131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[21:46]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson talar mikið um staðfestu og stefnufestu í skattamálum og ég tel slíkt mjög mikilvægt og er honum sammála um það.

Ég vildi spyrja hv. þingmann vegna þess að þetta mál varðar tvennt, annars vegar afnám eignarskatts og hins vegar lækkun tekjuskatts um 4%. Þegar staðgreiðslukerfið var tekið upp, og ég man ekki betur en að Alþýðuflokkurinn sálugi hafi komið að því, voru flestir sammála um að tekjuskattsprósentan mætti ekki fara upp úr því sem þá var lagt á eða rétt um 35%. Nú er verið að ná því stefnumiði með þessu frumvarpi. Síðan var skipuð nefnd til þess að koma á fjármagnstekjuskatti. Ég man ekki betur en hv. þm. Pétur Blöndal hafi m.a. tekið þátt í henni. Þar var líka formaður Alþýðuflokksins, hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson. Sú nefnd komst að þeirri niðurstöðu að taka ætti upp fjármagnstekjuskatt en afnema eignarskatt, þ.e. leggja skatt á tekjur af eignunum en ekki á eignina sjálfa. Nú er verið að koma báðum þessum stefnumiðum í framkvæmd með þessu frumvarpi, stefnumiðum sem (Gripið fram í.) Alþýðuflokkurinn barðist fyrir á sínum tíma. Og ég ætlaði að spyrja hv. þingmann: Hvað veldur þessari stefnubreytingu?