131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[15:30]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson spurði hæstv. forseta eftir því áðan hvar væri að finna hæstv. menntamálaráðherra. Og ég spyr nú, hæstv. forseti: Hvað dvelur orminn langa? Eru menn að taka í gegnum þingið grundvallarbreytingu á íslensku menntakerfi, hverfa frá því að taka ekki skólagjöld án þess að hæstv. menntamálaráðherra ætli að vera við umræðuna, frú forseti?

(Forseti (JBjart): Hæstv. menntamálaráðherra mun vera komin í húsið og er væntanlega á leiðinni í þingsal.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir að bregðast svo skjótt við, því sannast sagna verð ég að segja að mér finnst lítið leggjast fyrir Sjálfstæðisflokkinn í málinu, jafnvel þó að hv. þm. Gunnar Birgisson sé svo að segja með málið í forsjá sinni sem formaður menntamálanefndar finnst mér ekki hægt að ljúka málinu án þess að hæstv. menntamálaráðherra komi og taki til máls og svari þeim spurningum fram hafa komið.

Ég geri mér mætavel grein fyrir að hæstv. menntamálaráðherra og stjórnarliðið heldur því fram að hér sé ekki um skólagjald að ræða. Ég er alfarið annarrar skoðunar. Jafnvel þó að hv. þm. Dagný Jónsdóttir sé ekki í salnum og vissulega með löggilta fjarveru nákvæmlega þessa stundina verð ég samt að segja að ég kaupi ekki þær skýringar sem hv. þm. Dagný Jónsdóttir hefur fært sem rök fyrir því að hér sé ekki um skólagjöld að ræða. Þau rök sem hún hefur fært, eins og ég hef skilið þau, hafa aðallega byggt á eftirfarandi: Gjaldið sem tekið er og kallað er skrásetningargjald leiðir ekki til þess að framlag til háskólanna sé minnkað. En samkvæmt því væri hægt að stöðva hækkun á framlögum til háskóla, hækka það ekki um krónu héðan í frá en hækka skólagjöld og segja samt sem áður að skólagjöldin yrðu ekki til þess að lækka framlög ríkisins. Þar af leiðandi mundi hv. þm. Dagný Jónsdóttir og hæstv. menntamálaráðherra, samkvæmt eigin skilgreiningu, geta haldið því fram að ekki væri um skólagjöld að ræða. Þetta er auðvitað af og frá.

Hæstv. menntamálaráðherra þarf að gera hreint fyrir sínum dyrum um hver afstaða hennar til skólagjalda sé. Málið snýst auðvitað öðrum þræði um það. Við í stjórnarandstöðunni vísum til margra yfirlýsinga hæstv. ráðherra, sem hafa að vísu verið mjög misvísandi, en við höldum því fram með okkar rökum sem við teljum gild að hér sé í reynd um feluskólagjöld að ræða, verið sé að fara þá leið sem við teljum að séu skólagjöld — sem var leiðin sem hæstv. menntamálaráðherra lýsti yfir þegar hún tók við embætti að hún hygðist fara. Hvort sem hæstv. ráðherra er sammála því sem við segjum eða ekki og leiðir til þeirrar niðurstöðu að um skólagjöld sé að ræða finnst mér einfaldlega sem ríkisstjórnin geti ekki lokið við umræðuna á síðasta degi áður en við förum til jólahlés án þess að skýra afstöðu sína til málsins.

Hæstv. menntamálaráðherra hóf feril sinn á því að lýsa afstöðu sinni til skólagjalda í miklu viðtali sem birtist í Fréttablaðinu. Þar talaði hún ansi kokhraust um það að hún hygðist beita sér fyrir því að skólagjöld yrðu tekin upp, enda var það ein af leiðbeiningunum sem hún fékk í leiðara Morgunblaðsins þegar hún tók við embætti, þar sem m.a. var sagt að framtíð hennar sem stjórnmálamanns og sem menntamálaráðherra mundi ráðast af því með hvaða hætti henni tækist að ljúka því máli.

Svo að segja samstundis sem hæstv. ráðherra hafði lokið viðtalinu í Fréttablaðinu fór hún á fund í háskólanum þar sem stúdentar tóku á henni af hörku. Það varð til þess að hún gaf yfirlýsingu sem ekki var hægt að skilja öðruvísi en svo að hún væri fallin frá hinni upphaflegu stefnu sinni um skólagjöld. Þegar hún kom síðan hingað til þings og ræddi þetta hér var hún komin með þriðju stefnuna. Þá var hún farin að tala um að það væri í lagi að setja skólagjöld á tiltekið nám en ekki grunnnám.

Þegar hún ræddi síðan skömmu síðar, ég held að það hafi verið í febrúar eða mars á þessu ári, skólagjöld í fjórða sinni vísaði hún til svars sem hún hafði gefið hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur um kostnaðinn við skólagjöld. Þá kom fjórða útgáfan hjá hæstv. menntamálaráðherra um skólagjöldin. Þá hét það í munni hæstv. ráðherra að það væri í lagi að setja gjöld svo fremi sem lánasjóðurinn mundi örugglega lána fyrir því.

Mér finnst þess vegna, frú forseti, eftir að hæstv. menntamálaráðherra er búin að fara eins og köttur í kringum heitan graut, hringsnúast í kringum sjálfa sig, hafa uppi margar stefnur, skuldi hún ekki bara sjálfri sér það, sínum flokki og okkur í stjórnarandstöðunni að skýra afstöðu sína, hún skuldar það umfram allt þeim unga þingmanni sem hefur e.t.v. lent harðast í umræðunni, hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur. Ég verð að segja að mér finnst það ekki stórmannlegt af hæstv. ráðherra að hafa lagt á flótta í málinu, verið víðs fjarri en látið alla umræðuna mæða á talsmanni Framsóknarflokksins, hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur. Þó að ég sé algjörlega ósammála þeirri afstöðu sem hv. þm. Dagný Jónsdóttir hefur ætla ég henni ekki annað en að fylgja sannfæringu sinni í málinu. Það er meira en hægt er að segja um hæstv. menntamálaráðherra vegna þess að enginn maður áttar sig á því hver sannfæring hennar er í málinu, hún hefur haft svo margar uppi. Munurinn á hæstv. ráðherra og hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur er þó sá að hv. þingmaður stendur við það sem hún segir og hún hefur sannfæringu, sem menn skilja að vísu, en það er ekki hægt að segja það um hæstv. ráðherra.

Komum svo að upphæðinni sem skrásetningargjöldin eru. Það er verið að taka 140 millj. Það getur vel verið að það sé ekki stór upphæð í augum hæstv. ráðherra. Við höfum hlustað á talsmann Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum, hv. þm. Pétur H. Blöndal, sletta í góm og tala eins og 280 millj. í öðru máli skipti engu máli, þannig að hugsanlega skiptir þessi upphæð sem er samanlagt 140 millj. litlu máli. En undir hvað fellur hún, hverjir eiga að borga hana? Það eru námsmennirnir. Fá þeir lánað fyrir henni? Hæstv. ráðherra sagði að það væri í lagi þó að einhvers konar álögur kynnu að koma á stúdenta í framtíðinni og jafnvel þó að um skólagjöld væri að ræða ef það yrði lánað fyrir þeim. En þessar 140 millj. kr. eru teknar af íslenskum námsmönnum, af aflafé þeirra, og þeir geta ekki fengið lánað fyrir þeim og þeir geta ekki unnið sér fyrir því vegna þess að þá minnka þau lán sem þeir hafa. Þetta finnst mér níðangurslega gert.

Mér finnst að ef ríkisstjórnin ætlar á annað borð að velta þessum aukna kostnaði yfir á námsmenn verði hún að vera sjálfri sér samkvæm og vera a.m.k. rökrétt í afstöðu sinni og sjá til þess að námsmenn fái lánað fyrir honum. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig stendur á því að svo er ekki?

Það er með engu móti hægt að halda því fram að hér sé ekki um tekjuöflun að ræða sem er beinlínis staðið í til að afla fjármagns til þess að geta rekið háskólana, því að hvað sem menn segja um menntastefnu Sjálfstæðisflokksins, sem ég hef ekki mikið álit á, blasir það við að eftir 20 ár er íslenskt menntakerfi undir stjórn Sjálfstæðisflokksins ansi illa lúið. Við sjáum það ekki bara á ýmiss konar samanburði sem er gerður á getu íslenskra barna í grunnskólanum, við sjáum það á ýmsum öðrum ábendum úr kerfinu.

Það sem mér finnst sárgrætilegast eftir að hafa í gegnum margra ára skeið tekið þátt í því að slást fyrir frelsi til náms og jafnrétti til náms er sú staða að nú gerist það í fyrsta skipti undir nýjum hæstv. menntamálaráðherra að það sem við börðumst fyrir árum saman og héldum að við hefðum náð fram, þ.e. að fólk gæti að uppfylltum ákveðnum skilyrðum hafið háskólanám á Íslandi án þess að hafa að baki tilskilin stúdentspróf svo fremi sem það hefði ákveðna lífsreynslu og hefði náð ákveðnum aldri. Þetta er búið í dag. Menn komast ekki í háskóla með sama hætti og áður.

Það liggur líka fyrir að í fyrsta skipti í mörg ár komast ekki þeir í háskóla sem hafa öðruvísi próf og réttindi en hefðbundið bóknámsstúdentspróf veitir, og þetta er grátlegt. Þetta er vegna þess að í miðju góðærinu sem Sjálfstæðisflokkurinn montar sig af þessa dagana, í miðri gósentíðinni þar sem smjörið drýpur svo af hverju strái að hægt er að eyða milljarðatugum í að lækka skatta hefur hæstv. menntamálaráðherra ekki kraft í sér, ekki döngun í sér til þess að tryggja að hægt sé að reka íslenska háskóla með framlögum frá ríkinu eins og áður var. Þess vegna hrekst hún í þetta án þess að hafa mótaða stefnu um skólagjöld, að búa til eitthvað sem heitir skrásetningargjöld sem eru orðin svo há að það er ekki hægt að skilgreina þau með öðrum hætti en skólagjöld. Af hverju er verið að ná í þessa peninga? Af því að þeirra er þörf til þess að reka háskólana. Þetta er í reynd ekkert annað en svar við því að hæstv. ráðherra hefur ekki tekist að afla fjár til rekstursins.

Við vitum það vel sem höfum einhverja nasasjón af íslenskum háskólum að það vantar 500–800 millj. til þess að geta rekið þá með sómasamlegum hætti. Við vitum líka að þúsund manns fengu ekki inni í Kennaraháskóla Íslands. Við vitum líka að það sem sker Ísland frá ýmsum þjóðum sem það ber sig oft saman við um mennt og menntastefnu er sú staðreynd að samanburðarþjóðirnar hafa ráðist í mikilvirkar fjárfestingar í menntakerfinu með þeim árangri t.d. að Finnar sem hófu stefnuna fyrir 15 árum eru komnir í fremstu röð.

Hvað hefur verið gert á Íslandi? Á Íslandi hefur menntakerfið verið undir sleitulausri stjórn Sjálfstæðisflokksins í 20 ár. Það veldur því að stöðugt sígur á ógæfuhliðina þegar um er að ræða samanburð okkar við aðrar þjóðir. Það er ástæðan fyrir því að verið er að reyna að knýja íslenskt menntakerfi á braut skólagjalda. Þetta snýst ekki um neitt annað og þegar hv. þm. Dagný Jónsdóttir er af veikum burðum að reyna að andæfa þessu — og svo geta menn metið hversu vel henni tekst til — er hún ekki að gera neitt annað en að fylgja þeirri stefnu sem hún fylgdi og margir sem hafa barist í forustu námsmannahreyfinganna, að vera á móti skólagjöldum. Hún er líka að reyna að fylgja fram stefnu Framsóknarflokksins. Þess vegna á hún að ýmsu leyti heiður skilinn miðað við aðra hv. þingmenn Framsóknarflokksins vegna þess að þeir eru að brjóta samþykktir flokksins.

Á flokksþingi Framsóknar var samþykkt að ekki skyldu tekin upp skólagjöld en Framsóknarflokkurinn er, eins og í svo mörgum öðrum málum, að leggjast hundflatur fyrir Sjálfstæðisflokknum. Ég vil segja að lokum að mér finnst lítið leggjast fyrir hæstv. menntamálaráðherra að láta Framsóknarflokkinn bera alla byrðina í málinu. Þetta sjáum við í hverju málinu á fætur öðru, horfum bara á þau skattamál sem hafa verið uppi í dag og í gær þá er það auðvitað þannig, eins og Framsóknarflokkurinn hlýtur að finna, að hann lendir því að verja það sem erfitt er en hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal, berja sér á brjóst og hrósa sér af því sem vel tekst til. Eins er það í þessu máli. Hæstv. menntamálaráðherra leggst á flótta og það þarf sérstakar aðgerðir til þess að flytja hana til umræðna hér og Framsóknarflokkurinn er látinn taka umræðuna. Ja, miklir menn erum við.

Frú forseti. Ég óska eftir því að hæstv. menntamálaráðherra skýri það út fyrir aumum mér hvernig hægt er að komast að þeirri niðurstöðu að skrásetningargjöldin sem hafa nú hækkað um 140 millj. séu ekki skólagjöld.

Í öðru lagi óska ég eftir því að hæstv. ráðherra geri a.m.k. grein fyrir því hver afstaða hennar til skólagjalda er á þessari stundu. Ég veit að vísu að sú afstaða kann að vera önnur en hæstv. ráðherra hafði í gær og önnur en hún kann e.t.v. að hafa í næstu viku. En hver er hún núna? Hver er afstaða ríkisstjórnarinnar til skólagjalda við ríkisháskólana?