131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Innrásin í Írak og forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda.

3. mál
[19:12]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Málið var m.a. rætt í hv. utanríkismálanefnd, ef ég man rétt, 21. mars og farið yfir það. Það lá náttúrlega ljóst fyrir í nokkra daga að innrás var yfirvofandi og Saddam Hussein var gefinn lokafrestur. Við gáfum þessa yfirlýsingu miðað við það, ef til innrásarinnar kæmi.

Auðvitað vonuðust menn eftir því í lengstu lög að ekki kæmi til þess, það liggur ljóst fyrir. Við marglýstum því yfir á Alþingi að auðvitað vildum við að þessi mál leystust með friðsamlegum hætti. Það vildu allir. En því miður varð það ekki.

Hins vegar verður að vera ljóst að ef hótun er sett fram, eins og í þessu tilviki, þá verður að standa eitthvað á bak við hana. Annars er hún einskis virði.