131. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2005.

Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2003.

[17:26]

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Við ræðum hér ársskýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir árið 2003, skýrslu sem gefin var út í apríl 2004 og við ræðum nú í janúar 2005.

Maður hefur stundum velt því fyrir sér hér þegar við erum að taka fyrir svona hluti á hinu háa Alþingi hvað það líður oft langur tími frá því að svona skýrslur og úttektir koma fram þar til okkur gefst kostur á að ræða þær hér úr ræðustóli Alþingis. Auðvitað hefði verið betra fyrir okkur þingmenn ef við hefðum komist í að ræða þessa skýrslu einhvern tímann í apríl eða maí á síðasta ári. Þær upplýsingar sem hér eru t.d. um fjárhag stofnunarinnar og aðrar slíkar rekstrarupplýsingar hefðu þá reynst okkur nýrri og betri tölur og við getað eitthvað gert með þær á þeim tíma. Við gerum ansi lítið núna þegar árið 2004 er líka liðið og við erum komin fram á árið 2005.

Skýrsla þessi er vel unnin og aðgengileg eins og við var að búast. Hún er yfirgripsmikil. Hún er ekki mikil að vöxtum í blaðsíðnatali eins og margar skýrslur sem við fáum hér á Alþingi en hér er tekið á mörgum þáttum í ríkisrekstrinum. Við sjáum að það er mikið starf og vaxandi hjá ríkisendurskoðanda og full ástæða til að hrósa embættinu og starfsfólki þess fyrir störfin á árinu 2003.

Það kemur fram í skýrslunni að starfsmönnum fjölgaði á árinu 2003 frá árinu 2002 og skilaði það sér í meiri afköstum hjá embættinu en áður var. Alls áritaði Ríkisendurskoðun 370 ársreikninga og samdi 274 endurskoðunarskýrslur. Þetta er mun meira umfang en áður hafði verið og þess vegna er full ástæða til að velta fyrir sér hvernig stofnuninni gekk að halda sér innan fjárheimilda á árinu 2003 miðað við þetta mikla vaxandi umfang sem þarna kemur fram.

Í skýrslunni kemur skýrt fram að það gengur illa hjá embættinu að reka sig innan fjárheimilda á því ári sem hér um ræðir. Hér segir í formála ríkisendurskoðanda, með leyfi forseta:

„Á árabilinu 1999 til 2002 var afkoma Ríkisendurskoðunar vel innan fjárheimilda, en á árinu 2003 snerist dæmið við og var niðurstaða rekstrar á þá lund að stofnunin fór 15 millj. kr. eða 4,9% umfram fjárheimildir. Í upphafi þessa árs var gripið til margvíslegra ráðstafana til að mæta fjárhagsvanda stofnunarinnar. Við blasir að afköst hennar verða minni í ár af þessum sökum þar sem draga hefur þurft úr vinnu í sparnaðarskyni.“

Svo mörg voru þau orð ríkisendurskoðanda, fjárheimildir duga ekki fyrir því umfangi sem í gangi er og nauðsynlegt er að draga úr starfsemi Ríkisendurskoðunar til að halda sig innan ramma fjárlaga.

Þarna kemur fram að stofnunin fór 15 millj. kr. umfram fjárheimildir en þegar við skoðum rekstrarreikning stofnunarinnar fyrir árið 2003 kemur í ljós að hallareksturinn á árinu er 43 millj. kr. og var 19 millj. kr. á árinu 2002. Ríkisendurskoðandi bjó þá svo vel að eiga fyrningar frá fyrri árum, á árinu 2001 hafði hagnaðurinn verið 21 millj., 19 millj. árið 2000 og 12 millj. árið 1999. Það er því augljóst að fjárveitingar til embættis ríkisendurskoðanda hafa í raun og veru ekki fylgt því umfangi sem þar er orðið og full ástæða fyrir okkur sem sitjum í fjárlaganefnd að skoða hvort við séum að sníða þessari stofnun of þröngan stakk.

Það gengur ekki að mínu viti að stofnun eins og Ríkisendurskoðun sé rekin með halla. Við berjumst við hallarekstur stofnana ríkisins nánast í öllum geirum þess rekstrar sem fram fer og það gengur ekki að stofnun eins og Ríkisendurskoðun sé þannig í herkví að hún nái ekki að reka sig og skili halla sem er verulegur ef við skoðum fjárheimildir stofnunarinnar. Ég held því ekki fram að Ríkisendurskoðun sé að bruðla, heldur eins og ég sagði áðan að fjárveitingar hafi ekki vaxið með því umfangi sem lagt er á stofnunina og niðurstaðan er sú, eins og fram kemur í formála ríkisendurskoðanda, að stofnunin verður að draga úr umsvifum og er það algjörlega röng leið að mínu viti. Við verðum, alþingismenn, að skoða á hvern hátt við getum komið til móts við stofnunina þannig að ekki sé dregið úr umsvifum heldur geti hún rekið sig á sama hátt og hún gerði á árinu 2003. Væntanlega hefur verið dregið úr umsvifum á árinu 2004 en við hljótum að þurfa að bæta þar í. Hvernig t.d. drógu stjórnendur úr umsvifum? Nú er árið 2004 liðið og við í sjálfu sér vitum það ekki. 15 millj. kr. óbættur halli í upphafi árs 2004 eru t.d. tæp 10% af öllum dagvinnugreiðslum embættisins á því ári. Yfirvinna á árinu 2003 var um 6 millj. kr. og því þarf að fella niður alla yfirvinnu hjá stofnuninni í tvö og hálft ár til að spara upp í þann halla sem þarna er ef menn ætla að gera það með þeim hætti að draga úr yfirvinnu.

Á fjárlögum ársins 2004 var framlag okkar til Ríkisendurskoðunar 295 millj. kr., sem er u.þ.b. 32 millj. kr. lægra en niðurstöðutala reikningsins fyrir árið 2003 og einungis um 10 millj. kr. hærri tala en var í fjárlögum ársins 2003. Skilaboð okkar til ríkisendurskoðanda eru því að spara talsvert mikið frá því sem verið hefur og það er eins og fyrr kom fram í máli mínu algjörlega röng leið að mínu viti.

Kannski er rétt að spurt sé: Hvernig gekk reksturinn á árinu 2004? Hefur hallinn aukist eða hefur hann minnkað frá því sem var um áramótin 2003/2004? Ef við skoðum ársreikninginn kemur í ljós að sértekjur á fjárlögum ársins voru áætlaðar 11,4 millj. kr. en verða rúmar 39 millj. Þarna fær Ríkisendurskoðun talsvert miklu meiri fjármuni af sértekjum en áætlun fjárlaga gerði ráð fyrir og hefði það átt að hjálpa henni að vera réttu megin við strikið en það virðist ekki duga til. Er erfitt að skilja af hverju fjárlög gera ráð fyrir 11,4 millj. í sértekjur þar sem sértekjur voru miklu nær 40 millj. árið áður en þeim 11,4 sem mér sýnist að hafi verið áætlaðar þarna.

Eitt atriði sem maður veltir fyrir sér er t.d. húsaleiga sem hækkar verulega frá árinu 2002–2003. Húsnæðiskostnaður stofnunarinnar fer úr 9,4 millj. í 18 millj. kr. aðallega vegna þess að verið er að greiða leigu af nýju húsnæði. Eftir sem áður eru færðar í sama reikningi, sama ársreikningi, 18 millj. kr. undir byggingarkostnað þar sem stofnunin er þá væntanlega að breyta þessu nýja húsnæði sem hún leigir og leggja til þess 18 millj. kr. en samt sem áður aukast leigugreiðslur langt umfram það sem áður var. Maður veltir því fyrir sér hvert sé í raun leigugjaldið á fermetra sem Ríkisendurskoðun borgar í þessu nýja húsnæði og hvernig standi á því að stofnunin virðist þurfa að leggja svona mikla fjármuni til endurbóta á húsnæði sem síðan er leigt dýrum dómum.

Eins og áður kom fram eru ansi miklar og margvíslegar upplýsingar í þeirri skýrslu sem hér liggur fyrir. Það kemur í ljós að Ríkisendurskoðun hefur lagt metnað sinn í að upplýsa almenning og fjölmiðla um það sem fram fer hjá stofnuninni. Ég held að það sé til mikilla bóta að svo sé gert og að Ríkisendurskoðun sé ekki lokað batterí sem fáir eigi aðgang að. Ég held að allar þær skýrslur og úttektir sem Ríkisendurskoðun hefur staðið fyrir og sent frá sér til fjölmiðla og þar af leiðandi til almennings hafi skilað allt annarri mynd af þeirri stofnun en margir höfðu fyrir og heimasíða stofnunarinnar er t.d. til fyrirmyndar og þar er afskaplega mikið af upplýsingum sem fólk getur sótt sér og virðast margir gera það miðað við þær heimsóknir sem sú síða fær samkvæmt þeirri skýrslu sem hér er rædd.

Hér er fjallað um hugtakið áhættustjórnun. Það virðist vera að fæstar stofnanir ríkisins séu með formlegum hætti farnar að greina og skrá áhættuþætti sem geta komið í veg fyrir að þær nái settum markmiðum og einungis þriðjungur stofnana hefur t.d. flokkað hugsanlega áhættu eftir eðli hennar. Vegna þess er mjög erfitt fyrir Ríkisendurskoðun að sannreyna hvort stofnanir leiði hugann að þeim þáttum þar sem áhættan er mest.

Varðandi starfsmannastjórnun þá kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að við könnun á henni og launamálum hafi athyglinni aðallega verið beint að almennum starfsmönnum. Í ljós kom að 53% stofnana fylgja einhverju kerfi við að ákvarða þeim laun eftir ábyrgð, verkefnum og reynslu. Með öðrum orðum: 47% stofnana fara þá væntanlega ekki eftir neinu kerfi við að ákvarða almennum starfsmönnum laun eftir ábyrgð, verkefnum og reynslu.

Í skýrslunni segir líka að það sé hins vegar óljósara hvaða reglur gildi um viðbótarlaun þegar þau eru ákveðin og afköst og frammistaða starfsmanna virðist skipta tiltölulega litlu máli við það. Einungis rétt innan við helmingur stofnana hafi reglubundin starfsmannaviðtöl sem verður að teljast lágt hlutfall. 65% þeirra hafa hins vegar starfslýsingar í samræmi við stjórnskipulag þeirra og flestar stofnanir leggja mikla áherslu á endurmenntun.

Ég held að ef við veltum fyrir okkur því sem fram kemur í þessum kafla í skýrslunni þurfi að taka á, ef það hefur ekki þegar verið gert á árinu 2004, starfsmannastjórn og launamálum hjá ríkinu með þeim hætti að þar sé um gegnsæjar og skýrar reglur að ræða.

Einnig kemur fram í skýrslunni að flestir ríkisaðilar sem hafa það hlutverk að veita styrki standi vel að allri málsmeðferð vegna þeirra en stór hluti annarra stofnana virðist hins vegar ekki fylgja beinum laga- og reglugerðarheimildum fyrir styrkveitingum. Um eða innan við helmingur þessara stofnana auglýsti styrkveitingar sínar og hafði þar til gerð eyðublöð fyrir umsóknir og óskaði eftir skriflegri greinargerð um markmið verkefnis. Þá er það einungis rétt rúmlega helmingur stofnana sem metur árangur af þeim styrkveitingum sem þær standa fyrir.

Ég held að það sem þarna kemur fram í skýrslu ríkisendurskoðanda sé falleinkunn á þá aðila sem veita þessa styrki eins og þarna kemur fram. Það er til lítils að veita einhverja geðþóttastyrki sem síðan er ekki fylgt eftir í hvað fóru og kannski ekki einu sinni að fylgt hafi verið einhverjum samræmdum gagnsæjum reglum um með hvaða hætti sækja ætti um þá styrki.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson fór talsvert yfir skýrslu sem gerð var á árinu 2003 varðandi einkavæðingu fyrirtækja á árunum 1998–2003. Það er tiltölulega lítill kafli í skýrslu ríkisendurskoðanda um þetta mál en hann kemst að þeirri niðurstöðu, og þar kemur kannski fram eins og oft áður kurteisi þeirra sem vinna hjá Ríkisendurskoðun gagnvart framkvæmdarvaldinu og þeir setja málin þannig fram að maður þarf oft að setja á sig gleraugu og helst önnur gleraugu til að skilja nákvæmlega hvað þeir eru að fara, en þar segir varðandi einkavæðinguna að komið hafi í ljós nokkrir hnökrar á sölu einstakra fyrirtækja. Þetta er afskaplega kurteislega orðað og menn þurfa að hafa það í huga þegar þeir fara yfir það sem kemur frá ríkisendurskoðanda. Yfirleitt er þetta svona kurteislega orðað og full ástæða til að menn rýni í hvað standi á bak við textann.

Eins og fram kom þurfti Ríkisendurskoðun að spara á árinu 2004. Inntar voru af hendi rúmlega 76 þúsund vinnustundir á árinu 2003, höfðu aukist um 10 þúsund frá árinu áður. Við eigum eftir að sjá það í skýrslu ríkisendurskoðanda fyrir árið 2004, sem væntanlega verður gefin út í apríl 2005 og rædd kannski í janúar 2006, hvernig gengið hefur í þessum efnum núna.

Kostnaður Ríkisendurskoðunar á klukkustund við fjárhagsendurskoðun, eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fór yfir áðan, er á árinu 2003 rúmar 5 þús. kr. Ríkisendurskoðun kaupir út endurskoðun. Oftast held ég að það sé úti á landi þar sem stofnanir eru fjarri Reykjavík og vel getur verið að ef Ríkisendurskoðun ætti að sinna því sjálf kæmi ákveðinn kostnaður í ferðalögum, uppihaldi og dagpeningum og slíku sem ekki falla til þegar heimaendurskoðendur sjá um endurskoðunina. Þó hlýtur að vera vert fyrir okkur að velta fyrir okkur að kostnaðurinn er um 30% hærri á klukkustund í aðkeyptri vinnu og Ríkisendurskoðun keypti þjónustu fyrir 45 millj. kr. á árinu 2003.

Að endingu, þar sem tími minn er á þrotum, eru í skýrslunni afskaplega margar kennitölur sem taka á rekstri stofnunarinnar eins og hann var á árinu 2003 og full ástæða til að velta fyrir sér hvernig starfsemin var og hvernig gengið hefur. Ég tel enn og aftur fulla ástæðu til að þakka ríkisendurskoðanda og starfsfólki hans fyrir vel unnin störf á þessu ári. Við þingmenn á Alþingi þurfum að standa vörð um þessa stofnun og efla þar frekar starfið frá því sem verið hefur en ekki sníða því þannig stakk með fjárveitingum að draga þurfi úr starfsemi ár frá ári.