131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[15:59]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Það hefur verið forvitnilegt að hlusta á ræður hv. þingmanna í dag og heyra á hvað þeir hafa haft fram að færa í þessu máli. Það er greinilegt að okkur greinir mjög á um þetta. Það er alveg ljóst að í mínum huga er þetta fyrst og fremst skráningargjald. Þetta er innritunargjald. Það er verið að greiða hér fyrir ákveðna þjónustu. Flokkarnir hafa í rauninni viðurkennt að þá leið sé hægt að fara með því að segja: „Jú, við skulum frekar hafa gjaldið óbreytt.“ Með því eru þeir auðvitað að segja að svona gjald eigi rétt á sér, svona skrásetningargjald eða innritunargjald eigi rétt á sér. Ég man ekki betur en að þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson var í meiri hluta á þingi árin 1991–1995 og ráðherra í einhver missiri þá hafi einmitt flokkur hans staðið að því að staðfesta þessi skráningargjöld. Síðan er allt í einu ekki hægt að viðurkenna tilvist þessara gjalda eins og þau eru í dag. Þau hafa ekkert breyst.

Það er alveg ljóst í mínum huga þegar forsvarsmenn Háskóla Íslands komu á fund til mín og fóru m.a. fram á þessa hækkun að ekki yrði nein umframhækkun nema þeir gætu sýnt fram á að um raunverulega þjónustu væri að ræða í því sambandi. Þar fyrir utan er drjúgur hluti af þessari hækkun verðlagsuppbætur. Það er nú einu sinni þannig líka. Menn skulu því hafa þessar staðreyndir á hreinu. Menn hafa í verki, ýmsir þingmenn, viðurkennt tilurð og tilvist skráningargjaldanna. Þá verðum við bara að hafa það þannig að þau séu til. Þá það þýðir ekkert að hunsa þau. Þá er bara ósköp einfalt að fara yfir þá þjónustu sem háskólarnir hafa sýnt fram á að þeir veita, kostnaðarsama þjónustu sem er umfram kennslusamningana sem við höfum gert við alla ríkisháskólana.

Auðvitað skilur maður stúdentana. Þetta var líka þannig þegar ég var í háskólanum. Auðvitað vill maður ekki hærri skráningargjöld eða innritunargjöld. Það liggur nú bara einu sinni í hlutarins eðli að stúdentar eru á móti hækkun slíkra gjalda. Þess vegna furðar það mig þegar hv. þingmenn eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson koma alveg af fjöllum og reyna að segja þetta vera skólagjöld. Skólagjaldaumræðuna tökum við og munum taka. Við munum óhrædd taka þá umræðu. Það hefur enginn verið hræddur við að taka þá umræðu. Þessar fáránlegu söguskýringar hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar eru svona álíka áreiðanlegar og stefnufesta hans eigin flokks, til að mynda í skattamálinu, sem vill ekki einu sinni kannast við eigin stefnu og eigin kosningayfirlýsingar í skattamálum sem lagðar voru fram fyrir kosningar. Þvílík er stefnufestan. Kannski hefur ekki verið nægilega mikið talað við símastrákinn.

Það er ljóst að stuðningur ríkisins við háskólanám á undanförnum árum hefur aukist umtalsvert. Að sjálfsögðu er aldrei nóg að gert. Ég tek undir það. Það er aldrei nóg að gert þegar kemur að málefnum háskólanna. Það er hlutverk menntamálaráðherra hvers tíma að berjast fyrir auknu fjármagni inn í sinn málaflokk, ekki bara til þess að setja meiri pening í einhver verkefni heldur eru þetta ein verðugustu verkefni sem við stöndum frammi fyrir í nútímanum, þ.e. að byggja upp okkar menntakerfi sem við höfum staðið að með myndarbrag. Nemendum í háskólanámi hefur fjölgað um 54% frá árinu 2000. Slíkir hlutir gerast ekki af sjálfu sér. Auðvitað gerast þeir á grundvelli stefnu og það var markviss stefna í heiðri höfð þegar háskólum var fjölgað, tækifærum námsmanna til þess að velja sér nám var fjölgað og um leið varð það til þess að áhugi einstaklinganna jókst og við höfum ekki séð fleiri í háskólanámi á Íslandi en nú í dag. Árið 1995 voru fjárframlög ríkisins til háskólamála 0,5% af þjóðarframleiðslu. Árið 2001, eins og margir hafa sagt, voru þau 0,9%. Það er heldur ekki nóg. En það hefur ekkert land innan OECD-ríkjanna aukið hlutfall sitt jafnmikið til háskólamála og Ísland á þessu árabili, ekki heldur þau viðmiðunarlönd sem við viljum bera okkur saman við eins og Norðurlöndin og eins og aðrar þjóðir. Þær þjóðir hafa líka staðið frammi fyrir þessari gríðarlegu ásókn í háskólanám og það er gleðilegt. En hvernig hafa þær þjóðir ýmsar mætt þessari aukningu? Þær hafa mætt fjölgun nemenda með því að skera niður fjárframlög til háskólanna á hvern einstakling. Þannig hafa þau mætt því en ekki við.

Sérstakt var að heyra hv. þingmenn hér fjalla um skólakerfið og vísa m.a. í PISA-rannsóknina. PISA-rannsóknin er nýkomin fram og varðar könnun á þekkingu og færni 15 ára nemenda í grunnskólum í lestri, stærðfræði og náttúruvísindum. Að þessu sinni var lögð áhersla á stærðfræði þar sem bakgrunnsupplýsingarnar eru fleiri. Það var í rauninni alveg undrunarefni að heyra hv. þingmenn, til að mynda Össur Skarphéðinsson, segja að grunnskólinn hefði setið eftir, að skólakerfið væri ekki nægilega gott.

Ég vil undirstrika að við eigum alltaf að stefna að því að vera í forustu og að því hefur verið stefnt. Varðandi lestrarkunnáttuna og náttúruvísindin þá getum við ekki farið nægilega mikið í bakgrunninn þar. En við þurfum að gera betur. Við þurfum að gera mun betur og það er alveg ljóst. Við höfum hins vegar ekki lent í því sama og aðrar þjóðir, til að mynda Danmörk, þ.e. verið að húrra niður töfluna í PISA-rannsóknunum.

Síðan loksins þegar við erum að ná árangri til að mynda í stærðfræði sem er lofsvert, þar sem stelpurnar okkar eru í fremstu röð, þá er það algjört undrunarefni að það má ekki lengur tala um góðan árangur stelpna í menntakerfinu. Íslendingar eru eina þjóðin af þessum 41 þar sem stúlkurnar skara fram úr og það á bara að sussa það niður. Það gera meira að segja foreldrar stúlkna hér inni. Það má ekki einu sinni ræða árangur stúlknanna heldur á að berja niður sjálfstraust þeirra með svartsýnistali og reyna að draga niður það sjálfstraust sem fyrir hendi er. (Gripið fram í.)

Að sjálfsögðu ætlum við að gera betur á því sviðinu og ég vildi aðeins fara inn á þetta því að hv. þingmenn voru að koma inn á þetta í sínum ræðum áðan og sjálfsagt og eðlilegt er að ræða það. Það er ekki nema sjálfsagt og eðlilegt að ræða það.

Ég vil undirstrika að við erum nýbúin að samþykkja — það hefur verið hér til umræðu frumvarp um endurgreiðsluhlutfall LÍN. Það er enn eitt frumvarpið sem bendir til þess og sýnir svart á hvítu að ríkið er sífellt að auka framlög sín til háskólamála. Við aukum þar styrk ríkisins úr 48% í 53%. Svo segja menn að ekki sé verið að gera neitt til styrktar háskólasamfélaginu. Að sjálfsögðu er sífellt verið að því.

Ég mótmæli því, hæstv. forseti, að hér sé um feluskólagjöld að ræða. Það er engan veginn þannig. Hér er um innritunargjöld, skráningargjöld að ræða sem hafa verið við lýði, m.a. á dögum ríkisstjórnar sem Alþýðuflokkurinn sat í, sem enginn vill kannast við í dag. Þegar menn viðurkenna slík gjöld þá ber einfaldlega að fara eftir því fyrirkomulagi og þeim ramma sem þau setja okkur.

Skólagjaldaumræðuna getum við tekið síðar. Ég hef þegar lýst því yfir að ég tel ekki rétt að setja skólagjöld á grunnháskólanámið. Af hverju tel ég það ekki koma til greina? Það er af því að ég tel einfaldlega grunnháskólanámið vera orðið það eðlilegt framhald af skólagöngu einstaklingsins. Það er eðlilegt framhald af því námi sem einstaklingarnir taka sér fyrir hendur þegar þeir hafa klárað sitt nám í framhaldsskóla. Það er mín skoðun þó að til að mynda ýmsir háskólamenn — eins og m.a. kom fram á háskólafundi eða málfundi uppi í háskóla í gær þar sem menn voru með mjög ólíkar skoðanir, allt frá því að krefjast þess að háskólinn ætti að fá eina almenna skólagjaldaheimild og vera treyst fyrir því að fara með hana af hófsemd yfir í það að taka engin skólagjöld eða vera með mismunandi stefnu um hvort það eigi að vera skólagjöld í grunnháskólanámi eða framhaldsháskólanámi.

Skoðanir innan háskólasamfélagsins eru því skiptar. Það er brýnt að við tökum umræðuna um skólagjöldin, ræðum kosti skólagjaldanna og galla. Það held ég tvímælalaust. Mér finnst fagnaðarefni að sjá að Samfylkingin þorir inn á þessar brautir þó að hún virki nú ekki mjög samstiga í því. Ekki virðast nú allir taka undir til að mynda orð varaformanns Samfylkingarinnar sem féllu í viðtali í Viðskiptablaðinu, voru höfð eftir henni í Viðskiptablaðinu þar sem sá varaformaður lýsir yfir ákveðnum skoðunum sínum á skólagjöldum. Mér hefur heyrst á hv. þingmönnum Samfylkingarinnar — menn eru að tala hér um litla og stóra. Ég get nefnt það bara stóra afturhaldið. Litla afturhaldið hefur aðrar skoðanir. Samfylkingin ... (Gripið fram í: Ekki gleyma tittunum.) stóra afturhaldið. (Gripið fram í.) Aðrir geta talað um titti. Mér finnst ágætt að tala um afturhald. Mér finnst það prýðisgott, sérstaklega miðað við þá stefnu sem við erum búin að hlusta á hér í dag. Menn geta ekki einu sinni staðið við eigin kosningaloforð. Á þessum degi koma hér upp þingmenn sem geta ekki einu sinni staðið við eigin kosningaloforð. Eitt og hálft ár er liðið frá kosningunum og menn leyfa sér að koma hingað upp í púlt og gera grein fyrir atkvæði sínu (Gripið fram í.) og standa ekki við kosningaloforð eins og hv. þingmenn í Samfylkingunni gerðu hér í dag og er því miður skjalfest. Þetta er þannig.

Hæstv. forseti. Við erum að ræða um hækkun á skrásetningargjöldum. Það hafa verið færð rök fyrir því að þau beri að hækka. Háskólarnir hafa fært gild rök fyrir því. Hv. menntamálanefnd hefur líka staðfest að þær tölur og þau gögn sem hafa verið lögð fyrir nefndina sýna að þessi hækkun á rétt á sér. Engu að síður skilur maður þau mótmæli sem stúdentar hafa haft í frammi. Það liggur í hlutarins eðli, eins og ég gat um í upphafi máls míns, að þeir eiga að vera á móti slíkum hækkunum.