131. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2005.

Framhaldsfundir Alþingis.

[15:02]

Forseti (Halldór Blöndal):

Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir góðar óskir í garð okkar alþingismanna og starfsmanna Alþingis. Megi góðar óskir fylgja alþingismönnum, starfsmönnum Alþingis og landsmönnum öllum á nýju ári.

Okkur er enn í fersku minni þær skelfilegu náttúruhamfarir sem gengu yfir mörg ríki við Indlandshaf á annan í jólum. Nú er talið að um 250 þúsund manns hafi farist og urðu mannskaðar mestir í Indónesíu en um eitt þúsund borgarar bræðraþjóða okkar á Norðurlöndum eru einnig taldir hafa látið þar líf sitt.

Ég vil þakka Íslendingum rausnarlega aðstoð við þær þjóðir sem verst urðu úti. Ég bið hv. alþingismenn að minnast þeirra sem létu líf sitt í náttúruhamförunum í Asíu og votta syrgjendum samúð með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]