131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[15:45]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég ætla ekki að halda mjög langa ræðu. Það er búið að segja flest af okkar hálfu, þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem segja þarf í þessu máli. Öðrum þræði kom ég hingað í ræðustól til að lýsa vonbrigðum mínum með það hvernig umræðan þróaðist á köflum áðan og snerist upp í innansveitarkróníku úr menntamálanefnd sem mér fannst eiga ákaflega lítið erindi í opna umræðu í þingsalnum.

Ég vil biðja menn þess lengstra orða að reyna að útkljá deilumál sín í þingnefndum á þeim vettvangi. Menn eiga að vera menn til að takast þar á og leysa úr ágreiningi sínum þar, hvort sem það snýr að móttöku gesta, fundarstjórn eða öðru slíku. Annars verður bara að leysa menn frá þeim verkum, ekki síst formenn þingnefnda sem ekki geta haft sæmilegan vinnufrið í nefndum sínum. Meira þarf eiginlega ekki að segja um það.

Þetta mál er efnislega ákaflega einfalt. Hægri menn ráða lögum og lofum í stjórnarsamstarfinu sem aldrei fyrr og þá hefur lengi munað í skólagjöld, auðvitað. Hafa menn einhverjar efasemdir um að draumsýn hægri manna sé heimur þar sem menn geti keypt sér forgang og forréttindi til menntunar eins og annarra hluta í krafti peninga sinna, ef þeir hafa þá? Við höfum iðulega heyrt þann málflutning. Menn spyrja oft: Er nokkuð óeðlilegt að menn borgi fyrir þessa fjárfestingu sem þeir ráðast í? Af hverju ættu aðrir að borga fyrir menntun þessa hóps? Svona hafa menn spurt og undirliggjandi er draumsýnin, þessi hugmyndafræði um heim sem sé svona úr garði gerður, að menn eigi fyrst og fremst að njóta auðlegðar sinnar í því að geta þá keypt sér betri þjónustu, betri menntun, betri læknisþjónustu og legið á dýrari spítölum. Þetta er auðvitað svona.

Sjálfstæðisflokknum verður býsna ágengt eins og venjulega. Hann nær að vísu ekki fram fullum sigri með hreinum skólagjöldum, umbúðalaust og ódulbúið. En hann beygir auðvitað Framsókn í duftið í þessu máli eins og flestum öðrum, þ.e. litla íhaldið. Litla íhaldið má lúta í gras, eins og vinur okkar Bjarni Felixson mundi orða það, í þessu máli eins og svo mörgum öðrum.

Auðvitað er málaumbúnaðurinn allur með endemum og til mikillar skammar. Mér finnst satt best að segja að það hefði verið miklu hreinlegra og heiðarlegra að sleppa þessum loftfimleikum, með reiknikúnstum og æfingum, og viðurkenna að menn vilji skólagjöld í opinberu háskólunum. Hvernig í ósköpunum hugsa menn sér það í framtíðinni að sundurgreina alla stoðþjónustu utan um kennslu í háskólum, láta stúdenta bera hluta af kostnaðinum þar og kalla það skráningargjöld? Hvaða þvæla er þetta?

Hvernig er hægt að aðskilja þá aðstöðu og þjónustu sem er í akademískri stofnun, hvort sem það er rekstur bókasafns eða annað slíkt, frá starfseminni sem slíkri, frá gæðum þeirrar menntunar sem þar er boðið upp á með allri þeirri stoðþjónustu sem góður háskóli þarf að hafa? Ég gef ekkert fyrir þetta. Þetta er skrípaleikur að mínu mati.

Auðvitað er hægt að hugsa sér það að menn hafi það mjög þröngt skilgreint hvað lýtur að móttöku umsókna stúdenta og úrvinnslu úr þeim og skráningu þeirra inn í kerfið og annað því um líkt. Það ætti þó ekki að vera flókið, á tímum rafrænnar tækni, að gera það án verulegs kostnaðar. Ég er sannfærður um að það væri hægt að leysa með svona 5–10 þús. kr. í kostnað. Það væri í raun hreinn skrásetningarkostnaður nemanda inn í háskóla. Jafnframt væru innheimt gjöld í leiðinni sem renna til samtaka stúdenta o.s.frv. en það eru engin rök fyrir kostnaði af þeirri stærðargráðu sem hér um ræðir, sem hleypur orðið á mörgum tugum þúsunda.

Jafnvel þótt það væru rök fyrir gjaldtökunni þá er það bara þannig, frú forseti, að 45 þús. kr. eru 45 þús. kr. og 75 þús. kr. verða 75 þús. kr. ef þeim dettur næst í hug að hækka gjaldið í það. Upphæðin er hin sama hvert sem nafnið er sem menn setja á þetta. Ég gef ekkert fyrir æfingar af þessu tagi.

Mergurinn málsins er sá að ríkisstjórn sem reynir í öðru orðinu að telja okkur trú um að svo blómlegt sé í búi að hægt sé að afsala ríkinu tekjum upp á 25–30 milljarða kr. á næstu missirum er í hinu orðinu að sækja sér 140 millj. kr. ofan í vasa námsmanna með þessum lúalegu aðferðum og fleiri aðgerðum af sama toga. Ríkisstjórnin hefur því takmörkuð rök fram að færa ef það á að taka málflutning hennar alvarlega, t.d. í skattamálum.

Hins vegar munar um 140 millj. kr. fyrir umræddar stofnanir, í því fjársvelti sem ríkisstjórnin hefur samviskusamlega haldið þeim við. Íhaldið hefur þjónað lund sinni í skólamálum eins og allir vita, með því að svelta opinberu háskólana og dekra við gæludýrin. Það er óopinbert leyndarmál. Þeir sem njóta velþóknunar, eru í náðinni hafa rétta bókstafi aftan við nafnið lifa í mun meiri vellystingum. Það er bara pólitík íhaldsins hrein og klár. Þetta er ekki flókið, ekki á nokkurn skapaðan hátt.

Auðvitað er dapurlegt að sjá þetta með fyrstu embættisverkum menntamálaráðherra. Síðan lenda ungir þingmenn í þessum óskaplegu hremmingum, eins og hv. þm. Dagný Jónsdóttir. Ég ætla ekki að taka þátt í að strá þar salti í sárin. Mér finnst menn hafa gert meira en nóg af því hér, sumir ónefndir félagar mínir. En auðvitað verður hv. þingmaður að axla ábyrgð á pólitískum athöfnum sínum.

Ég gæti rifjað það upp, sem ætti fullt erindi inn í þessa umræðu, að hv. þm. Dagný Jónsdóttir fór mikinn í skóla- og menntamálum í aðdraganda síðustu kosninga. Hún gerði út á það að hún ætlaði að vera sérstakur fulltrúi, baráttumaður og hagsmunagæslumaður námsmanna. Það vill svo til að ég er kjörinn í sama kjördæmi og hv. þm. Dagný Jónsdóttir. Mér satt best að segja blöskraði á köflum hve frjálslega hv. þingmaður fjallaði um hlutina í ljósi þess að hún bauð sig fram fyrir flokk sem átti aðild að ríkisstjórn. Hv. þingmaður talaði á köflum eins og hreinn stjórnarandstæðingur, vissulega ný í framboði en eins og hún bæri ekki nokkra minnstu ábyrgð á því sem gert hefði verið í menntamálum eða pólitík yfirleitt fram að því þótt hún væri að vísu í Framsóknarflokknum og ætlaði að bjóða sig fram til þings fyrir hann.

Svo liggur náttúrlega leið hv. þingmanns inn á Alþingi. Þá reynast hlutirnir ekki alltaf svo einfaldir, þegar menn þurfa að fara að standa fyrir afstöðu sinni í atkvæðagreiðslu á þingi o.s.frv. Þá vandast málin eins og komið hefur á daginn.

Frú forseti. Mér er auðvitað efst í huga, af því að ég hef fylgst með og barist lengi í málefnum námsmanna allt frá því ég var sjálfur í baráttu fyrir þá í stúdentaráði í Háskóla Íslands, fyrir nokkrum árum síðan að vísu, og í gegnum veru mína á þingi í yfir 20 ár, sá slagur sem aftur og aftur hefur komið upp um grundvallaratriði eins og jafnrétti til náms. Það er eins með jafnrétti til náms, þetta fallega hugtak, og lýðræðið sjálft. Það er ekki sjálfgefið. Það þarf að rækta og passa upp á það.

Það hafa verið gerðar atlögur að því kerfi. Eða muna menn ekki slagsmálin sem hér hafa ítrekað orðið á síðustu 25 árum um málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna? Íhaldið, hægri menn, hafa gert margar atlögur að því fyrirkomulagi og kostaði ekki lítil átök að koma því á á sínum tíma. Það hrikti stundum hressilega í þá. En með mikilli samstöðu námsmanna á þeim tíma og afla sem þá studdu bæði innan þings og úti í þjóðfélaginu náðist sú merka löggjöf í gegn og hefur að mestu leyti tekist að verja hana á þeim grundvelli sem hún var hugsuð, að hún tryggi að enginn þurfi að hrökklast frá námi eða geti ekki sótt sér menntun á háskólastigi sökum bágs efnahags. Grundvallaratriði málsins er það að með slíkum hætti sé tryggt að fjárhagur mismuni mönnum ekki í þessum efnum. Það er sjálf undirstaða og grundvallarhugsun jafnréttisþjóðfélagsins.

Jafnrétti til náms er stór hluti af þeim grunngildum, þ.e. mannréttindum, sem lýðræðislegt og jafnréttissinnað velferðarsamfélag á að byggja á. Ég skilgreini það sem mannréttindi að fá að þroska hæfileika sína og afla sér menntunar innan þess ramma sem efnahagur viðkomandi þjóðfélags yfir höfuð býður upp á. Ég skilgreini það hiklaust sem mannréttindi. Það væri mannréttindabrot að mínu mati ef efnilegt námsfólk gæti ekki nýtt hæfileika sína og þroskað sig í gegnum menntun.

Af hverju tala ég um þetta? Jú, það er vegna þess að við erum komin inn á grátt svæði um leið og við förum út í umtalsverða gjaldtöku af þessu tagi sem ekki eru veitt námslán fyrir. Það er bara staðreynd. Ég held að það að mönnum sé tryggður jafn aðgangur að grunnnámi á háskólastigi með opinberu háskólanámi án skólagjalda, þar sem ekki eru fjöldatakmarkanir nema í einstökum greinum þar sem slíkt er óumflýjanlegt, sé hornsteinn jafnréttis til náms. Á því verður að byggja og treysta á almenna opinbera háskóla, opna skóla án fjöldatakmarkana og skólagjalda. Það er forsenda jafnréttis til náms á háskólastigi.

Það er því miður ekki þannig í mörgum löndum sem við þekkjum til að jafnrétti sé til náms. Jafnrétti til náms er t.d. ekki til staðar í Bandaríkjunum. Það er óravegur frá því. Við höfum brothætta og verðmæta hluti í höndunum þegar við fjöllum um þau mál er varða námslánalöggjöfina, útfærsluna þar, eða grundvallardeiluna um skólagjöld eða ekki skólagjöld.

Þróunin er öll í eina átt eins og hér hefur verið bent á. Áráttan er til staðar og hún stjórnar ferðinni í sameiningu Tækniháskólans og Háskólans í Reykjavík. Þar á að taka grunnnám og nám sem verður hvergi annars staðar í boði, skella því inn í hlutafélag og heimila því hlutafélagi að taka upp há skólagjöld. Hvað er þá orðið um jafnrétti til náms í því tilviki? Þá er strax vegið að því, það er augljóst mál.

Hér hefur rækilega komið fram í máli þingmanna á undan mér, t.d. hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur, Jóns Bjarnasonar og annarra sem um hafa rætt við þessa umræðu og fyrr, að við erum andvíg því að menn haldi út á þessa braut. Við munum ekki sætta okkur við það, verði sú óhæfa lögfest, að það standi þannig eftir. Það er fráleitt að vísa til þess eða reyna að skjóta sér á bak við það að stjórnendur þessara stofnana, í þeim miklu þrengingum sem þeir hafa búið við, vilji þessar gjaldtökur. Ég mótmæli því vegna þess að ef aðstæðurnar neyddu þá ekki til þess þá hef ég enga trú á að það sé skólastefna sem þessir ágætu skólamenn og stjórnendur vilja í reynd að sé við lýði hér í landinu. Því trúi ég a.m.k. ekki ótilneyddur. Það á því að henda þessu frumvarpi út í hafsauga.

Ég vil að lokum, frú forseti, hrósa námsmönnum fyrir að hafa þó háð einarða baráttu gegn þessum gerningi og sýnt mikla samstöðu í þeirri baráttu. Það er vel. Það verður auðvitað dapurlegt ef hún, ásamt viðleitni okkar í stjórnarandstöðunni, dugar ekki til að koma vitinu fyrir hæstv. ríkisstjórn, hvorki stóra íhaldið né litla íhaldið. En það verður þá að bíða betri tíma að leiðrétta þau mistök.