131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[15:29]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Gunnar Birgisson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í mínu ungdæmi þegar ég var í háskóla var þetta kallað innritunargjöld. Ég man hvað maður var ægilega fúll að þurfa að borga þetta. En það eru ekki skólagjöld, það er ekki það sama. Það er alveg klárt hver stefna Sjálfstæðisflokksins og ríkisstjórnarinnar er í þessum málum. Það verða ekki skólagjöld í grunnháskólanámi.

Það er verið að tala um að setja skólagjöld á framhaldsháskólanám sem er eðlilegt. Fólk er að fjárfesta í menntun og framtíð sinni og það er eðlilegt að menn borgi skólagjöld í framhaldsháskólanámi.

Hvers vegna eru menn að þessu? Jú, bæði til að fullnægja því að þeir vilji læra meira og sjá betra líf fram undan með einhverjum hætti.