131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[21:48]

Frsm. 1. minni hluta (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að biðja hæstv. forsætisráðherra að skyggnast betur aftur í fortíðina. Ég man það ekki alveg, ég verð að viðurkenna það, hvort hæstv. forsætisráðherra sat í þessari nefnd en eins og hann man var barist um niðurstöðu þeirrar nefndar fram á síðasta dag og fulltrúi Alþýðuflokksins skilaði sérstöku áliti sem ég veit að hæstv. forsætisráðherra kannast við.

Nú vil ég líka taka það alveg skýrt fram að Samfylkinguna og Framsóknarflokkinn greinir auðvitað á í grundvallaratriðum í þessum efnum. Við höfum aldrei verið þeirrar skoðunar að afnema eigi allan eignarskatt af fyrirtækjum og stóreignafólki. Það hefur aldrei komið fram í stefnuskrá Samfylkingarinnar. Í stefnuskrá Samfylkingarinnar hefur hins vegar komið fram að lækka eigi matarskattinn um helming og ég vil ekki gera hæstv. forsætisráðherra það gramt í geði undir lok þingsins að fara að rifja upp hvað það er sem veldur því að ekki hefur tekist samstaða um það á hinu háa Alþingi. Ég (Gripið fram í.) vil hins vegar segja það við hæstv. forsætisráðherra að ég tel að hann sé mjög á rangri braut í skattamálum. Ég er líka þeirrar skoðunar að hann og flokkur hans hafi verið allt of leiðitamur við Sjálfstæðisflokkinn.

Ég heyri að hv. þm. Pétri H. Blöndal þykir ekki nóg gert, hann vill enn frekar undiroka og niðurlægja Framsóknarflokkinn. Ég hef satt að segja ekki hugmyndaflug til að sjá hvernig hann ætlar frekar að teyma hann til fylgilags í þessum efnum því mér finnst sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi náð öllu fram í þeim efnum sem hann vill. En ég vil segja, herra forseti, við hæstv. forsætisráðherra að ég held að áður en hann gengur til náða í kvöld eigi hann að draga fram gömlu skýrsluna um fjármagnstekjuskattinn og lesa sérálit fulltrúa Alþýðuflokksins.