131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur.

399. mál
[17:24]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur. Frumvarpið er flutt að beiðni bæjarstjórnar Húsavíkur en á fundi bæjarstjórnar 26. október síðastliðinn var samþykkt að stofna einkahlutafélag um reksturinn. Ákvörðunin er tekin í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á skipulagi raforkumála og lagaumhverfi veitureksturs á síðustu árum en sveitarfélagið hefur engin áform um sölu á hlut sínum í Orkuveitu Húsavíkur né sameiningu við önnur félög.

Ástæður þess að nauðsyn ber til þess að setja sérlög um stofnun einkahlutafélags eru einkum tvær. Í fyrsta lagi er samkvæmt ákvæðum orkulaga einvörðungu heimilt að framselja til einstaklinga eða félaga um ákveðið tímabil í senn einkarétt til starfrækslu hitaveitu.

Í lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, svo sem þeim var nýverið breytt, er á hinn bóginn að finna heimild til framsals á rétti til starfrækslu vatnsveitu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að einkahlutafélagið taki við einkarétti Húsavíkurbæjar og Orkuveitu Húsavíkur til starfrækslu hitaveitu, rafveitu og vatnsveitu á þeim svæðum sem Orkuveita Húsavíkur þjónar nú.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að einkahlutafélagið taki til starfa 1. janúar 2005, en á því ákvæði þarf augljóslega að gera breytingar í nefnd. Þegar lögin taka gildi yfirtekur félagið allar eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar Orkuveitu Húsavíkur.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að allir starfsmenn orkuveitunnar eigi rétt á störfum hjá hinu nýja félagi og verða þeim boðin störf hjá félaginu sambærileg þeim er þeir áður gegndu.

Hæstv. forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta frumvarp en mælist til þess að því verði, að lokinni þessari umræðu, vísað til 2. umr. og hv. iðnaðarnefndar.