131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[20:19]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að sitja nokkra fundi í iðnaðarnefnd fyrir fáeinum dögum þar sem rætt var um breytinguna á raforkulögunum sem við erum að fjalla um nú. Þar upplifði ég að frumvarpinu sem hafði verið lagt fram til breytinga á raforkulögunum var nánast öllu gjörbreytt og komið var með tillögur hér inn í þingið sem lagfærðu það að mörgu leyti, að því er mér fannst, þótt ég hafi komist að þeirri niðurstöðu að eðlilegt væri að taka sér lengri tíma til að láta breytingarnar taka gildi.

Hæstv. forseti. Þetta er samt ekki það sem ég ætla að gera að meginefni í ræðu minni, sem verður ekki mjög löng. En ég ætla að beina nokkrum spurningum til hæstv. iðnaðarráðherra sem varða aðallega fréttir sem borist hafa að undanförnu. Þær hafa þó ekki verið kynntar í iðnaðarnefndinni svo mér sé kunnugt um, eða a.m.k. var ég ekki upplýstur um á þessum fundum að til stæði af hálfu stjórnvalda, því að væntanlega er hæstv. iðnaðarráðherra að vinna með samþykki ríkisstjórnarinnar að því sem sagt er frá í blaðinu Bæjarins besta, að sameina Orkubú Vestfjarða, Rarik og Landsvirkjun.

Ég sé hér í blaðinu, hæstv. forseti, að þetta kemur ýmsum framsóknarmönnum verulega á óvart, m.a. Guðna Geir Jóhannessyni, sem er formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar. Ég sé einnig að bæjarráð hefur brugðist þannig við að óskað hefur verið eftir og samþykkt að bæjarstjórnin fæli bæjarstjóra og formanni bæjarráðs að fara á fund forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar og fylgja hagsmunum Ísafjarðarbæjar eftir í málinu því menn óttast eðlilega, miðað við reynsluna, að til standi að færa störf frá Vestfjörðum, og er nú eigi á bætandi á því svæði. Og ég sé það haft eftir framsóknarmanninum Guðna Geir að honum kemur málsmeðferðin öll mjög á óvart og vitnar þar m.a. til þess að nýlega hafi allt annað verið samþykkt á vegum Framsóknarflokksins varðandi stefnumótun fyrir norðvestursvæðið, í sérstakri áætlun sem hæstv. forsætisráðherra hafði beitt sér fyrir. Guðni Geir Jóhannesson telur að það sem haft er eftir hæstv. iðnaðarráðherra í blaðinu sé algjörlega á skjön við þá stefnumótun sem flokkurinn í Norðvesturkjördæmi hafi nýlega tekið um hvernig mætti efla orkufyrirtækin á Norðvesturlandi.

Ég sé einnig, hæstv. forseti, í þessu blaði að haft er eftir hæstv. iðnaðarráðherra að menn í stjórnsýslunni hafi talsverðan áhuga á að reyna að færa störf út á landsbyggðina. Við vitum að það hefur gengið mjög misjafnlega á undanförnum árum, því miður, þó vissulega hafi störfum sums staðar fjölgað, sérstaklega á Eyjafjarðarsvæðinu. Það er einnig haft hér eftir hæstv. iðnaðarráðherra að við sameiningu í nýju fyrirtæki verði að hafa ofarlega í huga að mikilvægt sé að rekstrarþáttum á landsbyggðinni sé haldið þar eftir og sameining geti þá leitt til að einhverjum störfum verði haldið eftir á Vestfjörðum.

Ég verð að segja alveg eins og er, hæstv. forseti, að það sem hér birtist kemur manni verulega á óvart og ekki bara þeim sem hér stendur, heldur einnig framsóknarmönnum sem talað er við, m.a. hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni. Í blaðinu upplýsir hann að þær hugmyndir sem iðnaðarráðherra hafi verið að kynna um fyrirhugað sameiningarferli hefðu aldrei verið kynntar í þingflokki framsóknarmanna.

Ég undrast því hvernig þessi mál ber að, virðulegi forseti, ef það er svo að virkir framsóknarmenn í Norðvesturkjördæmi hafa ekki hugmynd um á hvaða vegferð hæstv. ráðherra er í málinu. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða svör fengu bæjarstjórnarmenn þegar þeir gengu á fund ráðherrans um framtíð Orkubús Vestfjarða á Vestfjörðum eða það sameiningaferli sem hæstv. forsætisráðherra var að beita sér fyrir sem stefnumótun fyrir Framsóknarflokkinn í Norðvesturkjördæmi að því er varðar orkufyrirtæki í norðvesturhlutanum? Er það svo að svör ráðherranna séu í allt aðra veru en allar stefnumótanir í byggðamálum hafa lotið að á því landsvæði? Eru þær alls ekki í neinni virkni og stefna menn til allt annarra hluta?

Það væri ákaflega fróðlegt að vita í þessari umræðu um raforkumál, þegar verið er að taka upp svokallaða „virka samkeppni“ á raforkumarkaðnum, hvort það sem hér er haft eftir hæstv. ráðherra sé í farvatninu. Ég segi það alveg eins og er, virðulegi forseti, að ég átta mig ekki alveg á hvernig menn efla samkeppni á raforkumarkaðnum með því að sameina mörg orkufyrirtæki. Og þar sem hér er m.a. verið að leggja upp með og opna fyrir aukna samkeppni á raforkumarkaðnum, þá hefði ég gjarnan viljað að hæstv. ráðherra skýrði okkur frá í ræðu sinni á eftir með hvaða hætti hún telur að samkeppni á raforkumarkaði aukist með slíkri sameiningu. Og einnig hvort það sem hér er stefnt að og virðist koma bæjarstjórnarmönnum á Ísafirði svo mikið á óvart, samræmist stefnumótum ríkisstjórnarinnar í byggðamálum eða samþykktum Framsóknarflokksins um hana, og því sem haft var eftir hæstv. forsætisráðherra á síðasta vetri, minnir mig, að sérstaklega þyrfti að líta til norðvesturhornsins í atvinnumálum og byggðamálum með tilliti til hvað væri að gerast annars staðar á landsbyggðinni og hvort slíkt falli undir að efla atvinnu, byggð og fyrirtækjarekstur í Norðvesturkjördæminu. Okkur Vestfirðingum hefur þótt mikill akkur í að halda Orkubúinu á Vestfjörðum og hafa höfuðstöðvar þess þar og værum auðvitað ekki á móti því að svæði Orkubúsins yrði stækkað. Við höfum litið svo á að Orkubúið væri einn þeirra máttarstólpa sem gætu eflt iðnað og ný atvinnutækifæri á Vestfjörðum og verið þar bakhjarl og hefði einnig frumkvæði að því að nýta orkumöguleika sem þar eru fyrir hendi.

Ef það gerist sem hér er boðað þá óttast ég mjög að farið verði algjörlega í hina áttina, að tekin verði frá okkur störf, tekin frá okkur áhrif og möguleikar svæðisins veiktir. Þess vegna óska ég sérstaklega eftir því áður en að þessari umræðu lýkur að hæstv. iðnaðarráðherra fari um það nokkrum orðum hvernig hún sjái það fyrir sér að með breytingum á raforkumarkaðinum og raforkuframleiðslufyrirtækjunum, eins og hér hefur verið lýst í þessu ágæta blaði, Bæjarins besta, stefnum við til þess að efla þetta landsvæði en ekki veikja það því auðvitað er full þörf á að efla þetta landsvæði með tilliti til þess hvernig verk standa annars staðar í landinu og hvernig það sem menn hafa kallað þenslu er e.t.v. til staðar annars staðar á landinu. En ég verð að viðurkenna það, hæstv. forseti, að ég hef ákaflega lítið orðið var við þenslu í Norðvesturkjördæminu.