131. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2005.

Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2003.

[16:43]

Halldór Blöndal (S):

Herra forseti. Samkvæmt lögum um starfsemi Ríkisendurskoðunar ber henni að semja skýrslu um störf sín á liðnu almanaksári og leggja fyrir Alþingi. Ársskýrslan fyrir síðasta ár var gefin út og birt í aprílmánuði með sama hætti og gert hefur verið á liðnum árum. Mun ég nú gera grein fyrir því helsta í skýrslunni.

Ársskýrsla Ríkisendurskoðunar fyrir árið 2003 er með nokkuð hefðbundnu sniði. Í henni er m.a. gerð grein fyrir starfsskyldum stofnunarinnar, starfsemi hennar á árinu 2003 og markmiðum með endurskoðun á leiðum á því sviði. Jafnframt er gerð grein fyrir þeim skýrslum, leiðbeiningarritum og greinargerðum sem stofnunin gaf út á árinu og fyrir starfi einstakra sviða stofnunarinnar. Þó er það nýmæli að finna í skýrslunni að þar er gerð sérstök grein fyrir ýmsum kennitölum um umsvif og árangur í störfum Ríkisendurskoðunar á árinu 2003 og nokkrar þeirra bornar saman við sambærilegar kennitölur systurstofnana á Norðurlöndum.

Rekstrarútgjöld Ríkisendurskoðunar, að frádregnum tekjum af seldri þjónustu, námu alls rúmum 327 millj. kr. á árinu 2003. Á árinu 2002 námu rekstrarútgjöld tæplega 266 millj. kr. Útgjöldin jukust því um 61 millj. kr. á milli ára. Mestu munaði um aukinn launakostnað vegna fjölgunar starfsmanna, stofnkostnað vegna byggingarframkvæmda og innréttinga fyrir nýja starfsmenn, auk almenns rekstrar. Fjárheimild stofnunarinnar á árinu nam rúmum 284 millj. kr. og varð því 43 millj. kr. tekjuhalli á rekstrinum. Hún átti á hinn bóginn 28 millj. kr. uppsafnaðan tekjuafgang frá fyrri árum. Því varð endanlegur halli á rekstrinum 15 millj. kr.

Rekstrarkostnaður skiptist þannig á milli starfssviða að 191 millj. kr. eða 58% af heildarkostnaði tengjast fjárhagsendurskoðun. Rekstur stjórnsýslu- og upplýsingasviðs kostaði um 48 millj. kr. eða um 26%. Rekstur lögfræði- og umhverfissviðs kostaði 23 millj. kr. eða um 7% og rekstur yfirstjórnar 28 millj. kr. eða tæplega 9%. Þessi kostnaðarskipting endurspeglar allvel umfang starfseminnar og skiptingu vinnustunda eftir starfssviðum og er svipuð og verið hefur undanfarin ár.

Í árslok 2003 voru starfsmenn Ríkisendurskoðunar 51. Meðalstöðugildi fastráðinna starfsmanna á árinu voru þó heldur færri, einkum vegna náms- og barneignarleyfa, eða 49. Stöðugildum fjölgaði um fjögur frá árinu 2002. Auk þeirra hafa utanaðkomandi endurskoðendur sinnt ýmsum verkefnum fyrir hönd stofnunarinnar.

Á árinu 2003 skiluðu starfsmenn alls rúmlega 76 þúsund vinnustundum við endurskoðun og eru það 10 þúsundum fleiri tímar en árið áður eða sem nemur fimm stöðugildum. Að auki keypti stofnunin þjónustu frá 12 endurskoðunarskrifstofum sem svaraði rúmlega 4 þúsund vinnustundum, það er 425 stundum meira en árið áður.

Haustið 2003 lauk umfangsmiklum viðgerðum og endurbótum á húsnæði Ríkisendurskoðunar að Skúlagötu 57. Samhliða því var unnið að nokkrum endurbótum á eldra húsnæðinu og var húsrými aukið í því skyni að koma upp stærra mötuneyti, kennslu- og fundarsal og meira skrifstofurými.

Á árinu 2003 voru afköst stofnunarinnar meiri en nokkru sinni fyrr í sögu hennar. Alls áritaði Ríkisendurskoðun 370 ársreikninga og samdi 274 endurskoðunarskýrslur. Þetta eru talsvert fleiri verk en unnin voru árið 2002 þegar 328 ársreikningar voru áritaðir og samdar 269 endurskoðunarskýrslur. Mikil og stöðug stígandi hefur verið í þessum þætti starfsemi stofnunarinnar á undanförnum árum. Þessu til viðbótar sendi Ríkisendurskoðun frá sér níu stjórnsýsluúttektir eða þremur fleiri en á árinu 2002. Þá gaf stofnunin út tvö leiðbeiningarrit og rit þar sem sýnt er hvernig hún hyggst sjálf beita aðferðum stefnumiðaðs árangursmats við stjórnun og mat á árangri.

Skýrslur þessar og rit spanna býsna vítt svið. Þar er m.a. fjallað um einkavæðingu helstu ríkisfyrirtækja á árunum 1998–2003, sameiningu sjúkrastofnana í Reykjavík, tölvukerfi sýslumanna, árangursstjórnun í ríkisrekstri og umhverfisendurskoðun. Margar þessara skýrslna eru einnig óvenju umfangsmiklar.

Ríkisendurskoðun stefnir að því að endurskoða árlega allar stofnanir ríkisins auk þess sem áhersla verður lögð á að votta upplýsingar um umsvif og rekstrarárangur sem stofnanir birti í ársskýrslum sínum. Í þessu sambandi skal þess getið að um það bil helmingur stofnana ríkisins hefur tekið upp svokallaða árangurstjórn sem felur m.a. í sér að þær setji sér markmið til lengri eða skemmri tíma sem nota má sem viðmiðun þegar endanlegur árangur er metinn.

Langfæstar endurskoðunarskýrslur eða endurskoðunarbréf sem starfsfólk Ríkisendurskoðunar tekur saman ár hvert vegna eftirlits- og endurskoðunarstarfa sinna koma fyrir almenningssjónir heldur eru þær fyrst og fremst sendar þeim aðilum sem endurskoðunin beindist að svo og viðkomandi ráðuneyti. Í þeim er lögð áhersla á að gera einstökum ráðuneytum og stofnunum formlega grein fyrir því í hverju endurskoðunin fólst og hvað hún leiddi í ljós samhliða því sem ársreikningur viðkomandi er vottaður. Ráðuneyti og stofnanir hafa yfirleitt tekið til umfjöllunar þær athugasemdir sem gerðar eru og brugðist við þeim. Að þessu leyti hefur endurskoðunarstarfið skilað ótvíræðum árangri. Í skýrslu um endurskoðun ríkisreiknings er síðan jafnan að finna samandregið yfirlit um þá vinnu sem unnin er við fjárhagsendurskoðun á vegum stofnunarinnar.

Auk hefðbundinnar endurskoðunar hefur Ríkisendurskoðun undanfarin ár fylgt þeirri stefnu við fjárhagsendurskoðun að taka nokkra afmarkaða málaflokka til sérstakrar athugunar í heild sinni og skoða gaumgæfilega tiltekin atriði við rekstur þeirra. Markmiðið með þessu er að auka aðhald í ríkisrekstri og stuðla að góðri og markvissri nýtingu fjármuna.

Við fjárhagsathuganir á árinu 2003 var hugað sérstaklega að sendiráðunum, fastanefndum og ræðisskrifstofum, rannsóknarstofnunum, söfnum, málefnum fatlaðra og heilsugæslustöðvum. Þá tók stofnunin einnig fyrir nokkra afmarkaða þætti í starfsumhverfi fyrirtækja og stofnana og skoðaði þá um leið og reikningar þeirra voru endurskoðaðir. Val þeirra endurspeglar að nokkru leyti mat á því hvaða áhættuþættir þykja skipta mestu máli. Meginmarkmiðið er að auka aðhald í ríkisrekstri og styrkja og efla innra eftirlit og umhirðu starfsmanna ríkisins með eignum og fjármunum hins opinbera.

Við endurskoðun ríkisreiknings fyrir árið 2002 var lögð sérstök áhersla á áhættustjórn, starfsmannastjórn og launamál, kaup á vörum og þjónustu og loks styrkveitingar. Gerð er grein fyrir niðurstöðum þessara athugana í III. kafla skýrslu um endurskoðun ríkisreiknings fyrir árið 2002.

Þrátt fyrir að Ríkisendurskoðun hafi fundið ýmislegt ábótavant við athugun á þessum atriðum telur hún að forstöðumenn ríkisstofnana séu almennt meðvitaðir um mikilvægi þeirra og að þeir búi yfir vilja til að breyta verklagi sínu eða bæta það sem ekki er í fullnægjandi horfi.

Eins og áður er rakið hefur tækniþróun á sviði bókhalds og bankaviðskipta leitt til þess að Ríkisendurskoðun hefur á síðustu árum lagt mjög aukna áherslu á innra eftirlit. Tveir starfsmenn stofnunarinnar starfa t.d. eingöngu við þetta verkefni. Innra eftirliti má skipta í tvo meginþætti. Hinn fyrri snýr að því umhverfi sem viðkomandi stofnun starfar í, m.a. með lögum og reglugerðum sem gilda um hana, skipulagi hennar og stjórn. Síðari þátturinn lýtur að gerð verkferla og verklýsinga. Þá eru einstakir áhættuþættir skilgreindir nánar, þeir skráðir og leitast við að bregðast við þeim með gerð ýmissa verkferla.

Meginniðurstöður þeirra athugana sem Ríkisendurskoðun hefur gert á undanförnum árum á þessu sviði eru að verulega skorti á að innra eftirlit ríkisstofnana sé skjalfest, að skipulegt áhættumat hafi farið fram og að til séu skýrir verkferlar og verklýsingar. Helsta skýring þess er sú að flestar stofnanir ríkisins eru fremur litlar og því telja forstöðumenn þeirra að þeir hafi nægilega yfirsýn um alla helstu þætti starfseminnar og geri sér því grein fyrir einstökum áhættuþáttum. Að mati Ríkisendurskoðunar er þetta óviðunandi og telur hún að mikil vinna sé fram undan hjá ýmsum stofnunum við að koma þessum þætti starfseminnar í viðunandi horf.

Á árinu 2002 lauk stofnunin við að skoða innra eftirlit hjá Fjársýslu ríkisins og Atvinnuleysistryggingasjóði. Þá var Landspítala – háskólasjúkrahúsi veitt aðstoð við athugun á innra eftirliti sjúkrahússins. Loks var skipulag og starfsemi innri endurskoðunar Landssíma Íslands hf. skoðað í kjölfar fjársvikamálsins sem þar kom upp á árinu.

Af starfsemi stjórnsýslusviðs Ríkisendurskoðunar á árinu 2002 er það að segja að sviðið lauk við níu úttektir. Stærstu verkefnin fjölluðu um sameiningu Landspítala – háskólasjúkrahúss, árangursstjórn í ríkisrekstri, einkavæðingu fyrirtækja í eigu ríkisins, Flugmálastjórn Íslands og menntun grunnskólakennara.

Þau verkefni sem ekki verða heimfærð beint undir endurskoðun sem og önnur almenn starfsemi stofnunarinnar var með hefðbundnu sniði á árinu 2003. Hér er einkum átt við eftirlit með staðfestum sjóðum og sjálfseignarstofnunum, eftirlit með reikningsskilum sókna og kirkjugarða, námskeið, endurmenntun starfsmanna og fleira.

Ríkisendurskoðun er í umtalsverðum alþjóðlegum samskiptum á sínu sviði. Hún er aðili að ýmsum fjölþjóðlegum samtökum um endurskoðun auk þess sem hún hefur gott samband við systurstofnanir í nágrannaríkjunum. Samstarf á þessum vettvangi er mjög mikilvægt enda má margt læra af reynslu og þekkingu systurstofnana og alþjóðasamtaka á sviði endurskoðunar.

Eins og ég gat um áðan er í skýrslunni m.a. að finna fróðlegt yfirlit yfir ýmsar kennitölur, um umsvif og árangur í störfum Ríkisendurskoðunar á síðustu árum. Í árangursmatinu er einkum leitast við að meta fjögur lykilsvið starfseminnar, þ.e. þjónustu stofnunarinnar, innri verkferla, starfsmenn og þróun og loks fjármál. Í sumum tilvikum er birtur samanburður við sambærilegar upplýsingar úr rekstri systurstofnana Ríkisendurskoðunar á Norðurlöndum.

Að því er þjónustuhlutverkið varðar leitast stofnunin við að veita álit og upplýsingar sem koma jafnt stjórnvöldum sem og stofnunum og fyrirtækjum ríkisins að gagni. Í þessari viðleitni sinni tekur hún fyrst og fremst mið af þeim meginverkefnum sem henni ber að lögum að sinna. Hvernig hún rækir þjónustuhlutverk sitt er hins vegar erfitt að mæla enda hefur ekki farið fram sérstök könnun í því efni á meðal þeirra sem telja má viðskiptavini stofnunarinnar.

Um innri verkferli er það að segja að Ríkisendurskoðun hefur reynt að meta árangur í því efni með því að fylgjast með fjölda áritaðra ársreikninga, endurskoðunarskýrslna, stjórnsýsluúttekta, greinargerða og annarra rita sem starfsmenn stofnunarinnar vinna. Samanburður á milli ára sýnir svo að ekki verður um villst að afköst stofnunarinnar hafa aukist verulega á síðustu þrem árum.

Í starfsmannamálum leitast stofnunin við að ráða þjálfað og hæft starfsfólk sem vill vinna og þróa vinnubrögð sín. Til að mæla þennan þátt er einkum horft til menntunar starfsmanna, meðalstarfsaldurs, fjölda vinnustunda og fjölda endurmenntunartíma. Að auki er fjöldi veikindadaga notaður sem mælikvarði á starfsumhverfi og ánægju á vinnustað. Mælingar þessar hafa t.d. leitt í ljós að hlutfall starfsmanna með þriggja ára starfsreynslu eða meira hefur aukist úr 67% í 73% á síðustu þrem árum. Meðalstarfsaldur er 9,6 ár eða nokkru lægri en hann er að meðaltali hjá norrænum systurstofnunum þar sem hann er 10,9 ár. Meðalstarfsaldurinn er þó hærri hjá Ríkisendurskoðun en hjá bæði norsku og sænsku ríkisendurskoðununum.

Fjöldi endurmenntunardaga var 6,7 dagar á starfsmann hjá Ríkisendurskoðun. Endurmenntunardagar hjá norrænum systurstofnunum voru á hinn bóginn að meðaltali 8,5 dagar. Fjarvistir starfsmanna Ríkisendurskoðunar vegna veikinda sem hlutfall af unnum stundum á árinu var 1,7%. Sambærilegt hlutfall norrænna systurstofnana var mun hærra eða að meðaltali 3,4%. Nánari grein er gerð fyrir þessum atriðum í skýrslunni og í sérstöku riti um stefnumið og árangursmat hjá Ríkisendurskoðun sem gefið var út á árinu 2003.

Um störf stofnunarinnar á árinu 2003 að öðru leyti mun ég ekki fjölyrða heldur læt nægja að vísa til skýrslunnar sjálfrar þar sem nánari grein er gerð fyrir megindráttum starfseminnar.

Að lokum vil ég fyrir hönd forsætisnefndar, herra forseti, flytja Ríkisendurskoðun og starfsmönnum hennar þakkir fyrir vel unnin störf á því ári sem hér hefur verið fjallað um.