131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[16:59]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki rétt sem fram kom í máli hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur að opinberu háskólarnir hafi setið eftir. Það er engan veginn þannig og það sjá allir og ég hef margoft farið yfir það í tölum hvernig fjármagn hefur þróast og farið yfir til opinberu háskólanna í þessum sama ræðustól. Það er sama hvort um er að ræða Kennaraháskólann, rannsóknarframlögin sem hafa farið til að mynda þangað, Háskóla Íslands eða Listaháskólann. Þó að Listaháskólinn sé sjálfseignarstofnun er hann að mínu mati engu að síður undir hatti ríkisins, a.m.k. að nokkru leyti. Það er því rangt sem fram hefur komið að það hafi ekki fylgt fjárframlögum.

En hvernig er þetta erlendis, í þeim löndum sem við miðum okkur við, eins og til að mynda á Norðurlöndunum? Þar er ekki ákveðið eftir á hvert fjármagnið til háskólanna skuli vera. Það er ákveðið fyrir fram og settur ákveðinn rammi sem háskólarnir búa síðan við. Sá rammi er ekki ákveðinn út frá hugsanlegum fjölda nemenda sem komi til með að sækja um heldur er ákveðin fjárhæð veitt til háskólanna og eftir þeim ramma verða háskólarnir að starfa. Þetta er algild regla um allan heim. Það er ekki þannig að hið opinbera komi að eftir á og rétti af hallann. Þannig höfum við hins vegar gert það hér. Við höfum reynt að mæta þörfum háskólanna, sérstaklega opinberu háskólanna, eftir besta megni.

Mér virðist mikil gróska í háskólasamfélaginu. Við höfum rætt um að tækifæri nemenda hafa aldrei verið fleiri, gróskan aldrei verið meiri og að sjálfsögðu verður verkefni okkar áfram að viðhalda þeirri fjölgun en umfram allt að gæta þess að hlúa að starfinu innan háskólanna. Þá á ég fyrst og fremst við gæði námsins. Það eru stóru verkefnin sem blasa við okkur á næstu missirum, að tryggja (Forseti hringir.) gæðin og fylgjast með því að að hálfu háskólanna skili þau sér til nemendanna eins og þeir eiga kröfu á.