131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[21:14]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta voru ákaflega áhugaverðar hugleiðingar hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni. Ég skil vel að hv. þingmanni bregði í brún þegar upplýsingar af því tagi sem hér hafa verið reiddar fram og hafa birst síðustu daga birtast allt í einu, að kannski eigi að fórna Orkubúi Vestfjarða og Rafmagnsveitum ríkisins á altari þess að reyna að hysja buxurnar upp um Landsvirkjun sem er að missa eigið fé niður úr öllu valdi vegna m.a. og ekki síst og auðvitað fyrst og fremst Kárahnjúkavirkjunar.

Það er beinlínis haft eftir engum öðrum en Alfreð í Bæjarins besta á Ísafirði og innan gæsalappa að hann telji skiljanlegt að ríkið vilji að Rarik og Orkubú Vestfjarða, með leyfi forseta: „… fari inn í Landsvirkjun til að bæta eiginfjárstöðuna. Hún sé slök um þessar mundir vegna Kárahnjúkavirkjunar og 10 milljarðar kr. í eigið fé mundi bæta stöðu Landsvirkjunar verulega.“

Ef það er það sem hér er á ferðinni er skiljanlegt að hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni og öðrum þingmönnum Vestfjarða bregði í brún þegar upplýsingar af þessu tagi koma skyndilega fram og menn komi alveg af fjöllum gagnvart þeim. Ég tel að það gangi ekki að þingmenn t.d. Norðvestur- og Norðausturkjördæmis séu ekki hafðir á nokkurn hátt með í ráðum um þessi efni ef fara á að ráðstafa þessum mikilvægu málum til frambúðar og leiða þau til lykta, sem eru engin smámál, hvernig orkudreifingu og framleiðslu verði fyrir komið á svæðunum til langrar frambúðar litið. Sama hefur verið upplýst um iðnaðarnefnd þar sem hv. þingmaður var reyndar formaður þangað til hann var sleginn af af flokkssystkinum sínum í haust. Ég vil því spyrja hv. þingmann: Hafa þingmenn Vestfirðinga náð saman ráðum sínum um þessi mál eða stendur til að þingmenn Norðvesturkjördæmis hittist út af þessum hlutum? Ég er tilbúinn til að beita mér fyrir því að biðja um slíkan fund meðal þingmanna Norðausturkjördæmis og ég skal í gegnum aðild mína að iðnaðarnefnd reyna að sjá til þess að hún krefjist þess að fá að vera með í ráðum.