131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[22:04]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það mál sem nú er komið til lokaafgreiðslu er eitt af þessum tiltölulega sjaldgæfu hápólitísku málum sem koma til meðferðar á Alþingi. Þetta er í rauninni eitt af þeim málum sem skiptir fólki í stjórnmálaflokka, afstaða til skatta, skattlagningar og með hvaða hætti skattkerfið eigi að vera uppbyggt.

Við höfum heyrt í þessum umræðum bæði í dag og áður að það eru þingmenn úr vinstri flokkunum sem telja að ríkið eigi peningana sem almenningur aflar sér með vinnu sinni og þess vegna sé verið að færa fólki gjöf með því að skila til baka hluta af skattfénu sem þetta fólk hefur greitt. Við hin teljum að þetta sé akkúrat öfugt. Almenningur á launin sín og ríkissjóður er að heimta hluta þeirra með skattheimtu til sinna þarfa sem auðvitað er nauðsynlegt upp að vissu marki en þegar það er svigrúm til að slaka á þeirri kló á ekki að hika við að gera það. Og nú erum við að gera það með því að afnema eignarskattana sem eru úrelt fyrirbrigði, bæði á atvinnureksturinn og á almenning, og við erum að gera það með því að stórlækka jaðarskattinn í tekjuskatti, stórminnka jaðaráhrifin sem eru illræmd og hafa mjög óheppileg áhrif, bæði á vinnuframboð og áhuga fólks á því að afla sér tekna og sömuleiðis á tilhneigingu fólks til að reyna að draga undan skatti tekjur sínar.

Hér kemur nú eitt af þessum hápólitískum málum til lokaafgreiðslu. Ég fagna því hversu greiðlega hefur gengið að koma því í gegnum þingið. Ég þakka mönnum fyrir gott samstarf í því efni í þinginu en ég er sannfærður um að þegar fram í sækir verður þetta frumvarp talið vera eitt það markverðasta sem hefur verið samþykkt í þinginu um langan aldur og er eins og ég sagði í dag framhald á þeim skipulagsumbótum í fjármálum og efnahagsmálum sem staðið hafa yfir í meira en áratug.