131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[20:48]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra svaraði ekki spurningu minni varðandi samráðsnefndina sem átti að skipa til að fylgjast með og stuðla að greiðari framkvæmd laganna, eins og þar stendur. Að mínu viti ætti hún þegar að vera komin á fullt, ekki síst í ljósi þess sem við höfum heyrt um vandræðagang í framkvæmd laganna. Mér finnst að hæstv. ráðherra verði að svara því.

Enn fremur, varðandi endurskoðunarnefndina sem átti að endurskoða lögin, sýnist mér endurskoðun á lögunum vera komin á fullt. Hér hafa komið til endurskoðunar stórir kaflar laganna og á að breyta þeim. Mér sýnist því að endurskoðunarnefndin þurfi líka að fara á fullt.

Þá vil ég einnig spyrja hæstv. ráðherra: Er það bara sannfæring ráðherrans sem á að ráða orkumálum í landinu? Hæstv. ráðherra vitnaði til sannfæringar sinnar. Það er sannfæring mín, sagði ráðherrann. Ég ætla ekki að gera lítið úr sannfæringu hæstv. ráðherra en sannfæring og vilji annarra getur líka skipt máli. Á bara að hunsa það? Er það bara einföld sannfæring ráðherrans sem á að ráða ferð?

Ég bendi t.d. á óskir Skagfirðinga sem hafa óskað eftir viðræðum um að fá að yfirtaka verkefni Rariks á sínu svæði, verði farið út í slíka uppskiptingu. Við heyrðum erindi Norðurorku og Orkubús Vestfjarða.

Telur ráðherrann einfaldlega að hennar persónulega sannfæring, sem við vitum að getur á ýmsan hátt verið grunduð eða búin til og ekki víst að nærri allir séu sammála, og síður en svo reyndar, séu rök í málinu? Ég tel það ekki nein rök í þessu máli og spyr hæstv. ráðherra í fyrsta lagi: Á hvaða stig eru þessar sameiningarviðræður komnar? (Forseti hringir.)