131. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2005.

Fsp. 4.

[15:36]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst að tilgangurinn með þeim lagabreytingum sem samþykktar voru á Alþingi á síðasta ári var vissulega sá að auðvelda fólki kaup á eigin húsnæði í fyrsta lagi með lækkun vaxta en ekki síður með hækkun lánshlutfalls almennra íbúðarlána Íbúðalánasjóðs í 90%. Samfara því var hámarksfjárhæð lánanna hækkuð verulega eða úr 9 millj. í tæplega 15.

Það liggur hins vegar fyrir eins og hv. þingmaður rakti í máli sínu að vegna mikillar hækkunar húsnæðisverðs á undanförnum missirum umfram hækkun brunabótamats þá er hið síðarnefnda, þ.e. brunabótamatið, ekki lengur heppilegur mælikvarði eingöngu þegar veitt eru lán til húsnæðiskaupa. Farið er yfir þetta mál í félagsmálaráðuneytinu þessa dagana og ég vonast til þess, hæstv. forseti, að geta mjög fljótt, jafnvel næstu daga, brugðist við þeim aðstæðum sem hv. þingmaður vakti athygli á.