131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[22:14]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við umræðuna í haust um fjárlög og fjáraukalög og við umræðuna að undanförnu um skattalagabreytingar höfum við í Frjálslynda flokknum margbent á þau atriði að það kæmi sér betur til að stuðla að launajöfnun í landinu og hækkun á rauntekjum þeirra sem lægst hafa launin að útfæra hækkun á persónuafslætti og þar með hækka skattleysismörkin en að fara þá leið ríkisstjórnarinnar að leggja til prósentulækkun á tekjuskattinn til viðbótar við niðurfellingu hátekjuskattsins.

Sú breyting sem hér er verið að gera á skattalögunum og sjálfstæðismenn eru svo ofur glaðir með og framsóknarmenn styðja svo heils hugar sem komið hefur fram felur í sér að fólk með undir 100 þús. kr. á mánuði, láglaunfólk, ellilífeyrisþegar og öryrkjar, heldur áfram að greiða tekjuskatta. Þessi niðurstaða út úr skattalagabreytingunum er óviðunandi og stuðlar ekki að þeirri jöfnun sem við í Frjálslynda flokknum sækjumst eftir í þjóðfélaginu. Við teljum að nú hefði átt að bæta stöðu þeirra sem lægst hafa launin meira en gert er með núverandi breytingum sem færa mun fleiri krónur í vasa þeirra sem hæstar hafa tekjurnar.

Hér hefur verið lýst yfir mikilli hamingju með skattana og skattalagabreytingarnar og einkum hefur hv. þm. Pétur H. Blöndal haft það á orði. Af því tilefni varð þessi limra til í mínum huga:

Í laufblaðahrúgunni lá hann,

til sólar af hamingju sá hann.

Nú villtur hann er

en sér ekki hver

af sköttunum vill ekki sjá hann.