131. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2005.

Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2003.

[16:58]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil leggja áherslu á það í upphafi míns máls að ég tel Ríkisendurskoðun líkt og embætti umboðsmanns Alþingis eina af grundvallarstofnunum innan stjórnsýslunnar. Þetta er stofnun sem á að hafa eftirlit og veita framkvæmdarvaldinu aðhald og þegar á heildina er litið hefur Ríkisendurskoðun sinnt sínu hlutverki afar vel.

Mig langar hins vegar að velta vöngum yfir vinnulagi stofnunarinnar og setja fram tillögur um hvað ég tel að mætti betur fara. Ég vil af því tilefni staðnæmast við skýrslu sem Ríkisendurskoðun sendi frá sér í desember árið 2003 um einkavæðingu helstu ríkisfyrirtækja árin 1998–2003.

Eins og fram kemur í formála að ritinu óskaði þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eftir því í janúar árið 2001 að Ríkisendurskoðun réðist í athugun á einkavæðingunni. Þar var sérstaklega vísað til einkavæðingarnefndar og Landssímans, einkavæðingar Landssímans, en það dróst nokkuð að ráðist yrði í rannsóknina. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs átti m.a. fund með Ríkisendurskoðun og þá var ákveðið og fallist á að þetta rannsóknasvið yrði víðfeðmara.

Hvað var að gerast á þeim tíma sem beiðnin var sett fram? Ég hef verið að skoða umræður sem fram fóru á þinginu, t.d. í marsmánuði árið 2002, eftir að beiðnin kemur fram. Þar er m.a. vakin athygli á því að Landssíminn hafði skilað yfir 20 milljörðum kr. í ríkissjóð á síðasta áratugi síðustu aldar, stofnun sem áður hugsaði fyrst og fremst um að veita landsmönnum þjónustu á hagstæðu verði væri nú orðin að fjárfestingarfyrirtæki með sæg af ráðgjöfum og sérfræðingum í peningatækni á sínum snærum. Vakin var athygli á því að Landssíminn var farinn að tapa peningum í fjárfestingarævintýrum á erlendri grundu, í einu slíku ævintýri töpuðust 400 millj. kr. Hæstv. þáverandi forsætisráðherra hafði upplýst að Landssíminn hafði tekið 5 milljarða kr. að láni til að fjárfesta fyrir og menn vildu fá skýringar á þeim fjárfestingarfyrirtækjum. Menn staðnæmdust við sölu á húsnæði Landssímans, höfuðstöðvarnar voru seldar fyrir 820 millj. kr. en síðan var greidd mánaðarleiga, 1% af söluandvirðinu, 8,2 millj. á hverjum einasta mánuði fyrir húsið sem stendur hér handan við Austurvöll. Húsið var því selt á 820 millj. en síðan voru endurgreiddar í a.m.k. tvö ár 100 millj. kr. á ári fyrir leigu af húsnæðinu. Menn voru að staðnæmast við staðreyndir af þessu tagi.

Sett hafði verið fram fyrirspurn um störf einkavæðingarnefndar, hv. þm. Kristján L. Möller gerði það og hafði fengið svör við fyrirspurnum sínum. Þar kom m.a. fram að einkavæðingarnefnd, það var ekki nóg með að hún væri á launum fyrir nefndarstörf, hún réð einnig sérfræðinga úti í bæ til að ráðleggja sjálfri sér. Og hverjir skyldu þeir sérfræðingar hafa verið? Það voru sömu mennirnir og sátu í einkavæðingarnefndinni. Fram kom í svarinu að á árabilinu 1996–2001 hafði formaður í nefndinni, Hreinn Loftsson, haft 16,6 millj. kr. í tekjur, 5,7 millj. fyrir nefndarstörf og 10,9 millj. fyrir sérfræðistörf til að ráðleggja sjálfum sér. Það voru heldur lægri upphæðir hjá Jóni Sveinssyni fyrir nefndarstörf og ráðgjafarstörfin og svo voru fleiri nefndarmenn að ráðleggja sjálfum sér fyrir peninga skattborgaranna.

Eins og fram kemur reyndar í skýrslu Ríkisendurskoðunar er um umtalsverðar upphæðir að ræða í tilkostnaðinn og herkostnaðinn af einkavæðingunni. Ég vil vitna, með leyfi forseta, í skýrsluna:

„Á árunum 1998–2003 var í fjárlögum gert ráð fyrir 94,6 millj. kr. fjárveitingu til einkavæðingarmála. Þegar í ljós kom hvaða einkavæðingarverkefni næðu fram að ganga var bætt við 633,5 millj. kr. í aukafjárveitingum.“

Fjárheimildir hafa því alls verið 728,1 millj. kr. á þessum árum. Kostnaðurinn við einkavæðinguna. Þetta voru menn að ræða og vildu m.a. fá rannsókn á þessu sem við sum höfum kallað spillingu.

Við spurðum líka í þessum ræðustól um ráðgjafana hjá Landssímanum. Hverjir ráðlögðu að selja höfuðstöðvarnar fyrir 820 millj. kr. og leigja sama hús fyrir 8,2 millj. á mánuði? Þetta eru spurningar sem voru settar fram í þessum ræðustól. Og hér er komið að mínum tillögum.

Fyrst vangaveltur: Þegar skýrsla Ríkisendurskoðunar er gaumgæfð kemur í ljós að hún spyr: Hver voru markmið ríkisstjórnarinnar? Síðan spyr hún: Hafa þau markmið náð fram að ganga?

Þetta er of þröngt sjónarhorn að mínu mati. Það á að sjálfsögðu að taka mið af þeirri pólitísku umræðu sem fram fer hér innan veggja og í samfélaginu almennt. Það á að taka mið af þeirri rökstuddu gagnrýni sem t.d. stjórnarandstaðan setur fram. Þetta er of þröng nálgun á viðfangsefnið. Það er ýjað að gagnrýni.

Hér segir t.d. á bls. 10, með leyfi forseta:

„Í yfirlýsingu stjórnvalda um sölu á Landsbankanum og Búnaðarbankanum var m.a. sagt: Við söluna verði þess gætt að ríkið fái hámarksverð fyrir eign sína í bönkunum. Þegar sala til kjölfestufjárfesta í Landsbanka og Búnaðarbanka er skoðuð virðist mega deila um hvort þetta markmið hafi náðst.“

En menn ræddu meira. Menn settu fram rökstudda gagnrýni á hendur stjórnvöldum um allt fyrirkomulagið á sölu bankanna sem var hannað sérstaklega til þess að sérstaklega Framsóknarflokkurinn næði fram markmiðum sínum. Búin var til sérstök formúla um kjölfestufjárfesta sem síðan var ráðstafað í beinum samningum við aðila á markaði, tilteknum völdum aðilum á markaði.

Síðan gagnrýndu menn alla hina pólitísku umgjörð málsins, hvernig staðið var að verki. Ríkisendurskoðun bendir réttilega á að það hafi ekki verið ýkja mikill munur á verðinu á þessum tíma sem fékkst fyrir bankana og sem hefði mátt ná á markaði. Ég held hins vegar að það hefði mátt ná miklu hærra verði með því að bjóða bankana hreinlega út á markaði eins og margir hægri mennirnir og frjálshyggjumennirnir vildu. Þetta er staðreynd. En hin pólitísku markmið vógu þyngra, að tryggja pólitíska hagsmuni.

Síðan hafa menn að sjálfsögðu spurt um verðið, stofnanir sem borguðu sig upp á fáeinum mánuðum, gefnar á silfurfati, og síðan búin til samræmd stefna fyrir báðar bankastofnanirnar. Ég held að mörgum hafi blöskrað þegar ríkið greiddi til baka eða færði verðið niður ári eftir að gengið var frá sölunni, reyndar í samræmi við samninga sem gerðir voru. Þá var verðið á annarri stofnuninni hækkað og þar af leiðandi hinni einnig vegna þess að pólitísku gæðingarnir þurftu að sjálfsögðu að njóta sambærilegra rétta til að gæða sér á.

Þetta höfum við kallað spillingu. Þess vegna óskuðum við eftir því að Ríkisendurskoðun færi í saumana á þessum málum. Þess vegna gagnrýni ég þessa skýrslu sérstaklega fyrir — ég ætlaði að segja linku og kannski meina ég það — en ég er þó fyrst og fremst að leggja áherslu á nálgun, á hvaða forsendum byggt er á þegar ráðist er í rannsókn af þessu tagi. Þetta set ég fram í fullri vinsemd í garð stofnunar sem ég ber mjög mikla virðingu fyrir, stofnunar sem ég vil búa mjög vel að, vegna þess að ég legg áherslu á að ég tel að Ríkisendurskoðun sé ein af grundvallarstofnunum í stjórnsýslu okkar og þegar á heildina er litið hefur hún sinnt hlutverki sínu afar vel í mjög mörgum tilvikum. Ég tel þó alvarlegar brotalamir vera í starfi hennar og birtast m.a. í þeirri skýrslu sem ég hef staðnæmst við.