131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[19:27]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er nú ekki hægt að segja annað en að manni sé létt við að geta farið að ræða um þau litlu smálegu vandamál sem við eigum við að glíma hér á Íslandi eftir þá umræðu sem fór fram hér á undan. Nú erum við að fara að ræða við 3. umr. raforkulög. Hér er á ferðinni svona skyndiplástur á raforkulögin sem voru sett á síðasta þingi. Á þeim hafa komið í ljós ýmsir gallar og viðbætur sem menn telja ástæðu til að nái fram að ganga hér áður en lögin ganga í gildi um áramótin.

Við ræddum þetta mál við ekkert allt of þægilegar aðstæður í nótt. Þá var hæstv. ráðherra þessara mála ekki viðstaddur. En nú ber svo við að hæstv. ráðherra er við umræðuna og þess vegna er ástæða til að ræða kannski að einhverju leyti um aðra hluti en nákvæmlega þá sem felast í þeim breytingum sem hér er verið að gera á lögunum. Þær eru, og ég ætla að endurtaka það, að okkar viti samfylkingarmanna til bóta og ég tel ástæðu til þess að binda við það vonir að sæmilega hafi til tekist með þær breytingar þó að það hafi nú gengið fyrir á undraskömmum tíma að afgreiða það mál og þó urðu verulegar breytingar á þeirri tillögu sem fyrir var lögð í upphafi í nefndinni. Það er sem sagt ástæða samt til þess að hafa varann á hvort allt hafi þar tekist eins og menn ætlast til.

Núna um áramótin sem sagt á þetta nýja umhverfi í raforkugeiranum að taka gildi þegar framleiðsla, flutningur, dreifing og sala á raforku á að fara í einhvers konar viðskiptaumhverfi sem menn ætla að reyna að sveigja að einhverjum skynsamlegum viðskiptaháttum.

Þau eru býsna mörg, spurningarmerkin sem eru í raun og veru uppi um það hvernig þetta allt saman muni nú ganga. Það sem ég hef kvartað undan í mörgum ræðum á hv. Alþingi á undanförnum árum hvað þessi mál varðar er að hér hefur aldrei fengist grundvallarumræða um það að hverju stjórnvöld stefna hvað varðar eignarhald og framtíð þeirra fyrirtækja sem ríkið sjálft ber ábyrgð á í þessum geira. Með allt sem að þessu lýtur er farið sem leyndarmál. Ég ætla að endurtaka það sem ég hef oft áður sagt um það, ég tel ekki vansalaust að ekki skuli vera sá töggur í stjórnvöldum að þau þori að hafa stefnu og leggja hana til umræðu hér á hv. Alþingi, til mats og til þess að sjá hvort sú stefna stenst þá umræðu sem hér á auðvitað að fara fram um slíka stefnumörkun.

Það er líka full ástæða til þess að spyrja hæstv. ráðherra um hvað sé að gerast hvað þessi fyrirtæki varðar sem ég nefndi áðan til en þar erum við að tala um fyrirtæki í eigu ríkisins að hluta eða öllu leyti, Landsvirkjun að hálfu, Rarik að öllu leyti og Orkubú Vestfjarða.

Það er ekki langt síðan hæstv. ráðherra kom hér í ræðustól vegna umræðu um þessi málefni og vildi ekkert segja um það hvað væri að gerast. Örfáum dögum eftir þá umræðu komu fréttir af því frá hendi Alfreðs Þorsteinssonar, sem er leiðtogi Framsóknarflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur og ræður kannski miklu um það hvernig Orkuveitan er rekin líka, að samningaviðræður um það að leysa bæjarfélögin Akureyri og Reykjavík út úr Landsvirkjun með samningum um að yfirtaka lífeyrisskuldbindingar væru komnar í biðstöðu eða jafnvel einhvers konar strand. Þegar hann ræddi þessi mál lét hann það með fylgja að það hefði m.a. hangið á spýtunni hjá stjórnvöldum að sameina Landsvirkjun hinum tveimur fyrirtækjunum sem ég nefndi, Orkubúi Vestfjarða og Rarik.

Þetta eru aldeilis fréttir og mál sem býsna mörgum finnst að þeim komi við. Það er ekki lítil ástæða til þess að gerð sé grein fyrir því með hvaða hætti menn ætla að standa að þessum hlutum og færa það í orð líka hvernig menn sjá fyrir sér samkeppnisumhverfið í raforkugeiranum í framtíðinni í ljósi þessara hugmynda sem þarna eru á ferðinni. Ég tel ástæðu til þess að hæstv. ráðherra sýni að hluta til á þau spil sem hún hefur a.m.k. í þessu máli og upplýsi hvort hér séu á ferðinni einhverjar hugmyndir sem séu lítið reifaðar eða hvort það sé stefna stjórnvalda að stefna að því að sameina þessi fyrirtæki og hvaða hag menn sjái sér þá í þeirri stefnu.

Ég veit ekki hvort í kvöld verður hægt að fá fram umræður um þessi efni með þeim hætti sem ég hefði helst kosið. Það er æðimargt sem þarf að ræða í þessu sambandi. Eignarhald Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun var aldrei sjálfsagt mál og eignamyndun þessara tveggja bæjarfélaga í Landsvirkjun vegna nýtingar á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar hlýtur að verða að skoðast þegar menn velta því fyrir sér hvernig eigi að — ég vil helst segja leiðrétta þau mistök sem voru á sínum tíma gerð með því að búa svona til fyrirtækið Landsvirkjun. Það er mín skoðun að önnur sveitarfélög í landinu sem mörg hver, eða fólkið í þeim, hafa byggt upp eignirnar sem eru núna í Rarik og síðan sameiginlegur eignarréttur okkar á þeim auðlindum sem Landsvirkjun hefur verið að nýta séu forsenda fyrir því að það eigi að skoða hvort koma eigi til móts við önnur sveitarfélög í landinu með hlutdeild í þessum fyrirtækjum. Þá á ég sérstaklega við Rarik.

Þetta er auðvitað eitthvað sem þarf að skoða sameiginlega með þeim sem eiga hér hlut að máli og það þarf líka að fara vandlega yfir þessi mál með þeim sveitarfélögum sem eiga mest undir þjónustu þessara fyrirtækja, Orkubús Vestfjarða og Rariks. Ég spyr sem sagt: Hvað er að gerast og hver verður framtíð þessara fyrirtækja að mati hæstv. ráðherra?

Síðan væri auðvitað ástæða til þess að hæstv. ráðherra reyndi að sýna okkur svolítið inn í þá framtíð sem hún sér í þessu samkeppnisumhverfi sem á að verða til í raforkugeiranum. Nú er það niðurstaðan að flýta því um ár að almennir raforkunotendur fái kost á því að velja sér viðskiptaaðila hvað varðar kaup á raforku og spurningarnar verða auðvitað aðkallandi um hvernig þetta viðskiptaumhverfi verður og hvernig menn ætla að taka á þeim vanda sem getur komið upp. Við sjáum á lagatextanum sem bæði var samþykktur núna og var fyrir í þeim lögum sem eru í gildi að með ýmsum hætti er reynt að búa til alls konar skorður, tekjuramma fyrir fyrirtækin sem eiga aðild að þessu öllu saman. Það er reynt að koma í veg fyrir að fyrirtækin geti hagnast óeðlilega, líka að þau geti orðið fyrir töpum en það er ekki neitt ákvæði t.d. sem kemur í veg fyrir það að stjórnlaus samkeppni geti rústað rekstrargrundvöll fyrirtækja þeirra sem framleiða raforku og selja inn á þennan markað.

Ég hef áhyggjur af því og ég tel að full ástæða sé til þess að gefa gaum að því að þetta er ekki venjulegur markaður. Og þó að það hafi tekist að sumu leyti bærilega til með kerfi af þessu tagi í löndunum í kringum okkur er það bara allt annar hlutur. Þar geta menn selt raforkuframleiðslu sína út um víða Evrópu en hér er það ekki fyrir hendi. Ef offramboð verður á raforku, hvort sem það er tímabundið eða vegna þess að það hafi verið virkjað of mikið eða vegna þess að af einhverjum ástæðum hafi dregið úr nýtingu raforku, geta myndast aðstæður sem ekki er gott að sjá að séu viðráðanlegar.

Ekki hefur verið fengist við þetta vandamál í þeim lögum sem eru í gildi. Mér finnst ástæða til þess að hæstv. ráðherra svari því hér hvort hún telji einhverja hættu þarna á ferðum. Ég vona satt að segja að ég hafi ekki rétt fyrir mér með þessum varnaðarorðum en ég fæ ekki betur séð en að svona liggi í þessu máli öllu saman. Ég tel að það þurfi að leita sem allra fyrst leiða til þess að koma í veg fyrir að upp komi vandamál af því tagi sem ég var að lýsa hérna.

Ég er ekki með tillögu um hvernig eigi að fara að þessu en mér sýnist á öllu að undan því verði ekki komist að sjá til þess að slík samkeppni geti ekki komið upp, einhvers konar hömlur verði hafðar til staðar til að koma í veg fyrir hana.

Hins vegar er kannski ekki hætta á ferðum hvað varðar hámarksverð á raforku, ekki veruleg. Það er þó ljóst að forráðamenn stærstu fyrirtækjanna, annarra en Landsvirkjunar, sem eiga aðild að þessum markaði lýstu því bókstaflega yfir mjög skýrt og ákveðið á fundum með nefndinni að það yrði hækkun á raforkuverðinu, ekki minna en 10% á orkuveitusvæði Orkuveitu Reykjavíkur og ekki minna en 20% á orkuveitusvæði Hitaveitu Suðurnesja. Þetta eru auðvitað ekki góð tíðindi vegna þess að þarna er á ferðinni ekki lítill hluti af almenna raforkumarkaðnum. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún hafi ekki áhyggjur af þessu og hvort hún telji að þessar upplýsingar frá forráðamönnum þessara fyrirtækja séu réttar og að í ráðuneytinu hafi menn farið yfir það hvort þarna sé verið að setja fram eitthvað sem hefur við full rök að styðjast og að við stöndum þá frammi fyrir verulegri hækkun á raforku á öllu suðvestursvæðinu, Reykjavíkur- og Reykjanessvæðinu og reyndar Vesturlandi að töluvert miklu leyti. Ég spyr líka hvernig eigi að bregðast við þessu og hvort það séu einhver ráð til að koma í veg fyrir þessa raforkuhækkun sem virðist eiga að skella yfir okkur strax eftir áramótin.

Hæstv. forseti. Ég hef svo oft haldið ræður af svipuðu tagi yfir hæstv. ráðherra og hef ekki fengið mjög skýr svör um þessa hluti áður. Ég ætla þess vegna ekki að lengja ræðu mína núna meira en hlusta grannt á það sem hæstv. ráðherra hefur fram að færa í þessari umræðu.