131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Innrásin í Írak og forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda.

3. mál
[19:07]

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra fagnar því að hér hafi komið fram upplýsingar um afstöðu einstakra flokka.

Nú er það svo að það var hæstv. forsætisráðherra sem ekki fékkst til að koma hingað til umræðunnar sem við höfum efnt til. Það var þess vegna sem umræðunni var frestað. Ef hæstv. forsætisráðherra hefði ekki farið undan í þessu máli eins og reynslan sýnir þá hefði umræðan fyrir löngu farið fram. Hæstv. forsætisráðherra hefði átt að hafa frumkvæði að því, meðan hann var utanríkisráðherra, að ræða þetta hér eða gefa yfirlýsingu og síðan hugsanlega að leggja líka fram ályktun á þinginu um hvernig Íslendingar ættu að beita sér í málinu eftir innrásina, í uppbyggingarfasanum.

Umboð Sameinuðu þjóðanna felur ekki í sér umboð til stríðsglæpa. Umboð Sameinuðu þjóðanna fól ekki í sér að það mætti taka rafmagn og vatn af borginni Falluja og frelsa hana með því að leggja hana í rúst. Umboð Sameinuðu þjóðanna fól það ekki í sér að það ætti að skilja menn eftir í blóði sínu eins og gert var í Falluja og drepa þá eins og bandarískir hermenn gerðu í einstökum tilvikum í Falluja.

Svo ég lýsi aðeins afstöðu minni til þess sem hefur gerst og hvernig mér líður sem þegni og alþingismanni vegna þessa máls þá líður manni skelfilega, eins og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir lýsti áðan. Það er bara þannig að ég upplifi ábyrgð sem alþingismaður og persónulega ábyrgð á því sem þessir tveir herramenn gerðu. Það er svo einfalt mál.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra tveggja spurninga. Í fyrsta lagi: Lítur hann svo á að yfirlýsingin sem gefin var af hálfu íslenskra stjórnvalda gagnvart þeim bandarísku og bresku hafi ekki falið í sér stuðning við innrásina? Mér fannst hann segja það. Það er mikilvægt að fá svar við því.

Í öðru lagi upplýsti hæstv. forsætisráðherra að málið hefði verið rætt á ríkisstjórnarfundi 18. mars. Innrásin var 20. mars. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Fengu íslensk stjórnvöld upplýsingar um innrásina tveimur sólarhringum fyrr?