131. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2005.

Fsp. 4.

[15:39]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hvet hæstv. ráðherra til að gera þessar breytingar sem allra fyrst því það stefnir í óefni í þessu máli hjá Íbúðalánasjóði ef ekki verður brugðist við. Ég tel að þetta geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir stöðu sjóðsins og þá einstaklinga sem leita til hans ef þessu verður ekki breytt. Ekki er ólíklegt að að óbreyttu geti þróunin orðið sú að veruleg fjölgun verði á íbúðum þar sem eftirstöðvar lána verða hærri en brunabótamatið en með því er hreinlega verið að rýra verðgildi eigna og skekkja verðmyndun þeirra. Ég ítreka að ekki er nægjanlegt að bæta við lóðamatinu. Því er enn spáð að fasteignaverð fari hækkandi og það mun enn valda erfiðleikum hjá sjóðnum og þeim sem vilja eiga viðskipti við Íbúðalánasjóð. Þær breytingar sem gerðar voru fyrir jólin með hækkun á lánshlutfalli og hærra hámarksláni hafa ekki gagnað sem skyldi og þetta hefur komið sérstaklega illa við fólk sem fékk viðbótarlán áður sem miðað var við kaupverð fasteigna.