131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[20:31]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Í umræðu um þetta mál hefur komið fram það sjónarmið og reyndar verið flutt um það tillaga að rétt sé að fresta opnun raforkumarkaðar til 1. janúar 2006. Fyrir þessu hafa verið færð þau rök að undirbúningur sé ekki nægilega langt á veg kominn, til að mynda hafi reglugerðir sem nauðsynlegar eru ekki verið gefnar út, raforkufyrirtækin séu því ekki tilbúin fyrir opnun markaðarins.

Um þetta vil ég segja að undirbúningur að setningu reglugerða vegna opnunar raforkumarkaðarins hófst í júní síðastliðnum. Raforkufyrirtækin áttu fulltrúa í starfshópum sem fjölluðu um reglugerðardrögin. Auk þess hafa hagsmunaaðilar fengið drögin til umsagnar í tvígang á mismunandi stigum undirbúnings. Því er langur vegur frá því að raforkufyrirtækin hafi ekki upplýsingar um það hvað taki við um áramót.

Það má líka minna á að fyrirtækin hafa haft allmörg ár til þess að undirbúa opnun markaðarins. Fyrir liggur að sum raforkufyrirtækin hafa talið að það reyndist tæknilega örðugt að sundurliða á raforkureikningi hvernig verðmyndun raforku er, þ.e. að sérgreina kostnað vegna flutnings, dreifingar og orkukaupa. Þess vegna hef ég ákveðið að verða við óskum þeirra um að fresta þessum þætti til 1. janúar 2006. Þetta ætti að auðvelda fyrirtækjunum að takast á við hið nýja umhverfi.

Ég vil líka benda á að frestun á fyrirhugaðri opnun raforkumarkaðarins núna um áramótin væri mjög ósanngjörn gagnvart þeim sem hafa allt frá samþykkt raforkulaganna í mars 2003 haft lögmætar væntingar um að geta valið sér raforkusala nú um áramótin. Ég veit til þess að smærri iðnfyrirtæki hafa mörg hver búið sig undir þessar breytingar. Ég tel því algjörlega ótækt gagnvart þeim fyrirtækjum og reyndar alveg óþarft að fresta þeim hluta opnunar raforkumarkaðarins sem fram undan er núna um áramótin.

Önnur atriði sem hér hafa komið fram í umræðunni vil ég nefna. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talar um vandræðagang í þessu sambandi. Ég er ekki viðkvæm fyrir því að það orð sé notað um þetta mál. Ég bara endurtek það sem ég hef oft sagt úr þessum ræðustóli áður, að þetta er gríðarlega umfangsmikil breyting og það verður alveg örugglega þannig að næsta ár verður eins konar tilraunaár á þessu sviði. Ég ætla a.m.k. ekki að hafa uppi um það yfirlýsingar hér nú að það eigi ekki eftir að koma fram fleiri frumvörp sem gætu hugsanlega verið nauðsynleg til að bregðast við einhverju sem kann að koma í ljós þegar þetta er komið í framkvæmd.

Hv. þingmanni þótti einkennilegt að það yki samkeppni að sameina fyrirtæki ríkisins í orkugeiranum. Það er rétt eftir haft að ég hef talað um að það sé þannig og ég trúi því vegna þess að þau fyrirtæki sem ríkið á í þessum geira eru hvert á sínu sviðinu ef svo má að orði komast eins og allir þekkja. Landsvirkjun er í framleiðslunni. Hin fyrirtækin tvö, Rarik og Orkubúið, eru í dreifingu og sölu. Vegna þess að lögin kveða á um aðskilnað í rekstri þá er ekki um það að ræða að við séum að minnka samkeppni með sameiningu þessara fyrirtækja. Það er fyrst og fremst um það að ræða að þetta nýja fyrirtæki komi til með að keppa við hin fyrirtækin tvö. Ég held því fram að þetta sé skynsamleg aðgerð miðað við aðstæður líka vegna þess að þegar þessi samkeppni er tekin upp og fyrirtækin fara að einbeita sér meira að skilvirkum rekstri þá mun það þýða ákveðna hagræðingu innan fyrirtækjanna allra. Ég held að það sé bara full þörf á því. Og ég er einmitt með byggðamálin í huga. Þau eru mér alltaf ofarlega í huga í öllum aðgerðum sem ég gríp til eða legg til að gripið verði til. Ég er alltaf með það í huga að landsbyggðin komi ekki illa út úr breytingum sem ég ber ábyrgð á. Ég held því fram að sóknarfæri felist í því að sameina þessi fyrirtæki og endurskipuleggja reksturinn með það í huga að drjúgur þáttur rekstursins verði á landsbyggðinni. Ég vil minna á að þegar ríkið keypti Orkubú Vestfjarða var um það að rætt að það yrði sameinað öðrum fyrirtækjum í eigu ríkisins síðar meir þó ekki hafi verið tekin nein ákvörðun um það á því stigi. En það var alla vega gerð bókun þar sem það kemur fram að verði um það að ræða í nýju raforkuumhverfi að Orkubú Vestfjarða verði sameinað öðru fyrirtæki þá verði þess gætt að störf verði áfram á Vestfjörðum. Það er ekki kveðið sterkar á um það en þetta en ég met það engu að síður svo að það hafi verið opið eða að opnað hafi verið á það þegar þessi viðskipti áttu sér stað og að allir hafi gert sér grein fyrir því þá þegar að að þessu gæti komið.

Ég hef orðið vör við að ákveðnir þingmenn Vestfjarða eru ekki trúaðir á að ég sé að hugsa um Vestfirði í þessu sambandi. Ég verð hins vegar minna vör við það hjá fólkinu fyrir vestan að það trúi því ekki að svo sé. Ég hef átt mjög góðan fund með forsvarsmönnum bæjarfélagsins Ísafjarðarbæjar. Þar var farið af mikilli hreinskilni yfir þetta mál og mér fannst vera skilningur á því að stjórnvöld gripu til þessara aðgerða og ég er mjög þakklát fyrir það vegna þess að ég sé í þessu sóknarfæri.

Talað er um fiskeldi, garðyrkju og rafmagn til húshitunar og almennar raforkuverðhækkanir hugsanlegar. Þá er það að segja hvað varðar fiskeldi og garðyrkju að þar hefur verið um ákveðna ívilnun að ræða af hálfu ríkisins eða pólitískar aðgerðir þessum atvinnugreinum í hag sem er skiljanlegt og hið besta mál. Hins vegar breytist umhverfið með nýju fyrirkomulagi þannig að ekki er hægt að halda áfram með það fyrirkomulag sem verið hefur í gildi. Þá vil ég minna á að ef sú tillaga sem hv. þingmenn báru upp hér, formenn tveggja stjórnarandstöðuflokka, hefði verið samþykkt þá fyrst hefðum við komið þessum atvinnurekstri í vandræði því þá hefðum við kippt honum út úr núverandi umhverfi sem er ívilnandi en ekki gert honum mögulegt að njóta frelsisins sem tekið verður upp nú um áramótin í raforkuviðskiptum. Ég held að ein 150 fyrirtæki séu af þeirri stærðargráðu að þau eiga möguleika á að velja sér raforkusala núna um áramót og m.a. er um fyrirtæki að ræða í þessum greinum sem það á við um. Ég veit þó vel að það er í rauninni ekki nóg. Þess vegna erum við að skoða það í ráðuneytinu. Það tengist að sjálfsögðu gjaldskrárvinnunni. Það þarf meira til að þessar atvinnugreinar geti áfram búið við viðunandi rekstrarumhverfi vegna þess að okkur finnst eins og öllum að þetta séu atvinnugreinar sem skipti mjög miklu máli. Hins vegar eru okkur, eins og ég segi, takmörk sett og verið getur að það komi að því að landbúnaðarráðuneytið sem þessar atvinnugreinar heyra undir verði að taka málið í sínar hendur ef um það er að ræða að vilji sé fyrir því að styrkja þær sérstaklega.

Það er mikið búið að tala um leyndarmál og að ég sé að halda málum leyndum fyrir hv. þingmönnum og að þessi fyrirtæki sem séu í eigu ríkisins séu almenningseign og þess vegna eigi umfjöllun um þau alltaf að vera uppi á borðinu frá A til Ö. En ég held því til haga sem ég er búin að segja áður í þessari umræðu að ég ber ábyrgð á þessum fyrirtækjum sem sá ráðherra sem fer með eignarhlutinn og þegar ég er í viðkvæmum samningaviðræðum við meðeigendur í Landsvirkjun þá get ég ekki borið allt á borð á hv. Alþingi. Það er bara þannig. Ég er bundin trúnaði og þess vegna gat ég ekki við 1. umr. farið yfir þessi mál hér en þau hafa orðið opinber í millitíðinni.

Hv. þm. Jón Bjarnason nefndi héraðsveitur og það er svo sem ekki nýtt mál. Það hefur verið talað um það og hefur verið áhugi á því — ég veit alveg um það — að skipta Rarik upp þannig að það gæti sameinast héraðsveitum. Ég hef kynnt mér það að sjálfsögðu hvort það væri möguleiki. Auðvitað er það tæknilega hægt en það yrði ekki til langframa — það er ég alveg sannfærð um — ef það yrði gert vegna þess að eftir því sem dreifiveitur eru stærri þeim mun hagkvæmari eru þær og það skiptir máli fyrir neytendur fyrst og fremst.

Hvað varðar almennt það sem kom fram hjá hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni þá er ég búin að fara yfir það að hluta til. Ég vil alls ekki að hv. þingmaður skilji það þannig að þó svo að verði af þessari sameiningu þá séu það einhver skilaboð til Norðvesturkjördæmis um að ekki sé vilji fyrir því af hálfu stjórnvalda að efla það kjördæmi. Það er alls ekki þannig. Við sjáum sóknarfæri í þessu nýja raforkuumhverfi og með því að sameina raforkufyrirtæki í eigu ríkisins. Það væri mín heitasta ósk ef hægt væri að efla þetta svæði og ekki síst Vestfirði.

Ég held að ég sé nokkurn veginn búin að fara yfir það sem kom fram í ræðum hv. þingmanna og get þá bætt um betur því mér sýnist að eitthvað sé um að hv. þingmenn ætli að koma hér í andsvör.