131. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2005.

Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2003.

[17:11]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það er full ástæða til þess að taka undir það með síðasta ræðumanni að Ríkisendurskoðun er ein af grundvallarstofnunum þjóðfélagsins og mikilvægi hennar í þjóðfélaginu verður aldrei nógsamlega undirstrikað. Ég vil nota þetta tækifæri þegar við ræðum ársskýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir árið 2003 að þakka ríkisendurskoðanda og starfsfólki hans fyrir vel unnin störf og ágæta, góða og glögga framsetningu á starfi Ríkisendurskoðunar á því ári.

Ég ætla ekki að hafa langt mál um skýrsluna. Þetta er hefðbundin ársskýrsla Ríkisendurskoðunar en í henni má þó finna ýmis nýmæli. Fjárhagsendurskoðunin tekur kannski hvað mestan tíma af starfi Ríkisendurskoðunar og er stærsti þátturinn í starfseminni en ég held líka að stjórnsýsluendurskoðanir á stofnunum hafi sýnt sig að eru mjög mikilvægar í starfsemi stofnunarinnar og mikilvægt aðhaldstæki ef svo má orða það að hafa slíkar reglubundnar endurskoðanir á ríkisstofnunum þar sem er könnuð meðferð og nýting ríkisfjár og hvort hagkvæmni og skilvirkni sé gætt í rekstri stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins og hvort gildandi lagafyrirmælum sé framfylgt í þessu sambandi.

Ríkisendurskoðun hefur að venju gert nokkrar stjórnsýsluúttektir á þessu ári sem skýrslan fjallar um og hér er verið að fjalla um níu stjórnsýsluúttektir. Ég vil undirstrika að það er mjög mikilvægt, eins og kannski hefur komið áður fram þegar við höfum fjallað um skýrslur Ríkisendurskoðunar, að fastanefndir þingsins fjalli um þessar stjórnsýsluúttektir, fari yfir þær og allar þær ábendingar sem þar koma fram og tillögur. Þetta hefur verið gert nokkrum sinnum að fastanefndir þingsins miðað við málaflokka hverju sinni hafa fjallað um skýrslu Ríkisendurskoðunar og gert tillögur og ábendingar og komið með sínar tillögur í þingið í því efni. Það er af því góð reynsla og gagnast mjög vel og mikilvægt að hafa þann hátt á til þess að Alþingi geti sinnt eftirlitshlutverki sínu sómasamlega og veitt nauðsynlegt aðhald eins og því ber.

Forsætisnefnd fjallar um efni skýrslunnar á fundi með Ríkisendurskoðun, sem er afar mikilvægt og mjög gott að fá þar yfirferð um ýmislegt sem þar kemur fram.

Ég vil lýsa ánægju minni með þann þátt í starfsemi Ríkisendurskoðunar sem snýr að árangursstjórnun sem var tekin upp 1996 en tilgangur hennar var að fá ráðuneyti og stofnanir til að vinna skipulega að því að ná tilteknum markmiðum og mæla árangur starfsemi sinnar og reyna stöðugt að bæta reksturinn. Ég sé að í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram varðandi árangursstjórnunina að innleiðingin hafi gengið hægar en vonir stóðu til og að á árinu 2002 hafi aðeins helmingur stofnana gert árangursstjórnunarsamninga við ráðuneyti sitt. Væri fróðlegt að fá það upplýst á árinu 2005 hvernig því starfi miðar. Væntanlega fáum við upplýsingar um það þegar við fjöllum um skýrsluna í forsætisnefnd með ríkisendurskoðanda.

Ég sé líka að það er ýmislegt athyglisvert sem fram kemur að því er varðar stefnu, skilvirkni og gæði í störfum Ríkisendurskoðunar sjálfrar. Þar hefur verið gerð úttekt og samanburður miðað við t.d. önnur lönd. Ágætt er að nefna að veikindafjarvistir starfsfólks sem hlutfall unninna stunda 2003 hjá Ríkisendurskoðun hér á landi eru miklu færri eða hlutfallið lægra en í öðrum löndum. Er það athyglisvert, og rétt að draga það fram hérna.

Ég hef stundum rætt um það að mér finnist aðkeypt þjónusta hjá Ríkisendurskoðun hafa aukist. Ég er út af fyrir sig ekki að gagnrýna það. Mér skilst að endurskoðunarfyrirtæki úti á landsbyggðinni njóti góðs af því en ég sé að það er verulegur munur á kostnaði við fjárhagsendurskoðun hvort það eru starfsmenn Ríkisendurskoðunar sem hana vinna eða hvort um aðkeypta þjónustu endurskoðunarfyrirtækisins er að ræða. Á árinu 2003 var t.d. kostnaður á klukkustund við fjárhagsendurskoðun í aðkeyptri þjónustu 7.043 en ekki nema um 5 þús. hjá starfsmönnum Ríkisendurskoðunar. Þarna munar verulega, þ.e. um 2 þús. kr. á hverja klukkustund.

Mér skilst að það séu um 30 millj. sem fari til þessara endurskoðunarfyrirtækja og í aðkeypta þjónustu sem er kannski ekki út af fyrir sig mikið miðað við heildarkostnað við starfsemi Ríkisendurskoðunar sem er um 330 millj.

Virðulegi forseti. Ég fagna því líka sem hér er skilmerkilega getið og farið ítarlega yfir sem eru siðareglur sem Ríkisendurskoðun hefur sett sér. Það kemur hér orðrétt fram, með leyfi forseta:

„Þær reglur sem hér eru birtar fela í sér það siðferðilega gildismat sem starfsmenn Ríkisendurskoðunar og aðrir þeir sem starfa í umboði hennar ættu jafnan að hafa að leiðarljósi. Reglurnar byggja á siðareglum endurskoðenda í opinbera geiranum sem Alþjóðasamtök ríkisendurskoðana, INTOSAI, samþykktu árið 1998 […]

Siðareglunum er ætlað að minna starfsmenn Ríkisendurskoðunar og aðra þá sem starfa í umboði hennar á þær víðtæku og ströngu siðferðiskröfur sem gerðar eru til þeirra og stuðla þannig að því að varðveita og efla það traust og þann trúverðugleika sem stofnuninni ber að hafa.“

Hérna er svo farið yfir þessar siðareglur sem eru mjög ítarlegar. Ég vil nota þetta tækifæri hér og segja að þetta ætti að vera fordæmisgefandi fyrir aðrar ríkisstofnanir, að þær settu sér slíkar siðareglur. Ég minni í því sambandi á að ég hef flutt tillögu til þingsályktunar um siðareglur í stjórnsýslunni sem var á þá leið að ríkisstjórninni væri falið að skipa nefnd til að setja siðareglur í stjórnsýslunni. Markmiðið með setningu reglnanna hefði verið að tryggja betur aga, vönduð vinnubrögð og ábyrga meðferð fjármuna í stjórnsýslunni. Þar átti að hafa til hliðsjónar almennar reglur stjórnsýsluréttar um meðferð opinbers valds við töku stjórnvaldsákvarðana sem snerta hagsmuni, réttindi og skyldur borgaranna.

Ég tel mjög mikilvægt, virðulegi forseti, að Alþingi samþykki slíka tillögu og ég minni raunar á að ég hef einnig lagt fram tillögu um það að settar yrðu siðareglur fyrir þingmenn. Ég rifja það gjarnan upp nú þegar ég sé mér til mikillar ánægju að Ríkisendurskoðun hefur formað siðareglur sínar sem fram koma í þessari skýrslu.

Ég tel ástæðu til að nefna það að ég hef stundum vakið athygli á — það er nokkuð sem ég veit að hefur ekki undirtektir almennt í þessum þingsal — að mér finnst mikilvægt að þingmenn hafi góðan og greiðan aðgang að Ríkisendurskoðun. Núna er auðvitað opin sú heimild í 3. gr. að forsætisnefnd geti ýmist að eigin frumkvæði eða samkvæmt óskum þingmanna krafist skýrslna um einstök mál er falla undir starfsemi Ríkisendurskoðunar. Ég tel afar mikilvægt að þingmenn hafi greiðan aðgang að Ríkisendurskoðun og ég tel að þingmenn hafi ekki nægjanlegan vettvang innan þingsins til að sinna eftirlitshlutverki sínu. Þá er ég að tala um rannsóknarnefnd þingsins sem er heimilt samkvæmt 39. gr. stjórnarskrárinnar að stofna til. Það er fullkomlega óvirkt ákvæði vegna þess að aðeins einu sinni hefur verið stofnað til slíkrar rannsóknarnefndar þó að alveg örugglega hafi ein 50–60 þingmál gegnum áratugina gefið tilefni til að stofnað yrði til slíkra rannsóknarnefnda. Oft hefur verið á því þörf en ég held að ekki hafi verið nema ein samþykkt.

Meðan aðbúnaður þingmanna er með þeim hætti er mikilvægt að þingmenn hafi greiðan aðgang að Ríkisendurskoðun. Ég veit að hún er störfum hlaðin. Ég sé ekki eftir einni einustu krónu sem fer í rekstur á starfsemi Ríkisendurskoðunar. Þarna eru tæplega 50 starfsmenn og það þarf greinilega að gera betur við starfsemina. Ég vil þá minna á að það er komið á annað ár síðan forsætisnefnd óskaði, að minni beiðni, eftir því við Ríkisendurskoðun að gerð yrði skýrsla um kaup ríkisstofnana og ráðuneyta á ráðgjöf og annarri sérfræðiþjónustu sl. fimm ár. Þetta var 25. nóvember 2003. Ég taldi mjög mikilvægt að fá þetta fram vegna þess að sérfræðiþjónusta og kostnaður við hana, bæði hjá ráðuneytum og ríkisstofnunum, hefur blásið mjög mikið út. Fleiri milljarðar fara í þetta á hverju ári og ég taldi mikilvægt að gera á þessu úttekt en enn hefur ekki komið svar við þessu frá Ríkisendurskoðun þótt þarna sé vel ár liðið. Vænti ég þess og vona að ríkisendurskoðandi heyri nú mál mitt og að skoðað verði hvort ekki sé hægt að fara að skila þessari skýrslu og niðurstöðu til Alþingis.

Ég minni líka á það að 6. apríl 2004 ritaði forseti í nafni forsætisnefndar Ríkisendurskoðun bréf vegna erindis sem barst frá þingflokki Samfylkingarinnar. Í mars 2004 var þess farið á leit við Ríkisendurskoðun að hún gerði úttekt á því hvernig staðið var að undirbúningi og framkvæmdum við að koma á nýju hugbúnaðarkerfi hjá ríkinu, bæði fjárhagslega og faglega. Það fer að verða liðið ár síðan þetta var sett fram. Það er alveg ljóst af þeim umræðum sem fram hafa farið hér á Alþingi varðandi hugbúnaðarkerfið að kostnaður við að koma því á hefur farið verulega úr böndum. Ástæða er til þess að Alþingi skoði það mál og að því sé fylgt eftir af Ríkisendurskoðun með þeirri skýrslubeiðni sem við komum á framfæri í byrjun apríl á síðasta ári. Því verður að halda til haga. Geri ég það með þessari umræðu. Vonandi verður þessu starfi fylgt eftir og vonandi fáum við sem fyrst að sjá þessar skýrslur frá Ríkisendurskoðun.

Ég var að tala um aðbúnað þingmanna til þess að sinna eftirlitshlutverki sínu og þess vegna er fullkomin ástæða til að minna í lokin á það frumvarp sem Guðmundur Árni Stefánsson er 1. flutningsmaður að, um breytingu á lögum um þingsköp. Þar er kveðið á um rétt alþingismanna til upplýsinga um málefni fyrirtækja sem ríkissjóður á að hálfu eða meira. Allir þingmenn þekkja hve erfiðlega það hefur gengið þegar þingmenn hafa verið að leita eftir upplýsingum hjá slíkum fyrirtækjum, t.d. Landssímanum og fleiri fyrirtækjum sem ríkið á að hálfu eða meira. Ef búið er að hlutafélagavæða það er erfitt að fá slíkar upplýsingar en það er mjög vel rökstutt í þessu frumvarpi frá hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni og fleiri þingmönnum Samfylkingarinnar hve nauðsynlegt er að breyta þingsköpum í þessa veru þannig að löggjafarsamkoman og þingmenn geti haft meira eftirlit en þeir hafa möguleika á nú um meðferð fjármuna og aðra rekstrarþætti í meðferð opinberrar stjórnsýslu. Meðan svo er ekki er auðvitað enn þýðingarmeira það mikilvæga starf sem fram fer hjá Ríkisendurskoðun.

Ég vil ítreka þakkir mínar til ríkisendurskoðanda og starfsfólks hans fyrir vel unnin verk og það aðhald og eftirlit sem þessi stofnun veitir í stjórnsýslunni sem er mjög mikilvægt. Vissulega er hér um að ræða eina af grundvallarstofnunum í þjóðfélaginu sem hefur mjög mikilvægu hlutverki að gegna. Ég segi það enn og aftur að ég tel að þeim peningum sé vel varið sem treysta stöðu Ríkisendurskoðunar og búa vel að henni sem stofnun þannig að hún geti sinnt hlutverki sínu.