131. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2005.

Trúnaðarupplýsingar um stríðið í Írak.

[15:10]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi hefur haldið því fram að sá sem hér stendur og núverandi hæstv. utanríkisráðherra hafi ekki farið að lögum. Aldrei hefur hann kallað til eða óskað eftir því að maður á sviði stjórnskipunarréttar væri kallaður fyrir utanríkismálanefnd til að fara yfir það mál. Ekki hefur verið óskað eftir því að utanríkismálanefnd kæmi saman eftir að tillaga, sem hann er flutningsmaður að um þetta mál, var flutt 10. desember eða send til nefndarinnar um að nefndin væri kölluð saman. Samt leyfa þessir aðilar sér að halda því fram að sá sem hér stendur sé lögbrjótur.

Það liggur alveg ljóst fyrir að farið var að réttum lögum og farið var að réttum reglum. Nú liggur það fyrir frá prófessor við Háskóla Íslands, Eiríki Tómassyni, að það hafi verið gert. Ég skal láta hv. þingmann fá það álit.

Hann hefur líka haldið því fram að ég sé ósannindamaður. Ég er ekki ósannindamaður í þessu máli og það liggur alveg ljóst fyrir að ég hef allan tímann upplýst um þetta mál í utanríkismálanefnd, hér á Alþingi og í fjölmiðlum eins og eðlilegt er. Nú hefur þeim trúnaði af þessum skjölum verið aflétt með því að leka þeim út þannig að ekkert meira er um það að segja.

Í fundargerð ríkisstjórnar þann 18. mars stendur að málið hafi verið rætt. Það er ekki venjan að bóka orðaskipti í ríkisstjórn. Það liggur fyrir að málið var þar á dagskrá og ég hef margupplýst að málefni Íraks voru þar á dagskrá og þar stendur að málið var rætt. Það liggur því allt fyrir í þessu máli. Það er ekkert nýtt sem þarf að koma fram, hefur legið fyrir allan tímann en hv. þingmaður og aðrir ættu betur að biðja um fund í utanríkismálanefnd til að fá það sem þeir óska eftir.