131. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2005.

Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2003.

[16:21]

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Óhætt er að segja að á síðustu árum hefur staða almennings gagnvart stjórnsýslunni verið stórbætt. Almenningi hefur verið fengið tæki í hendur til þess að sækja rétt sinn gagnvart stjórnsýslunni með setningu stjórnsýslulaga, með setningu upplýsingalaga og ekki síst með stofnun embættis umboðsmanns Alþingis en skýrsla um störf hans er nú til umræðu.

Forsenda þess að markmið stjórnsýslulaga um agaða starfshætti í stjórnsýslunni náist, þar sem jafnræði milli þegnanna í málsmeðferð er haft að leiðarljósi, er annars vegar að starfsmenn hennar þekki til þeirra krafna sem gerðar eru til þeirra og hins vegar að almenningur þekki rétt sinn. Það má segja að stjórnvöld hafi að mörgu leyti staðið sig þokkalega gagnvart skyldu sinni að uppfræða starfsmenn stjórnsýslunnar um hvernig þeir eigi að afgreiða mál sem leitað er með til þeirra þó að vissulega megi bæta um enn betur og þetta er málefni sem þarf að vera stöðugt í umræðunni og stöðugt vakandi fyrir, ekki síst gagnvart nýju starfsfólki og þá nýjum hugmyndum.

Það má hins vegar spyrja sig hvort almenningi hafi gefist kostur á að fá upplýsingar um rétt sinn gagnvart stjórnsýslunni í sama mæli. Almenningur þarf að mínu mati allt of mikið að reiða sig á ráðgjöf sérfræðinga til að sækja rétt sinn. Ég tel að gera þurfi átak til að uppfræða almenning um rétt sinn gagnvart stjórnsýslunni. Í þeim efnum mætti t.d. líta til upplýsingabæklings á vegum heilbrigðisráðuneytisins sem var gefinn út fyrir almenning fyrir nokkrum árum, um réttindi sjúklinga, sem var byggður á lögum um sama efni. Þar var á einföldu og skiljanlegu máli gerð grein fyrir þeim réttindum sem sjúklingurinn hefur gagnvart heilbrigðiskerfinu þegar hann þarf að leita þjónustu á þeim vettvangi.

Hv. þingmaður Guðrún Ögmundsdóttir benti á í ræðu sinni áðan að fjöldi kvartana gagnvart heilbrigðiskerfinu væri mun minni en umfang þess og eðli gæfi til kynna, kvartanir sem fara til umboðsmanns Alþingis. Það má kannski leiða að því líkur að einmitt sá bæklingur og kynning á réttindum almennings hafi gert það að verkum að almenningur þekki kæruleiðir sínar og geti leitað úrlausna í sínum málum í meira mæli en gagnvart öðrum almannakerfum.

Það er reyndar svo að slíkur bæklingur hefur verið gefinn út af umboðsmanni Alþingis. Ég hef reyndar ekki séð þann bækling en ég vænti þess að hann sé jafneinfaldur og skiljanlegur og sá bæklingur sem ég nefndi um réttindi sjúklinga en alla vega er það ljóst að það þarf að bæta um betur við að kynna almenningi rétt sinn.

Skýrsla umboðsmanns Alþingis er mikilvægt tæki fyrir okkur og ekki síst fyrir okkur alþingismenn til að fylgjast með störfum stjórnsýslunnar. Það vekur athygli að þrátt fyrir allt hefur þó lítil breyting orðið á eðli kvartana sem berast til umboðsmanns Alþingis frá einu ári til annars. Þannig varða t.d. 17% mála sem berast til umboðsmanns tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu mála en stjórnsýslulög eru býsna ákveðin varðandi málshraða. Þetta hlutfall hefur verið nær óbreytt frá árinu 2000. Einnig má bæta við að í um 10% tilvika til viðbótar beinast kvartanir gagnvart málsmeðferð og starfsháttum stjórnsýslunnar sérstaklega. Alls nema þessar kvartanir tæplega þriðjungi mála sem berast til umboðsmanns og það er ákveðið áhyggjuefni.

Þó verð ég nú að segja að það er sérstakt ánægjuefni að sjá að kvörtunum gagnvart heilbrigðisþjónustunni, sem er kannski það ráðuneyti sem ég fylgist mest með, varðandi töf og athugasemdir við stjórnsýslu ráðuneytisins sjálfs hefur fækkað á undaförnum árum en lengi vel trónaði ráðuneytið á toppnum í þessum efnum en hefur greinilega tekið sig á þannig að það er alveg ljóst að það er hægt að taka sig á í þessu efni.

Í þessu sambandi er áhugavert að lesa umsögn umboðsmanns Alþingis í skýrslunni sem hér er til umfjöllunar, að stjórnvöld sýni á stundum nokkra tregðu í að fallast á að ákvæði stjórnsýslulaga gildi um starfsemi þeirra að hluta eða öllu leyti og hafi tilhneigingu til að telja að íþyngjandi ákvæði laganna geri þeim illa kleift að sinna þeim verkefnum sem þeim er lögboðið að bjóða. Þetta þýðir að hætta er á að viðkomandi stofnanir brjóti á þeim sem þær þjóna og er það ákveðið áhyggjuefni því að gera þarf miklar kröfur til stofnana og starfsemi á vegum ríkisins og hvernig þær mæta þeim sem til þeirra leita. Ef ekki er að gætt er réttaröryggi borgaranna í samskiptum við stjórnvöld í hættu.

Reyndar er ástæða til að taka undir orð umboðsmanns Alþingis þegar hann segir eftirfarandi, með leyfi forseta, á bls. 14 í skýrslu umboðsmanns Alþingis:

„Í þessu sambandi bendi ég raunar á að sú aðferðafræði við úrlausn stjórnsýslumála sem stjórnsýslulögin lýsa getur í mörgum tilvikum gert vinnu stjórnvalda einfaldari og skilvirkari enda séu í upphafi lagðar línurnar um það hvernig ferill stjórnsýslumáls verði að vera svo að meginreglum laganna sé fylgt.“

Í þessari stuttu ræðu minni vil ég að lokum taka undir með umboðsmanni Alþingis að það sé ánægjuefni að að öllu jöfnu bregðist stjórnvald vel við ábendingum umboðsmanns og fari að tilmælum hans hvort heldur um er að ræða almenn eða sérstök tilmæli. Þetta bendir til þess að stjórnvöld og stofnanir ríkisins vilji leggja sig fram um að veita þegnunum góða þjónustu.

Að síðustu vil ég færa umboðsmanni Alþingis þakkir fyrir ítarlega og góða skýrslu sem er gagnleg okkur hv. þingmönnum til þess að gegna eftirlitshlutverki okkar með framkvæmdarvaldinu.