131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[20:50]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það skipti miklu máli, þegar maður tekur ákvarðanir eða mótar stefnu, að maður hafi sjálfur sannfæringu fyrir því að stefnan sé skynsamleg. Ég er sannfærð og hef lagt mig fram um að sannfæra hv. þingmann. Kannski tekur það lengri tíma en þetta kvöld en við skulum sjá til hvernig gengur.

Hvað varðar samráðsnefndina þá hefur hún ekki verið skipuð enda eru lögin ekki að fullu komin til framkvæmda. Það er verkefni til framtíðar að skipa hana og verður að sjálfsögðu gert snemma á næsta ári, tíu manna nefnd sem skiptir miklu máli.

Varðandi vandræðaganginn, eins og ég sagði áðan, þá er ég ekkert viðkvæm fyrir því ef hv. þingmaður vill nota það orð. En ég vil endurtaka að um er að ræða umfangsmiklar breytingar og vandasamar. Við verðum að taka því og ég reikna með að það gætu komið frumvörp á næsta ári um breytingar á lögunum.