131. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2005.

Nýr skrifstofustjóri Alþingis.

[15:03]

Forseti (Halldór Blöndal):

Friðrik Ólafsson lét af störfum skrifstofustjóra Alþingis 20. janúar sl. fyrir aldurs sakir. Ég vil færa Friðriki Ólafssyni þakkir fyrir þau störf sem hann hefur unnið í þágu Alþingis. Ég veit að ég mæli fyrir munn allra alþingismanna þegar ég þakka honum ánægjuleg kynni, ljúfmennsku hans og gott samstarf sem skilur eftir góðar minningar.

Persónulega vil ég þakka honum langa vináttu og fjölmargar ánægjustundir við skákborðið á umliðnum árum. Við óskum Friðriki Ólafssyni allra heilla í framtíðinni.

Á fundi forsætisnefndar 4. janúar var einróma samþykkt að ráða Helga Bernódusson í starf skrifstofustjóra Alþingis frá og með 20. þessa mánaðar. Við þekkjum hann að góðum störfum í þágu Alþingis og alþingismanna í um 20 ár.

Fyrir hönd Alþingis býð ég hann velkominn til starfa í hans nýja embætti.