131. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2005.

Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2003.

[16:33]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við höfum hér fjallað um skýrslu umboðsmanns Alþingis og drepið á ýmis atriði sem koma fram í henni. Eins og þingmenn hafa getið um er plaggið mikið að vöxtum, skýrslan sem kemur árlega til okkar þingmanna. Það er virkilega fróðlegt að fara yfir þau mál sem koma til kasta umboðsmanns og hans dygga starfsliðs en einir sjö lögfræðingar vinna hjá umboðsmanni auk nema sem kynna sér mál og vinna í málum með lögfræðingunum. Þetta eru um 300 mál og ekki lítið sem starfsfólk þarf að afkasta á einu ári. Í skýrslunni er vandlega rakið á hvaða stigi málin eru, af hvaða tegund þau eru og háttvirtir alþingismenn sem talað hafa á undan mér hafa stiklað á stóru í þeim efnum.

Eitt af því sem umboðsmaður Alþingis nefndi þegar hann kom til allsherjarnefndar fyrr á síðasta ári var að stjórnmálamenn þyrftu kannski að skoða ákveðin atriði sem varða verksvið eða valdsvið umboðsmanns hvað varðar dómstólana. Umboðsmaður benti á að Norðmenn og nágrannaþjóðir okkar hefðu gert skurk í að skilgreina vel verksvið umboðsmanns varðandi dómstólana. Þá erum við að tala um stjórnsýslu dómstólanna en ekki niðurstöður dómsmála. Tryggvi Gunnarsson talaði um að Norðmenn hefðu unnið það verk afar vel og vitnaði í skýrslu frá norska þinginu máli sínu til stuðnings. Hann gerði ráð fyrir því að alþingismenn gætu skoðað þá skýrslu til að athuga hvort skerpa mætti betur á hvað varðar framkvæmdina hjá okkur, þ.e. að skýrt þurfi að vera á hvern hátt umboðsmaður skuli segja til um stjórnsýslu dómstólanna.

Það er athyglisvert að umboðsmaður segir skýrt og skorinort í skýrslu sinni að rökstuðningur stjórnvalda varðandi skipan í störf sé oft á tíðum ekki nægilega vandaður. Það er nauðsynlegt að stjórnvöld taki það til skoðunar og sjái til þess að stofnanir á vegum hins opinbera komi sér upp verklagsreglum sem nægja í þeim efnum.

Það er líka athyglisvert, þegar maður fer í gegnum skýrslu umboðsmanns, að þar má lesa á milli línanna að þeir sem fylgja eftir lögum og reglum í samfélagi okkar verða að gera sér grein fyrir því í grundvallaratriðum að reglurnar eru ekki settar í þágu stjórnsýslunnar heldur í þágu borgaranna. Það má ekki vera tregða í kerfinu gegn því að fara að stjórnsýslulögum. Stjórnsýslulögin þurfa að vera það virk og allir sem eftir þeim eiga að fara verða að gera sér grein fyrir því grundvallaratriði að reglurnar eru settar í þágu borgaranna en ekki stjórnsýslunnar sjálfrar.

Það er líka athyglisvert að umboðsmaður getur um það að í nokkuð mörgum tilfellum takist opinberum úrskurðarnefndum ekki að haga vinnu sinni þannig að þeim takist að ljúka afgreiðslu mála innan tiltekins frests sem yfirleitt er gefinn í lögum. Það verður einnig að taka til skoðunar og athuga hvort löggjafinn setur ekki nægilega fresti fyrir þær úrskurðarnefndir sem starfa á okkar vegum. Það er auðvitað ekki góð stjórnsýsla að úrskurðarnefndir nái ekki að skila niðurstöðum innan þess frests sem þeim með lögum er ætlaður.

Í þessu sambandi má geta þess að um 54 úrskurðarnefndir starfa samkvæmt lögum. Ég tel að það séu líka ákveðin skilaboð til okkar sem í þessum sal störfum. Vert væri að skoða hvort þetta sé kannski komið út í einhverjar öfgar, hvort úrskurðarnefndirnar séu orðnar of margar eða hvort vinna þeirra nái ekki að vera nægilega skilvirk.

Umboðsmaður telur mikilvægt að fólk sem starfar eftir stjórnsýslulögunum fái stuðning frá hinu opinbera til þess að kynna sér lögin nægilega vel og að staðið sé vel að því hjá stofnunum hins opinbera að þeim sem gert er að fara eftir þeim lögum séu kynntar bestu aðferðir til að fara eftir þeim og í því sambandi er eðlilegt að við lítum til nágrannalanda okkar þar sem stjórnsýslulög hafa verið til umfjöllunar. Það skiptir verulegu máli að það sem vel hefur verið gert í nágrannalöndum okkar skili sér hingað til okkar. Þar hafa verið unnin verk sem við getum örugglega nýtt okkur á þessum sviðum. Það er á okkar ábyrgð að fræða fólk um stjórnsýslulögin. Það eru ekki margir sem leggja sig eftir stjórnsýslulögunum eða lesa þau sér til skemmtunar eða ánægju. Þau eru nokkuð flókin og tyrfin og eðlilegt að hið opinbera hvetji til þess á jákvæðan hátt að þeir sem eiga eftir þeim að starfa geti það á eins einfaldan og skilvirkan hátt og mögulegt er.

Það má t.d. nefna að sveitarfélögin ættu að vera dugleg að halda fyrir starfsmenn sína námskeið eða kynningar á stjórnsýslulögunum og því hvernig þau virka best. Í þessu sambandi mætti einnig nefna stéttarfélögin.

Hér er getið um verklag við ráðningu opinberra starfsmanna. Það er alvarlegt ef á daginn kemur að verklagið sé með þeim hætti að ámælisvert sé. Það þarf auðvitað að athuga hvort sjónarmiðum ráðningaraðila sé rétt beitt og hvort þau eigi sér málefnalega stoð. Í opinbera kerfinu þarf að tryggja að allar umsóknir um störf fái málefnalega umfjöllun og ráðningar séu rökstuddar á gegnsæjan hátt og einfaldan.

Hæstv. forseti. Ég held að í svo stuttum ræðum sé ekki hægt að fara, svo vel sé, í einstök mál en almennt held ég að við höfum komist yfir það sem helst er fjallað um í skýrslunni og við ættum að hafa vakandi auga á í þessu sambandi. Fyrst og fremst þarf almenningur að vera mjög meðvitaður um rétt sinn og leiðirnar innan kerfisins. Það er á ábyrgð þeirra sem starfa fyrir hið opinbera að almenningi sé gerður ljós sá réttur. Það er líka nauðsynlegt að þeir sem starfa á okkar vegum eftir stjórnsýslulögunum fái hvatningu til þess að gera það á sem skilvirkastan hátt.

Að lokum langar mig að nefna eitt atriði sem umboðsmaður nefndi í máli sínu við allsherjarnefnd sem ég held að við í þessum sal þurfum að hafa í huga og skoða. Það er spurningin um það þegar verkefni eru flutt frá ríki eða frá sveitarfélögum til einkaaðila, þ.e. spurningin um hversu mikið af reglunum sem hafa gilt um viðkomandi svið fylgi viðkomandi máli eða málaflokki yfir til einkaaðilanna, yfir í einkageirann. Ég tel að veruleg þörf sé á að skoða þá þætti í einkavæðingarbrölti ríkisstjórnarinnar. Hingað til hefur orðið misbrestur á í þessum efnum. Þannig eru grá svæði í málaflokkum sem hafa verið fluttir yfir til einkaaðila og vafi á því hvort opinberar reglur sem giltu meðan málin voru í opinberri forsjá gildi áfram þegar málin eru komin yfir í einkageirann. Dæmi um þetta gætu t.d. verið upplýsingalög sem þyrfti að skoða með tilliti til þessa.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta, hæstv. forseti. Margt í skýrslunni er það fróðlegt að ég hvet alþingismenn til að fara vel yfir hana. Í formála skýrslunnar er farið yfir málin svona almenns eðlis og ég tel nauðsynlegt fyrir okkur að setja okkur vel inn í þau þannig að við getum í framtíðinni, þegar við höldum áfram lagasetningavinnu, tekið mið af því sem umboðsmaður og starfsmenn hans hafa komist að í störfum sínum.