rektora ríkisháskólanna. Ég vil taka fram að ég tel mig ekki hafa sýnt rektorunum neins konar ókurteisi í spurningum sem ég bar fram við þá og átti ekki í neinum deilum eða átökum við þá ágætu herramenn heldur spurði einfaldlega spurninga, einkum með tilvísun til umfjöllunar stúdenta við skólana í umsögnum sínum, en þær eru birtar sem kunnugt er sem fylgiskjöl með þeim frumvörpum sem hér eru til umræðu, þ.e. fylgiskjöl með — fyrirgefið, einkum með tilvísun til umfjöllunar stúdenta í þeim fylgiskjölum sem við höfum sett í nefndarálitið um fylgiskjöl háskólanna sem fylgja frumvörpunum.

Það skal hins vegar viðurkennt að á fundinum þar áður fór ég nokkuð hörðum orðum um hv. formann nefndarinnar eftir að hann hafði neitað okkur um gögn og efnt til atkvæðagreiðslu um að afgreiða málið út úr nefndinni. Vel má vera, forseti, að þau orð hafi ekki verið nægilega kurteisleg. Ég væri tilbúinn að íhuga það með formanni nefndarinnar að við kannski báðir reyndum að færa okkur nokkrum skrefum nær í okkar samskiptum og reyna að gera þau kurteislegri og eðlilegri. En þá á formaður nefndarinnar að kannast við það og ekki að reyna að færa slíkar persónulegar deilur yfir á fjarstadda menn sem málið kemur ekkert við.

Á nefndarfundinum í morgun bað ég um orðið eftir þessa ræðu formanns nefndarinnar til þess að bera hönd fyrir höfuð mér, bera af mér sakir. En formaður nefndarinnar, hv. þm. Gunnar Birgisson, neitaði mér þá um orðið. Ég tel að fundarstjórn og starfshættir af því tagi séu ekki til eftirbreytni og séu ekki til þess fallnir að skapa starfsfrið í nefndinni eða þægilegan umræðugang um þau mál sem þangað er vísað. Ef það er ekki hægt að ræða hluti í nefndinni sjálfri vegna vinnubragða af þessu tagi sem ég er að lýsa þá verður að taka þá vinnu hér inn í salinn sem með réttu á að fara fram í nefndinni sjálfri. Það tefur fyrir öllum þingmönnum. Það tefur fyrir starfi, ekki bara við menntamálin heldur líka við önnur mál í þinginu, samanber þær um það bil sjö til tíu mínútur sem ég hef þurft að taka hér af tíma þingsins, og biðst forláts á fyrir mína parta, til þess að ræða þessi vinnubrögð og starfshætti Gunnars I. Birgissonar.

Í þriðja lagi, forseti, hefur það gerst á milli 2. og 3. umræðu að hv. þm. Dagný Jónsdóttir hefur haldið áfram að skýra afstöðu sína til málsins. Ég tók eftir því við 2. umr. að þegar rætt var um afstöðu Dagnýjar Jónsdóttur þá hrópuðu flokksbræður hennar og -systur hér fram í og töluðu um að það væri ódrengilegt annars vegar og ómaklegt hins vegar að fjalla um þá afstöðu, þó að það væri nú gert af fullri hæversku. Ég verð að gera athugasemd við þau orð því að hv. þm. Dagný Jónsdóttir á að njóta þeirrar fullu virðingar að litið sé á hana sem fullgildan þingmann í salnum, fulltrúa kjósenda í tilteknu kjördæmi, Norðausturkjördæmi. Það er ekki þannig að hana eigi af einhverjum ástæðum að undanskilja við umræður eða að firra hana gagnrýni á þau verk og þá afstöðu sem hún vinnur eða tekur hér í þinginu eða sem þingmaður í fjölmiðlunum.

Á það var bent við 2. umr. að fyrirvari Dagnýjar Jónsdóttur, sá sem hún lýsti í fjölmiðlum áður en málið kom til umræðu hér í þinginu, var sá að hún ætlaði að sitja hjá við afgreiðslu þessa frumvarps, hún ætlaði ekki að samþykkja þetta frumvarp. Þess vegna kom það mjög á óvart þegar hv. þingmaður skrifaði undir nefndarálit meiri hluta menntamálanefndar þar sem meiri hluti menntamálanefndar mælir sérstaklega með samþykkt frumvarpsins með ofurlítilli orðalagsbreytingu. Þetta hefur orðið tilefni nokkurrar undrunar hér í salnum og utan hans. Það hefur reyndar gerst að forseti var beðinn að afla upplýsinga ef hann gæti um það hvort fordæmi væru fyrir þessu og hvort þetta væri þinglegt. Forseti hefur gert það og segir að það séu vissulega til einhvers konar fordæmi fyrir þessu og að það megi finna því stað, að vísu ekki í þingskapalögum eins og hv. þm. Dagný Jónsdóttir mun hafa sagt hér eða ég heyrði hana segja hér við 2. umr., heldur í því sem við getum kallað einhvers konar lögskýringargagn. Það er ritið Háttvirtur þingmaður sem um ræðir og hefur verið skrifað af reyndum starfsmönnum þingsins. Þar segir um fyrirvara að þá megi gera eða að þeir séu gerðir yfirleitt af þrennu tagi og að ein ástæðan sé sú að menn hafi efasemdir um málið, orðrétt, með leyfi forseta:

„... efasemdir um málið en vill ekki standa gegn afgreiðslu þess.“

Ég verð að segja að skilningur minn á afstöðu hv. þm. Dagnýjar Jónsdóttur í fjölmiðlunum áður en málið var tekið hér til umfjöllunar var ekki sá að hv. þm. Dagný Jónsdóttir hefði efasemdir um málið heldur var hann sá að hv. þm. Dagný Jónsdóttir væri á móti málinu en að hún ætlaði hins vegar að sitja hjá vegna þess að þetta væri þó með einhverjum hætti skárra en það mál sem hún átti við glíma hér árið 2002 þegar hún var í forustu fyrir stúdenta. Það var minn skilningur. Það sem ég bjóst við að gerðist hér var að hún skýrði fyrir okkur af hverju þetta mál væri á einhvern hátt skárra en hitt þannig að hún sumsé sæti hjá en væri ekki á móti.

Síðan hefur það gerst að hv. þm. Dagný Jónsdóttir sekkur einhvern veginn alltaf dýpra og dýpra í þessari umræðu og fyrirvari hennar verður myrkari og myrkari með hverri ræðu sem hún um hann flytur. Í staðinn fyrir að spurningin sé af hverju hún sitji hjá frekar en að segja nei þá er spurningin núna orðin af hverju hún sitji hjá í staðinn fyrir að segja já, vegna þess að hv. þingmaður sem talaði hér áðan m.a. í andsvörum virðist vera orðinn samþykk þessari hækkun. Það eina sem hv. þingmaður setur út á hækkunina, bæði í andsvörum áðan við hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson og í sjónvarpinu, í sjónvarpsfréttum í gær, er að gjaldið heiti ekki réttu nafni, það ætti að heita einhverju öðru nafni. Ef það héti aðgöngumiði eða Dísa í dalakofanum þá væri hv. þingmaður e.t.v. bara meðmæltur frumvarpinu. Ástæðan er orðin nákvæmlega engin.

Ég vil hvetja hv. þingmann til þess, þó að seint sé — það er eftir ein atkvæðagreiðsla — að fara að samvisku sinni og sannfæringu svo sem stjórnarskrá Íslands býður og taka þá afstöðu sem hún stefnir augljóslega í og sem er sú að segja já við frumvarpinu og vera í liðinu sem auðvitað hefur komið í ljós að er eitt helsta erindi hv. þingmanns á Alþingi Íslendinga. Þetta vildi ég segja hér vegna þess að hv. þingmaður er alls góðs maklegur og mér hefur þótt ýmislegt til um framgöngu hennar hér á þinginu. Mér finnst í raun sorglegt að sjá hvernig fyrir henni er komið í þessu máli þar sem hún hefur fengið afar vond ráð, sennilega hjá flokksbræðrum sínum og flokkssystrum í liðinu, þar sem hún hefur sett mjög ofan einmitt vegna þess að hún kemur í raun út eins og eins konar málaliði.

Fyrst er hv. þingmaður framkvæmdastjóri hjá stúdentaráði sem er að berjast gegn ákveðnu máli, tekur þar einarða og djarflega afstöðu. Síðan nokkrum árum síðar er hún komin inn á þing og er þingmaður Framsóknarflokksins og þá er sú afstaða ekki lengur í gangi heldur þarf hv. þingmaður að taka aðra afstöðu en reynir að bjarga sér úr þessari klípu með því að fara þriðju leiðina sem er sennilega hin leiðin, fara einhvers konar millileið sem engin leið er í þessu máli. Hér er bara um það að ræða að vera með málinu eða vera á móti málinu og rök hv. þm. Dagnýjar Jónsdóttur fyrir afstöðu sinni nú eru ekki tæk.

Ég vil að lokum, forseti, nefna fjórðu tíðindin sem orðið hafa milli 2. og 3. umr. en þau eru þau að í dag, hér áðan á þessum þingfundi, voru greidd atkvæði um skattbreytingar. Málflutningur stjórnarliða í þeirri atkvæðagreiðslu var á þá leið að nú væri hátíðisdagur. Einn þeirra sagði held ég þrisvar já með fögnuði. Aðrir stóðu upp og börðu sér á brjóst vegna þess að þeir hefðu hér náð með einhverjum hætti markmiðum sínum í pólitík, þ.e. að lækka skatta og það var að vísu aðallega á hátekjumenn og stóreignamenn.

Ég vil óska til hamingju þessum sömu mönnum með að hafa hér bætt það upp, að vísu að óverulegu leyti. En þeir hafa þó bætt það upp með því að ná 140 millj. kr. af námsmönnum við Háskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Það er stórfenglegt. Ég held að það sé ástæða til þess að óska þessum mönnum til hamingju með daginn í dag, 10. desember 2004, þennan mikla fagnaðardag. Ég óska hv. þingmönnum Guðlaugi Þór Þórðarsyni, Sigurði Kára Kristjánssyni, Birgi Ármannssyni og Bjarna Benediktssyni, hinum nýju riddurum Sjálfstæðisflokksins, til hamingju með 140 milljón króna daginn. Ég óska hv. formanni menntamálanefndar, Gunnari Birgissyni, og hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, til hamingju í dag, þennan dag, 10. desember 2004, með 140 milljón króna daginn. Ég óska til hamingju fyrrverandi skólameistara, hv. þm. Hjálmari Árnasyni, hinum unga og upprennandi þingmanni Birki Jóni Jónssyni og ef til vill hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur með daginn í dag, 140 milljón króna dag Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Þetta er mikill árangur og ég spái því að hans mun lengi sjá stað í pólitískum ferli þeirra sem nú eru að hefja innreið sína í pólitíkina með því að seilast ofan í vasa nemenda við þessa þrjá ríkisháskóla.