131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Innrásin í Írak og forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda.

3. mál
[19:09]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Þetta mál hefur verið margrætt hér áður. Það liggur ljóst fyrir að Íslendingar, þ.e. við fyrir hönd Íslendinga, tókum afstöðu þann 18. mars. Það hefur áður komið fram og það er ljóst að þessi mál voru rædd í ríkisstjórninni 18. mars.

En út af því sem hv. þingmaður sagði um Sameinuðu þjóðirnar þá hljótum við náttúrlega að harma margt af því sem gerst hefur í Írak. Þar hafa hræðilegir atburðir átt sér stað undanfarið. En það liggur hins vegar ljóst fyrir að bráðabirgðastjórnin í Írak hefur fullt umboð, á grundvelli ályktunar 1546, til að berjast við hryðjuverkamenn og koma á lýðræði í Írak. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr kemur það skýrt fram í þeirri ályktun. Annaðhvort styðja menn það umboð sem Sameinuðu þjóðirnar hafa gefið eða ekki.

Nú vilja margir hv. þingmenn, t.d. þingmenn Samfylkingarinnar, taka mismunandi afstöðu til Sameinuðu þjóðanna. Til dæmis var ljóst að viðskiptabannið var á grundvelli umboðs Sameinuðu þjóðanna. Það voru Sameinuðu þjóðirnar sem settu á viðskiptabann. Þingmenn Vinstri grænna sættu sig ekki við það eins og ljóst er. Mönnum verður að vera ljóst hvað í þessu felst.

En ég vil aftur fagna því að Samfylkingin styður þessa ályktun Sameinuðu þjóðanna.