131. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2005.

Fsp. 2.

[15:21]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Já, það er ljóst að þarna er um ákvörðun ríkisstjórnar að ræða, framkvæmdarvaldsins, og við það eru ekki gerðar athugasemdir þó að út af fyrir sig hefði verið ástæða til þess að fram færi grundvallarumræða um það á fyrri stigum málsins á þingi hvort menn vildu leggja upp í þennan leiðangur í og með líka til þess að skapa meiri samstöðu um það verkefni. Það er ljóst að þetta er líka gert með samþykki og stuðningi hinna Norðurlandanna þannig að það er auðvitað ekki bara einkamál Íslands hvernig málið fer.

Þá hlýt ég að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hverju sætir að svo seint sem raun ber vitni skuli varaformaður fjárlaganefndar og talsmaður Sjálfstæðisflokksins í ríkisfjármálum taka að beita sér gegn málinu? Telur hæstv. forsætisráðherra það mjög heppilega uppákomu og er ætlunin að ríkisstjórnin tali með þingliðið að baki sér einum rómi í þessum efnum eða þurfum við að búa við það áfram að uppi séu deilur af því tagi sem umræður síðustu daga benda til?