131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[16:40]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það hefur verið fróðlegt að kynnast viðhorfum hæstv. menntamálaráðherra til skólagjalda. Satt að segja er ég ekki miklu nær um stefnu hæstv. ríkisstjórnar í því efni. Ég ætla hins vegar hvorki að fjölyrða um það né fortíðina í þessum málum.

Það er nú samt gaman að rifja það upp fyrir hæstv. ráðherra og ýmsum þeim sem hlustuðu á ræðu hennar áðan þar sem hún rakti forsögu málsins að 1993 gengu tveir nýir ráðherrar inn í ríkisstjórn Íslands og sá sem hér talar var annar þeirra. Afstaða mín til skólagjalda hafði þá legið alveg ljós fyrir. Þegar frumvarp til fjárlaga kom fram um haustið var gert ráð fyrir nákvæmlega þessari upphæð, 140 milljónum, í þessi gjöld. Ég benti eðlilega á að þessi afstaða mín hefði legið fyrir og ég gæti ekki samþykkt þetta. Mínir eigin flokksbræður voru ekkert hrifnir af því en hæstv. menntamálaráðherra getur hins vegar spurt formann síns flokks hverjar urðu lyktir málsins. Eins og a.m.k. sumir muna eftir sagði þáverandi hæstv. forsætisráðherra að það lægi alveg ljóst fyrir hver hefði verið afstaða þessa manns sem var að stíga inn í ríkisstjórn sem umhverfisráðherra og þar af leiðandi væri ekki hægt fyrir ríkisstjórnina, sem gekk að því vitandi vits hvaða afstöðu hann hafði í málinu, að leggja málið fram. Og þær 140 milljónir í kreppunni miðri skiptu töluverðu máli en þær voru ekki innheimtar með þessum hætti, bara svo það liggi ljóst fyrir.

Tilefni mitt til þess að koma hingað upp er mjög einfalt. Hæstv. ráðherra fékk spurningu fyrr í dag frá tveimur eða þremur þingmönnum Samfylkingarinnar og stjórnarandstöðunnar sem laut að því með hvaða hætti ætti að fara með skrásetningargjöldin. Spurningin var efnislega svona: Ætlar hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að lánasjóðurinn muni í framtíðinni lána fyrir þessum skrásetningargjöldum?

Ég vil ítreka það við hæstv. ráðherra að hún skuldar okkur svar við þessari spurningu. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðherra að þessu og ætla ekki að halda lengri ræðu í dag um þetta: Mun hæstv. ráðherra gera þetta? Hyggst hún beita sér fyrir því sanngirnismáli að skrásetningargjöldin verði metin til láns?