131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

330. mál
[17:07]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Við fórum nokkuð ítarlega yfir stöðu lánasjóðsins við 2. umr. Þar gerði ég nokkra grein fyrir þeirri endurskoðun á lánasjóðnum sem ég hefði viljað sjá og umræður um stöðu sjóðsins, hlutverk, tilgang, markmið og ábyrgðarmannakerfið. Í þessu breytingum hefði auðveldlega mátt ganga aðeins lengra í réttlætisátt við breytingar á sjóðnum en aðeins með því að lækka endurgreiðslubyrðina.

Afnema hefði mátt ábyrgðarmannakerfið og ábyrgðarmannakröfuna á námslán. Þá kom fram í máli nefndarformannsins, hv. þm. Gunnars Birgissonar, að einn banki hér á landi, Landsbankinn, gæfi nú kost á því gegn ákveðnu ábyrgðargjaldi að bankinn gangi ábyrgð fyrir námsmenn til allt að 15 ára. Það er gott og vel. En það fjarstæðukennt að halda því fram að bankinn hafi þar með tekið ómakið af stjórnvöldum sem fyrir löngu síðan ættu að hafa séð sóma sinn í að afnema þessa kröfu.

Ábyrgðarmannakrafa lánasjóðsins mismunar. Hér er ekki um að ræða hefðbundna lánastofnun heldur félagslegan jöfnunarsjóð. Þeim er meinað um lán úr sjóðnum sem ekki hafa aðgang að efnuðum eða þokkalega efnuðum ábyrgðarmönnum sem teknir eru gildir af sjóðnum. Það er kjarni þessa máls. Þess vegna er mikilvægt að afnema ábyrgðarmannakröfuna af því að hún mismunar. Ef um hefðbundna lánastofnun væri að ræða giltu um það önnur lögmál. En hér er um að ræða félagslegan jöfnunarsjóð, einn af hornsteinum velferðarkerfis okkar og eitt meginatriði þess að tryggja jafnrétti til náms eða gera tilraun til þess. Því er þetta mjög mikilvægt.

Eins hefði ég viljað sjá fara fram skoðun á því hvort hluti af námslánum ætti ekki að breytast í styrk, hreinan styrk, hafi námsmenn lokið námi á tilskildum tíma. Það hefði mátt taka ýmislegt inn í þessa endurskoðun á sjóðnum en það var ekki gert. Einungis var farin sú leið að leggja til að endurgreiðslubyrðin lækkaði.

Í nefndinni kom að auki til umræðu og aðeins við 2. umr. leið sem námsmannahreyfingarnar allar lögðu til og svo BHM, þ.e. að fara aðra leið til að lækka endurgreiðslubyrðina sem að mörgu leyti er miklu réttlátari, þ.e. að veita skattafslátt, skattbreytingarleiðin. Bókun námsmannahreyfinganna lýtur að stórum hluta að því að skattafsláttur veitist endurgreiðendum tekjutengt. Þar er um að ræða sanngjarna leið sem gott væri að fara í framtíðinni, að næsta skref í lækkun endurgreiðslubyrði verði í gengum það. Fyrir því voru færð sterk rök og athyglisverð. Þótt samstaða hafi verið um að fara þá leið að lækka endurgreiðslubyrðina með þessum hætti þá vil ég að það komi skýrt fram við þessa umræðu að ég er mjög hlynntur því að litið verði til skattafsláttarleiðarinnar til framtíðar þótt nú hafi verið farin þessi leið. Þetta er einföld leið sem samstaða náðist um og samkomulag. Þetta var kosningamál hjá flestum flokkanna og ber að fagna því að þessi niðurstaða náðist.

Þá olli ágreiningi og töluverðri umræðu í nefndinni það sem fram kom í áliti BHM og lýtur að b-lið 1. gr. frumvarpsins, þar sem gerð er tillaga um að málskotsnefnd geti að kröfu stjórnar LÍN frestað réttaráhrifum úrskurða sinna og hins vegar að stjórn LÍN geti höfðað flýtimeðferðarmál til ógildingar á úrskurði æðra stjórnvalds. Í álitinu frá BHM segir, með leyfi forseta:

„Yrði slík heimild til þess að óska frestunar áréttuð í lögum væri eðlilegt að rætt væri um að það væri „málskotsnefndin“ en ekki „hún“ … í 1. málslið b-liðarins til þess að ljóst sé að frestunarvaldið sé hjá málskotsnefndinni en ekki stjórn LÍN. Væri þá eðlilegt að setja inn efnisskilyrði við slíkt mat, samanber til hliðsjónar 3. mgr. 15. gr. laga nr. 30/1992,“ o.s.frv.

Þetta var töluvert rætt og lyktir mála urðu þær að fyrir nefndina var kallaður Páll Hreinsson stjórnsýslufræðingur. Á fundi nefndarinnar í morgun, á dramatískum og frægum fundi sem töluvert hefur verið rætt um í þingsölum í dag (Gripið fram í.) og verður ekki ræddur hér frekar að öðru leyti en því að gera grein fyrir niðurstöðu Páls Hreinssonar, færði hann að mínu mati sterk rök fyrir því að þessi lagabreyting væri réttmæt, í þessu tilfelli með hliðsjón af fordæmum sem vísað er til í almannatryggingalögunum, sé um að ræða sjóði þar sem slíkar ákvarðanir geta haft veruleg fjárhagsleg áhrif á.

Við sátum hjá við afgreiðslu þessa liðar við 2. umr. en munum styðja málið í heild sinni nú. Vinnan var til fyrirmyndar og Páll Hreinsson gerði skýra og góða grein fyrir þessu máli. Við getum stutt málið heils hugar og að öllu leyti. En það var mjög gott að fá þessa ábendingu frá BHM og að málið skyldi til lykta að þessu leyti og fengnar á því útskýringar áður en það færi í gegn. Álit BHM var þó að öllu leyti réttmætt og Páll tók undir það að það væri alveg rétt, að um væri að ræða undantekningar og frávik, þannig að þetta væri fullkomlega rétt ábending hjá BHM. Hins vegar væru rök fyrir frávikinu, væru rök fyrir undantekningunni, og ég fellst á það.

BHM lagði til að málskotsstigið yrði flutt aftur til hæstv. menntamálaráðherra, enda ber hann pólitíska og lagalega ábyrgð á þessum málum samkvæmt stjórnarskránni í stað þess, eins og segir í áliti BHM, að veikja sjálfstæði sérfróðrar málskotsnefndar.

Að öðru leyti fór ég töluvert yfir það við 2. umr. hvernig og hvaða breytingar ég mundi vilja sjá gerðar á lánasjóðnum þannig að hann gæti staðið undir hlutverki sínu. Eins beindi ég spurningum til hv. formanns menntamálanefndar og að sjálfsögðu til hæstv. menntamálaráðherra sem því miður þurfti að fara héðan áðan og gat ekki lokið þeirri merkilegu menntamálumræðu sem hér hefur farið fram í dag og hún hefur að mjög litlu leyti getað verið við. Spurningarnar voru um hlutverk lánasjóðsins í ljósi þeirra breytinga sem ríkisvaldið er að gera á grunnnámi á háskólastigi þar sem verið er að skólagjaldavæða það, ekki bara í ríkisháskólunum þremur sem eftir standa ef Tækniháskólinn verður lagður niður, og lánasjóðnum ætlað að fjármagna grunnnámið að miklu meira leyti. Ég spurði hvort þetta hafi verið rætt og hvort þetta væri markviss stefnubreyting. Mun hv. formaður menntamálanefndar sjálfsagt svara því betur síðar.

Við komum því inn á margt í þessari umræðu um lánasjóðinn. Þó að það litla skref sem hér um ræðir sé stigið nú, þessi lækkun á endurgreiðslubyrðinni, þá þurfa mjög margar breytingar að eiga sér stað á lánasjóðnum þannig að hann geti áfram og betur sinnt hlutverki sínu sem félagslegur jöfnunarsjóður af því að hann gerir það ekki að fullu leyti nú. Ábyrgðarmannakrafan kemur í veg fyrir að lánasjóðurinn geti uppfyllt þetta háleita markmið og mikla hlutverk sitt. Þess vegna er mjög áríðandi að Sjálfstæðisflokkurinn gefi eftir í þessu máli, en Framsóknarflokkurinn hefur eins og Samfylkingin lagt fram þingmál hér eftir síðustu kosningar þar sem lagt er til að ábyrgðarmannakrafan á námslán verði afnumin.

Ég tel mjög áríðandi að þetta mál komi til kasta þingsins og að unnið verði að þessari breytingu hið fyrsta. En Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið í veginum fyrir þessari breytingu og ég hef aldrei heyrt í sjálfu sér neina röksemd fyrir því af hverju flokknum er svona illa við að afnema þessa ábyrgðarmannakröfu í ljósi þess að það afnám yrði svo sannarlega til þess að sjóðurinn væri miklu betur í stakk búinn til að sinna sínu hlutverki með miklu augljósari hætti. Leiðin sem er farin hér er viðunandi millileikur og ágætur og ber að þakka þeim sem fyrir því börðust, fyrir að þetta skuli hafa náðst í gegn hjá stjórnarflokkunum. En það þarf að ganga miklu lengra til að lánasjóðurinn geti uppfyllt hlutverk sitt að fullu og verði líka í stakk búinn til að mæta því að því er virðist gjörbreytta hlutverki sem við honum blasir. Ef lánasjóðurinn á að standa undir því t.d. að tryggja að íslenskir námsmenn geti stundað grunnnám í tæknifræði vegna efnalegrar stöðu sinnar þá hlýtur við þær breytingar einnig að verða að leggja af ábyrgðarmannakröfuna til að ekki sé verið að mismuna enn meira en orðið er þeim sem ætla að stunda grunnnám í tæknifræði, því ef frumvarpið gengur eftir í þeirri mynd sem það er núna þá er búið að skólagjalda- og einkavæða tæknifræðinámið. Því er mikil umræða eftir og langt í land og langt er frá því að þetta sé fullnægjandi endurskoðun eða breyting á lánasjóðnum og hlutverki hans. En þetta er gott skref og ég fagna því. Ég styð það heils hugar og afdráttarlaust. En það þarf að gera miklu meira og gera miklu betur og ganga lengra til að sjóðurinn sé í stakk búinn til að standa undir því hlutverki að vera félagslegur jöfnunarsjóður og tryggja þannig lágmarks jafnstöðu í aðgengi að námi á Íslandi.