131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[14:48]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Sannfæringin greiðir ekki atkvæði, hvað er það merkileg sannfæring? Sannfæringin núll? Er það einhver tala í dæminu að vera hvorki með máli né á móti máli? Það er stundum gert vegna þess að málið skiptir kannski litlu eða vegna þess að afstaða manna er með tilteknum hætti. Hér er hins vegar um það mál að ræða að þetta er í raun og veru prófraunin á hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur. Þetta er í fyrsta sinn sem reynir á hvers virði þingmaðurinn er, hvaða erindi hún á inn á þingið, hvort heldur hún berst fyrir málefnum kjósenda sinna eða er bara einhvers konar leikmaður sem þjálfurum og leikstjórnendum Framsóknarflokksins hefur þóknast að láta spila hér.

Ég skil ekki enn þá fyrirvara Dagnýjar Jónsdóttur og ég segi það alveg hreinskilnislega að ég mundi meta það meira við hana að segja bara að lokum já við þessu frumvarpi hennar vegna, vegna virðingar hennar og vegna framtíðar hennar sem þingmanns, (Gripið fram í.) að taka bara þá afstöðu og standa á henni með einhverjum rökum, heldur en að sitja hjá eins og þingmaðurinn ætlar að gera vegna þess að allur ferill málsins hefur verið þannig að hún byrjaði á að þurfa að skýra hvers vegna hún ætlaði ekki að greiða atkvæði gegn frumvarpinu en núna er í raun og veru spurningin einungis orðin sú: Bíddu, hvaða litla arða, hvaða litli múrsteinn er það sem stendur á milli hjásetu hennar og þess að taka fullan þátt í liðsheildinni sem stendur hér í dyrunum og er skipuð úrvali af hv. þingmönnum Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks á 140 milljón króna daginn? Sem ég (DJ: Það er gott að eiga góða að …) óska hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur að lokum enn til hamingju með.