131. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2005.

Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2003.

[17:41]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að lýsa ánægju minni með þá skýrslu sem við ræðum hér, skýrslu Ríkisendurskoðunar um störf sín.

Eins og hv. síðasti ræðumaður vil ég víkja að rekstri Ríkisendurskoðunar og stöðu hennar nú um stundir. Hér kemur réttilega fram í skýrslunni á bls. 26 að Ríkisendurskoðun fór fram úr fjárheimildum sínum á árunum 2002 og 2003 og þar af leiðandi, segir í inngangi að skýrslunni, þurfi að draga úr starfsemi. Þar segir m.a. að afrakstur af starfi Ríkisendurskoðunar hafi aldrei verið jafnmikill og á árinu 2003, en það ár fór Ríkisendurskoðun verulega fram úr fjárheimildum og boðaður var niðurskurður á síðasta ári, á árinu 2004.

Við höfum hins vegar ekki upplýsingar um hvernig starfsemin á síðasta ári kom út en það má sjá hér á tölum og upplýsingum að Ríkisendurskoðun stendur vel í starfsemi sinni miðað við kostnað og samanburð við aðkeypta þjónustu varðandi þau verk sem unnin eru, mæld sem kostnaður á hverja klukkustund í unnum verkefnum. Ekki er því annað að sjá en að Ríkisendurskoðun standi nokkuð vel að störfum sínum og verklagi. En ég verð að lýsa þeirri skoðun minni, hæstv. forseti, að ég tel mjög vafasamt að við drögum úr starfsemi Ríkisendurskoðunar og lít svo á að það geti verið mjög vafasamur sparnaður sem við fáum þar fram og alls ekki víst þegar upp er staðið að það verði til nokkurs sparnaðar því Ríkisendurskoðun er sú eftirlitsstofnun sem á að geta fylgt því eftir hvernig stofnanir ríkisins leysa verkefni sín af hendi og fara með fjármuni sína og er auðvitað mjög mikilvæg sem slík og hefur að flestu leyti að því er mér virðist sinnt störfum sínum af miklum ágætum.

Auðvitað er eðlilegt að stofnun eins og Ríkisendurskoðun reyni að skoða sína eigin starfsemi og beri hana saman m.a. við systurstofnanir í öðrum löndum eins og á Norðurlöndunum og reyni þannig að leggja mat á þau verk sem verið er að vinna á vegum stofnunarinnar og ekki nema gott eitt um það að segja.

Hins vegar eru ekki mjög mörg ár síðan Ríkisendurskoðun var færð undir Alþingi. Það eru rétt tæp 20 ár, árið 1987. Ég tel að það hafi verið vel ráðið, en ég velti því fyrir mér með tilliti til þess hver þróunin er víða í þjóðfélagi okkar varðandi samþjöppun í rekstri, í verslunarrekstri, tryggingastarfsemi og við munum eftir olíumálinu og þeirri stöðu sem þar hefur komið upp, ég velti því satt að segja fyrir mér hvort við eigum að hugleiða það í hv. Alþingi að Samkeppnisstofnun t.d. heyri beint undir Alþingi en ekki undir ákveðið ráðuneyti. Nú þekki ég ekki alveg rökin fyrir því sem lagt var upp með á sínum tíma þegar umræðan hófst um að Ríkisendurskoðun skyldi færð undir Alþingi en það hlýtur þó að hafa verið í þeim anda að eðlilegt væri að sú stofnun sem ætti að fylgjast með fjárreiðum ríkisins og starfi stofnana þess heyrði undir Alþingi en ekki eitthvert eitt ráðuneyti.

Við höfum upplifað það að umræður um störf stofnana eins og störf Samkeppnisstofnunar hafa stundum orðið með því lagi að jafnvel ráðherrum hefur ekki líkað rannsóknarferli stofnunar eins og Samkeppnisstofnunar og hafa látið frá sér fara athugasemdir um hvernig að því væri staðið. Ég held að ég muni það rétt að mönnum varð um og ó þegar Ríkisendurskoðun var m.a. að ná í bókhald hjá olíufélögunum á sínum tíma og töldu menn nokkuð harkalega fram gengið í þeim verkum. Þess vegna velti ég því fyrir mér hvort ekki væri eðlilegt að skoða að Samkeppnisstofnun heyrði ekki undir eitthvert ákveðið ráðuneyti heldur heyrði beint undir Alþingi.

Það hefur líka komið fram að því er mér hefur fundist að ráðherrar væru allt að því að leggja línur um störf stofnana eins og Samkeppnisstofnunar og ég velti því fyrir mér hvort Samkeppnisstofnun hafi nógu mikið hlutleysi með því að heyra undir eitt ákveðið ráðuneyti.

Sömu spurningar mætti e.t.v. spyrja varðandi Fjármálaeftirlitið og ég hugsa að margur Íslendingurinn spyrji sig í dag þegar litið er á tilboð viðskiptabankanna, hinna einkareknu banka, hvort menn séu í samráði við að bjóða kjör eða hvort bankarnir elti hver annan. Það eru alla vega mjög lík kjörin sem boðin eru í viðskiptabönkum hér á landi og má alveg spyrja sig að því hvort þar sé eðlilega fram sett í ljósi þess sem við höfum m.a. upplifað varðandi rannsóknina á olíufélögunum. Ég velti þessu fyrir mér og vil leggja þær vangaveltur mínar inn í umræðuna um það hvort skoða eigi stöðu Samkeppnisstofnunar og jafnvel Fjármálaeftirlitsins með það að leiðarljósi að jafnvel væri eðlilegra að slíkar stofnanir heyrðu beint undir Alþingi en ákveðið ráðuneyti.

Að öðru leyti er ég mjög sáttur við þá skýrslu sem hér er til umræðu. Hún er ágætlega fram sett og ekki í allt of löngu máli og ágætlega glögg til þess að átta sig á helstu atriðum í starfsemi Ríkisendurskoðunar. Ég vil hins vegar ítreka að ég tel að við getum unnið okkur til skaða með því að draga úr fjárveitingum til Ríkisendurskoðunar og að það sé ekki til heilla að það dragi úr starfsemi hennar eins og hlýtur að hafa gerst á árinu 2004 miðað við það sem fram er sett um að draga þurfi úr starfsemi og veita aukið aðhald til þess að vinna á þeim halla sem áður hafði myndast. Það kemur líka fram í skýrslunni að afrakstur af starfi Ríkisendurskoðunar hafi aldrei verið jafnmikill og á árinu 2003. Það væri fróðlegt að fá að heyra það, ef um það er vitað, hversu mikið hafi dregið úr starfsemi stofnunarinnar á sl. ári.

Hæstv. forseti. Ég held að ég hafi ekki fleiri orð um skýrsluna en tek undir margt sem fram hefur komið, m.a. orð hv. þm. Ögmundar Jónassonar þegar hann velti upp umræðunni um einkavæðingu bankanna og hvernig að því var staðið en læt nú máli mínu lokið.