131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[21:18]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek það fullgilt að hv. þingmaður vill fyrir sitt leyti beita sér fyrir því í sínum hópi að þingmenn Norðvesturkjördæmis reyni að nota aðstöðu sína til að knýja á um að þeir verði hafðir með í ráðum. Það er full ástæða til. Ég held að það sé rétt að menn hafi í huga að það munaði hársbreidd að knúin yrði fram undirritun á þessari viljayfirlýsingu um kaup ríkisins á hlut Akureyrarbæjar og Reykjavíkur í Landsvirkjun. Það munaði víst ekki miklu, hef ég ástæðu til að ætla, að tækist að stöðva það eiginlega á síðustu stundu að slík undirritun færi fram. Hæstv. ráðherra tengir þetta beint saman og setur beinlínis í það samhengi að þetta sé forsenda þess að síðan sé hægt að fara í þessa sameiningu sem virðist vera harðákveðin stefna hæstv. ráðherra.

Tilgangurinn gægist svo hér upp, skýtur upp kollinum í gegnum m.a. þau orð Alfreðs Þorsteinssonar að þetta sé gert til þess að lappa upp á eiginfjárstöðu Landsvirkjunar vegna Kárahnjúkavirkjunar. Þá er það nú ekki að verða mjög félegt ef það á að bera hagsmuni Vestfirðinga og Norðlendinga þarna algerlega fyrir borð, hafa óskir þeirra um tilhögun orkumála í landshlutum sínum algerlega að engu. Það á að ganga frá þessu meira og minna á laun, í skjóli nætur, og það vegna þess að iðnaðarráðherra fer með eigandahlutverk að þessum orkufyrirtækjum til viðbótar því að vera með stjórnsýsluna og framkvæmd laganna á sinni könnu.

Ég held að þó að ég sé í andsvari við ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar leyfi ég mér að fara fram á það að hæstv. ráðherra svari til um það áður en þessari umræðu lýkur hvort treysta megi því að ríkisstjórnin aðhafist ekki frekar í þessum málum nema að höfðu samráði við þingmannahópa kjördæmanna sem sérstaklega eiga í hlut og við iðnaðarnefnd Alþingis (Gripið fram í: Og sveitarstjórnar…) og að sjálfsögðu við heimamenn á viðkomandi svæðum.