131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[19:47]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er mjög hissa á hv. þingmanni að tala með þessum hætti, að segjast ekki gefa mikið fyrir trúnað, ég er alveg undrandi. Hvernig á að ná árangri í viðkvæmum samningamálum við meðeigendur í fyrirtæki ef allt er borið á torg? Það vill svo til að ég fer sem iðnaðarráðherra með eign ríkisins í Landsvirkjun, Rarik og Orkubúi Vestfjarða og ég tel það skyldu mína að vinna þannig að málum að ég gæti trúnaðar gagnvart meðeigendum og það hef ég reynt að gera.

Hvernig málið fór í fjölmiðla þegar ekki náðist að ljúka því á síðasta degi nóvembermánaðar eins og hugmyndir voru uppi um veit ég ekkert um. Ég veit ekki til þess að Alfreð Þorsteinsson hafi sagt frá því frekar en einhver annar. Engu að síður er þetta orðið opinbert og þess vegna er ég tilbúin að ræða það núna í stuttu máli. Ég veit að við höfum ekki tíma til þess að fara djúpt í umræðuna í kvöld en ég hef sagt við hv. þingmann að ég tel mikilvægt að við tökum umræðu eftir jólin um orkumálin og þá höfum við meiri tíma til umræðna.