131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[22:00]

Frsm. 1. minni hluta (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. landbúnaðarráðherra að Íslendingar hafa það flestir tiltölulega gott en hæstv. ráðherra veit það líka að þeir mundu hafa það miklu betra ef hann mundi hjálpa mér til að lækka matarskattinn. Hins vegar verð ég að segja að mér finnst sem hæstv. ráðherra sé ekki alveg í tengslum t.d. við veruleika láglaunafólksins í landinu. Það er því miður þannig að samfélagið hefur verið að gliðna og í því er hópur sem ekki hefur notið þessa góðæris.

Það er alveg rétt hjá hæstv. landbúnaðarráðherra líka að það var kreppa 1991–1994 og ég minnist þess alveg þegar ég steig hér inn og við héldum að við værum að sigla (Gripið fram í.) inn í gott skeið þegar þorskstofninn brast. Það má kannski segja að hæstv. ráðherra geti tekið undir með mér og Steini Steinarr og jafnvel hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni:

Ég var soltinn og klæðlaus og orti í Alþýðublaðið

og allur heimurinn fyrirleit blaðið og mig.

En við jafnaðarmenn ásamt þeim sem við störfuðum með þá lögðum að stórum hluta grundvöll að farsæld komandi ára með því að geta samþykkt aðild að Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta er viðurkennd staðreynd í dag og þá mætti kannski skoða hverjir það voru sem greiddu atkvæði gegn því. Ég ætla ekki að rifja það upp fyrir hæstv. landbúnaðarráðherra en auðvitað er aumt hlutskipti að vera landbúnaðarráðherra, sjá fram á það hvernig bændastéttin hefur því miður eða a.m.k. hluti hennar verið að sigla inn í miklu verra ástand en áður var undir forustu hæstv. landbúnaðarráðherra og þurfa að horfa framan í það að það er fyrst og fremst flokkur hæstv. landbúnaðarráðherra sem kemur í veg fyrir að hægt sé að selja meira af íslenskum landbúnaðarvörum með því að lækka matarskattinn.

Hæstv. ráðherra þarf ekkert að velta því fyrir sér hvort ég trúi eða hafi heimild um það eða ekki. Ég hef dregið annan og fínan mann til vitnis um það, hæstv. fjármálaráðherra, sem sagði það hreinlega opinberlega: Framsóknarflokkurinn vildi fara aðra leið. (Forseti hringir.)

Meira er ekki um það að segja, herra forseti.