131. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2005.

Fsp. 3.

[15:30]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þau svör sem hér komu. Mér finnst full ástæða til að ítreka að það eru að koma fram upplýsingar um verulega breytt kostnaðarmat við jarðgöng, eins og t.d. upplýsingar sem komið hafa fram um hugsanleg jarðgöng til Vestmannaeyja sem lagt hefur verið mat á og munar þar engum smáupphæðum ef um er að ræða yfir 10 milljarða á þeirri framkvæmd einni. Ég vil því í þessari umræðu beina þeirri stuttu spurningu til hæstv. samgönguráðherra hvort hann geti upplýst þingheim um hvað kílómetrinn í göngunum undir Almannaskarð kostaði. Þar gekk mun hraðar að framkvæma það verk en gert hafði verið ráð fyrir og væri afar fróðlegt ef hæstv. ráðherra hefði þær tölur. Hann var a.m.k. viðstaddur sprenginguna sem menn muna og fór betur en á horfðist. Ég spyr hvort hann geti upplýst okkur um hvað sú framkvæmd sem svo vel gekk kostaði á kílómetrann.