131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Innrásin í Írak og forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda.

3. mál
[19:20]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. forsætisráðherra dró þá ályktun áðan í þessum ræðustól að Frjálslyndi flokkurinn styddi hryðjuverkamenn.

Ég ætla að byrja á því að mótmæla svona framsetningu. Mér finnst hún nokkuð ábyrgðarlaus og stráksleg úr munni manns sem spurði ekki íslensku þjóðina að því hvort hún vildi styðja innrásina í Írak, hvort hún vildi standa að þeim aðgerðum að taka af lífi 100 þúsund manns.

Er það svo, hæstv. forseti, að núverandi forsætisráðherra álíti að þeir 100 þúsund einstaklingar sem látið hafa lífið í Írak séu allir hryðjuverkamenn? Voru börnin, konurnar, mæðurnar og feðurnir í Falluja hryðjuverkamenn? Var allt fólkið sem þar var líflátið hryðjuverkamenn? Er það skoðun hæstv. forsætisráðherra? Það er ekki hægt annað en að draga þá ályktun af orðum hans hér en að hann líti svo á að allir sem hafa fallið í Írak séu hryðjuverkamenn. Við höfum gefið yfirlýsingar um að við værum algjörlega á móti þeim morðum sem framin hafa verið í Írak og styddum þau ekki og teldum að írakskir borgarar ættu rétt á að verja hendur sínar. Það telur hann mjög óeðlilegt, þessi hæstv. forsætisráðherra þjóðarinnar.

Hann leyfir sér að koma hér upp og halda því fram að sá flokkur sem ég er í forustu fyrir (Gripið fram í.) sé sérstaklega hallur undir hryðjuverkamenn. Nei, við erum það ekki. En við virðum rétt fólks til þess að lifa friðsamlegu lífi í eigin landi. Það hefur þú ekki gert, Halldór, því miður.