131. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2005.

Fsp. 2.

[15:19]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að Ísland sækist eftir sæti í öryggisráðinu 2009 og 2010 með framboði 2008. Þetta er í samráði við öll hin Norðurlöndin en Norðurlöndin hafa skipst á í þessum efnum mjög lengi en Ísland hefur aldrei gefið kost á því áður.

Að því er varðar kostnað við framboðið hygg ég að gerð hafi verið grein fyrir málinu í utanríkismálanefnd. Mér vitanlega hefur verið um það góð samstaða innan utanríkismálanefndar að sækjast eftir því að við færum í öryggisráðið. Við getum að sjálfsögðu ráðið miklu um það hvað við leggjum í mikinn kostnað vegna þessa en aðalkostnaðurinn sem til mundi falla er vegna starfsmanna í New York og að sjálfsögðu eru ýmsir möguleikar til þess að færa til í utanríkisþjónustunni frá öðrum verkefnum meðan á þessu stendur. Ég er því þeirrar skoðunar að sá kostnaður sem hefur verið talað um í fjölmiðlum síðustu daga sé fjarri lagi.