131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[17:01]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í lok umræðunnar langar mig að segja að það er eðlilegt að þeirra spurninga sé spurt sem varpað hefur verið fram við þessa umræðu. Það er nauðsynlegt að við ræðum í þessum sal hvers konar menntastefnu við viljum hafa og hvernig við viljum forgangsraða í þeim efnum. Hvað viljum við styrkja og hvað viljum við efla? Hvað viljum við skera niður? Hvernig teljum við að þeir fjármunir sem fara í gegnum ríkissjóð til opinberu háskólanna nýtist sem best? Alla þessa hluti verðum við að ræða.

Ég hef sagt það í þessum stól og segi það aftur: Ég tel það vitlausa forgangsröðun hjá ríkisstjórn Íslands að leggja slíka áherslu á svo gífurlega hækkun skólagjaldanna, sem kölluð eru skrásetningargjöld. Ég tel að við eigum að forgangsraða á allt öðrum nótum. Ég lýsi mig andvíga þeirri stefnu sem birtist í þeim frumvörpum sem umræðunni er að ljúka um og afgreidd verða til síðustu atkvæðagreiðslu.