131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[16:20]

Frsm. minni hluta menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Skólagjöld eru það þrátt fyrir skrautbúninginn, um það held ég að flestir séu sammála eftir þessa umræðu.

Hæstv. ráðherra hefur lýst því yfir að hún vilji hefja umræðu um skólagjöld en ég spyr hvort ekki hefði verið snjallara að taka þá umræðu áður en skólagjöldin eru innleidd og þá væru gjöldin lánshæf hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna og ekki verið að skerða kjör námsmanna hreint og beint eins og hérna liggur fyrir. Því vildi ég spyrja hæstv. ráðherra: Mun hún beita sér fyrir því að lánað verði fyrir þessum skólagjöldum í ríkisháskólana eins og öðrum skólagjöldum? Skrásetningargjaldahugtakið, feluleikurinn, feluleikur hæstv. ráðherrans kemur í veg fyrir að lánað sé fyrir þessum skólagjöldum — mun hún beita sér fyrir því að lánað verði fyrir skólagjöldunum?

Í öðru lagi, mun hún beita sér fyrir því að þeir fjármunir sem fram kom í máli rektoranna þriggja að vanti til að skólarnir geti haldið úti eðlilegum rekstri, 500–800 millj. að lágmarki, verði veittir til skólanna?