131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[20:04]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér raforkumálin. Ég vil í upphafi vísa til orða hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um afstöðu okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til þeirra breytinga sem áður voru gerðar á raforkuumhverfinu, umhverfi raforkumála, á síðasta ári og árinu þar áður þar sem stjórnvöld fóru inn á þá fáránlegu leið að ætla að innleiða eitthvert ímyndað samkeppnisumhverfi í raforkuframleiðslu og raforkumálum hér á landi, taka upp eitthvert erlent fyrirkomulag í þeim efnum sem reyndar hafði gefist frekar illa. Við þekkjum dæmin um einkavæðingu og markaðsvæðingu raforkugeirans frá Kaliforníu þar sem það hrundi og ég man að orkumálastjóri Kaliforníu sagði að hryðjuverk væru alvarleg en einkavæðing raforkukerfisins væri enn þá alvarlegri. Sama var síðan í Kanada, Bandaríkjunum, Svíþjóð, Ítalíu, Frakklandi, bara nefndu það hvar slík einkavæðing raforkugeirans hefur gengið upp, og var það þó á miklu stærra markaðssvæði. (Gripið fram í: Var það viðeigandi athugasemd?) Já, ef hv. þingmaður hefur ekki fylgst betur með, þá birtist þetta í viðtali við þennan mann. (Gripið fram í: … um hryðjuverk?) Hann sagði að hryðjuverk væru alvarleg en einkavæðing raforkukerfisins væri enn þá alvarlegri. (Gripið fram í.) Já, en það er í sjálfu sér engin afsökun fyrir eitt slæmt verk þó annað sé líka slæmt. Þessi innleiðing var samt leidd inn hér án þess að nein sérstök þörf væri á því. Vitað var að hægt hefði verið að sækja um undanþágu frá tilskipun Evrópusambandsins í þessum efnum því Ísland er í sjálfu sér ekki á neinu alþjóðlegu markaðssvæði hvað þetta varðar.

Við erum þó komin að því að nú liggur fyrir þinginu fyrsta frumvarpið til þess að breyta og bæta úr þeim mistökum sem gerð voru í frumvarpinu á síðasta vetri og veturinn þar á undan og hér hefur verið gerð grein fyrir. Það eru örfá atriði sem mig langar samt til að spyrja hæstv. ráðherra um. Í fyrsta lagi um svokallaða samráðsnefnd sem átti að vera búið að skipa samkvæmt lögunum. Ef litið er á bráðabirgðaákvæði VI við lögin þá stendur þar, með leyfi forseta:

„Frá gildistöku laga þessara til loka ársins 2009 skal starfa samráðsnefnd um framkvæmd laganna. Hlutverk samráðsnefndarinnar er að fylgjast með og stuðla að greiðri framkvæmd laganna og virkum skoðanaskiptum þeirra sem lögin varða helst. Nefndin skal skipuð af iðnaðarráðherra og í henni skulu sitja tíu fulltrúar.“ — Eftir breytingarnar á síðasta vetri. — „Þrír skulu kosnir af Alþingi. Orkustofnun, Samtök atvinnulífsins, Neytendasamtökin og Samband íslenskra sveitarfélaga skulu tilnefna einn fulltrúa hver. Samorka skal tilnefna tvo fulltrúa en einn nefndarmanna skal skipaður án tilnefningar …“

Hlutverk þessarar nefndar er svo áréttað í nefndaráliti frá síðastliðnu vori þegar lögin voru endurskoðuð og uppskiptin í Landsnet og annað því um líkt var samþykkt. En nefndin á samkvæmt þessu erindisbréfi að fylgjast með framkvæmd laganna og er ærin ástæða til. Ég hef hvorki orðið var við að þessi nefnd hafi verið skipuð né þaðan af síður að hún sé tekin til starfa, en hlutverk hennar virðist mér einmitt hafa verið að fylgjast með og gera tillögur um þau mál sem við erum m.a. að ræða um hér og fleiri. Ég óska því eftir að heyra frá hæstv. ráðherra hvað líður skipan þessarar nefndar og störfum hennar.

Einnig var kveðið á um í lögunum að skipa ætti nefnd fulltrúa hagsmunaaðila og þingflokka sem falin væri endurskoðun laga þessara, laganna sem sett voru í fyrra og hittiðfyrra. Endurskoðuninni skal lokið fyrir 31. desember 2010 en nú er þegar hafin endurskoðun á þessum lögum því hvað er það annað en endurskoðun á þeim að bæta í götin og það frumvarp sem hér liggur fyrir? Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra: Er meiningin að fara í endurskoðun og endurbætur á lögunum í bútum en fara fram hjá þeim ákvæðum laganna þar sem kveðið er á um að skipa skuli nefnd fulltrúa hagsmunaaðila og þingflokka sem falin verði endurskoðun laganna? Að mínu viti ætti sú nefnd einmitt að hafa verið að fjalla um þær breytingar á lögunum sem við erum að leggja fram. Eða geta menn farið í endurskoðun á lögunum í bútum, kollvarpað lögunum án þess að skipa þessa nefnd?

Þá vil ég koma að því sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon minntist aðeins á áðan en það er uppstokkunin á raforkugeiranum, sameining orkufyrirtækja hins opinbera eða uppstokkun þeirra að öðru leyti. Ég get ekki fallist á þá skýringu hæstv. ráðherra að meðhöndlun þessara mála sé eitthvert leyndarmál, meðhöndlun á Landsvirkjun sem er algerlega í opinberri eigu, Rarik sem er algerlega í opinberri eigu og Orkubúi Vestfjarða sem er algerlega í opinberri eigu, að framtíð verkefna og staða þessara fyrirtækja sé eitthvert leyndarmál gagnvart þjóðinni. Þjóðin á þessi fyrirtæki og enginn annar. Þó að Landsvirkjun sé í eigu ríkisins að hálfu og Reykjavíkurborgar og Akureyrar að hluta þá er það samt þjóðin sem á það fyrirtæki og á ekki að vera neitt sérstakt leyndarmál í því, síður en svo. Hún ætti einmitt að fá að taka mjög virkan þátt í ákvörðunum um hvernig fara eigi með þessi fyrirtæki ef nauðsynlegt er að breyta þeim eða skipta þeim upp. Einhver ástæða er til þess að rokið er til og Vestfirðingar halda fund og óttast um stöðu orkubúsins, en í ritstjórnargrein sem var í blaði þeirra Vestfirðinga stendur, með leyfi forseta, undir fyrirsögninni Uppvakningur iðnaðarráðherra:

„Sameining Landsvirkjunar, Rarik, og Orkubús Vestfjarða er aftur komin á kreik. Mátti þó ætla að sá draugur hefði verið kveðinn niður með fyrri tíma samkomulagi við ,,stjórnvöld … ““ — Ég ætla nú ekki að vitna hér í ummæli hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar í blaðinu um það hvernig stjórnvöld standi við gerða samninga, það hefði verið nær að taka þessi mál upp á Alþingi, en í þessari ritstjórnargrein stendur, með leyfi forseta:

„Þráhyggju iðnaðarráðherra má ef til vill rekja til orða Alfreðs Þorsteinssonar, stjórnarformanns Orkuveitu Reykjavíkur, í Mbl. s.l. fimmtudag, en þá var hlaupin snurða á þráð fremur leynilegra viðræðna um kaup ríkisins á hlut Reykjavíkur og Akureyrar í Landsvirkjun, en þar sagði hann m.a.: ,,Menn eru að velta fyrir sér hver verði staðan á raforkumarkaðnum, ef það gengur eftir sem ríkið var að biðja okkur (OR) um, þ.e. að gera ekki athugasemdir við að Orkubú Vestfjarða og Rarik gengju inn í Landsvirkjun.“ Síðar segir í viðtalinu: „Hann (Alfreð) segir það skiljanlegt að ríkið vilji að Rarik og Orkubú Vestfjarða fari inn í Landsvirkjun til að bæta eiginfjárstöðuna. Hún sé slök um þessar mundir vegna Kárahnjúkavirkjunar og 10 milljarðar króna í eigið fé mundu bæta stöðu Landsvirkjunar verulega.“

Síðan eru rakin þarna enn þá frekar ummæli Alfreðs Þorsteinssonar.

Það eru fleiri sem hafa áhuga á að fylgjast með því hvað er að gerast í þessum málum. Stjórnarmenn í Norðurorku og í Skagafjarðarveitum héldu einmitt fund á Akureyri núna í vikunni í tilefni þeirra frétta að verið væri að fara á bak við þá í væntanlegum hugmyndum um fyrirkomulag á þessum fyrirtækjum, Rarik, Landsvirkjun og Orkubúi Vestfjarða. Þeir töldu sér líka málið skylt. Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað er þarna á döfinni? Kemur til greina, sem mér finnst eðlilegast, að verða við óskum þeirra? Norðurorka hefur áhuga á að ræða um að fá þau verkefni sem Rarik er með á þeirra svæði til sín ef ætlunin er að breyta þarna til. Skagafjarðarveitur hafa áhuga á að fá verkefni Rarik í Skagafirði og á því svæði til sín, enda er sú raunin að þau byggðarlög sem eiga orkuveitur standa miklu betur að vígi til að takast á við uppbyggingu atvinnulífs en þau byggðarlög sem enga orkuveitu hafa til að njóta stuðnings af. Eðlilega vilja þessir aðilar bæði fylgjast með því sem er að gerast og einnig að fá að hafa áhrif á það sem er að koma.

Ég leyfi mér að spyrja hæstv. ráðherra: Væri kannski skynsamlegast, eða er ráðherra reiðubúinn að skoða með heimamönnum vítt og breitt um landið hvort ekki sé eðlilegt að skipta þessum fyrirtækjum upp, ef út í það á að fara, og búa til eins konar héraðsveitur eins og Skagafjarðarveitur og Norðurorka hafa verið að fara fram á, eins og Orkubú Vestfjarða er nú? Mér finnst það koma vel til greina, en hins vegar sé farið mjög aftan að hlutunum ef ráðherra upp á sitt einsdæmi, bak við skrifborð eða bak við luktar dyr er að ráðslagast um fyrirkomulag eða framtíð raforkudreifikerfis og raforkuframleiðslu landsins sem hið opinbera nú á. Mér finnst það ekki rétt.

Ég held því að mjög mikilvægt sé bæði að upplýsa á hvaða stig málið er komið af hálfu hæstv. ráðherra og einnig hver hugur ráðherrans er til að þessi mál, þ.e. staða veitnanna og framtíð þeirra, verði tekin á breiðari grundvelli. Og að málin verði metin í samráði við heimamenn á viðkomandi svæðum og leitað að kostum, ef breyta á þarna til, sem gætu orðið sem hagkvæmastir fyrir íbúana hvort sem þeir eru á Vestfjörðum, í Húnavatns- eða Skagafjarðarsýslum eða um Eyjafjörð og Þingeyjarsýslur eða annars staðar. Mér finnst nauðsynlegt að þetta komi inn í umræðuna núna.

Hæstv. ráðherra hefur sjálfsagt fengið í hendur ályktun sem samþykkt var bæði af Skagfirðingum og Akureyringum, en þar segir, með leyfi forseta:

„Lýst er yfir áhyggjum vegna sameiningarhugmynda, slíkt sé í andstöðu við vilja landsbyggðar. Forsvarsmenn norðlensku orkufyrirtækjanna vilja að veitufyrirtækjum og sveitarfélögum sem eru á dreifiveitusvæðum Rariks og Orkubús Vestfjarða tækifæri til að yfirtaka reksturinn og efla og styrkja á þann hátt starf þeirra og koma þessari starfsemi úr ríkisrekstri.

Stjórnvöld eru hvött til þess að leita leiða til að heimaaðilar geti tekið við hlutverki Rariks og Orkubúi Vestfjarða í stað þess að sameina þau Landsvirkjun.“

Þetta segir í ályktun frá Skagafjarðarveitum og Norðurorku.

Mér finnst að skilyrðislaust eigi að taka upp viðræður við sveitarfélögin, sérstaklega á þeim svæðum þar sem eru staðbundnar orkuveitur sem geta hæglega tekið að sér þessi hlutverk, þ.e. verkefni þessa ríkisfyrirtækis og kanna hvort styrkja megi þau á heimavelli.

Frú forseti. Það væri ástæða til að ræða þessi mál nokkuð frekar en tímans vegna læt ég þessu lokið að sinni. En það er fyllilega ástæða til að taka upp á Alþingi ítarlega umræðu um stöðu raforkumálanna, þeirra orkufyrirtækja sem ríkið á og hefur byggt upp, ásamt svo líka þeim fyrirtækjum sem einstök sveitarfélög eiga, eins og t.d. Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja. En Rarik, Landsvirkjun og Orkubú Vestfjarða, staða þeirra, framtíð og verkefni á ekki að vera neitt pukursmál. Þetta er mál okkar allra og ekki síst íbúanna á viðkomandi svæðum þar sem þjónusta þeirra og verkefni eru, og því mikilvægt að öll sú umræða komi hér upp á borðið og að hæstv. ráðherra veiti okkur upplýsingar um hvernig málið stendur nú og hvernig við getum síðan tekið á því áfram þannig að íbúarnir geti átt eðlilega hlutdeild að umræðunni.