131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[22:06]

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Sjómenn, verkamenn, iðnaðarmenn, (Gripið fram í: Stúdentar.) bændur, (Gripið fram í: Stúdentar.) menntamenn, t.d. verkfræðingar, kennarar, hjúkrunarfólk; skrifstofufólk, aldraðir, barnafólk, allt þetta fólk, launafólk og lífeyrisþegar, getur glaðst með okkur hv. þingmönnum yfir þessu frábæra frumvarpi hæstv. fjármálaráðherra. Allt þetta fólk mun halda eftir stærri hlut af tekjum sínum og atvinnulífið mun blómstra. (Gripið fram í.) Kakan mun stækka enn frekar og það mun gefa okkur tækifæri til að halda uppi enn kröftugra velferðarkerfi öllum til hagsbóta.

Það lof sem hefur verið ausið á mig undanfarið að ég eigi einhvern þátt í þessu er oflof, það er annað fólk sem hefur unnið að þessu að miklu leyti, aðallega flokkssystkini mín og svo náttúrlega samstarfsflokkur okkar í ríkisstjórn sem náði fram t.d. hækkun á barnabótum. Þar kemur velferðarkerfið fram. Ég hugsa að þetta sé ekkert slæm blanda, frjálshyggjan, íhaldssemin og samvinnuhugsjón hæstv. landbúnaðarráðherra. (Gripið fram í.) Þetta eru bestu kjarabætur íslenskrar — hvar er þingmaðurinn sem kvartaði undan frammíköllum? (Gripið fram í: Þórunn.) Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir. (Gripið fram í: Hún hefur ekkert sagt.) Ég get ekki talað fyrir frammíköllum. (Gripið fram í: Við erum svo glöð.) Það er mjög ánægjulegt, herra forseti, hve glaðir hv. þingmenn eru. Þetta eru mestu kjarabætur sem launamenn …

(Forseti (BÁ): Forseti vill biðja hv. alþingismenn að gefa ræðumanni kost á að ljúka máli sínu.)

Þetta eru einar mestu kjarabætur sem íslenskir launamenn hafa fengið í lengri tíma. Það er svo aftur mitt persónulega vandamál hvernig ég fer að því að trúa því að eignarskatturinn sé farinn. Kannski einhvern tíma um áramót ef ég hugsa um það dag og nótt og ef ég klíp mig í handlegginn og trúi því að þetta sé ekki draumur fer ég að trúa því. (Gripið fram í.)