131. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2005.

Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2003.

[18:18]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það kom mér svolítið á óvart að heyra hér seinni ræðu hv. þm. Halldórs Blöndals, hæstv. forseta. Erfitt virtist mér hæstv. forseti eiga með að taka réttmætri gagnrýni, að mínu viti, á störf Alþingis. Rétt er að spyrja hæstv. forseta hvort hann telji til bóta jafnvel að draga það að fara yfir svona skýrslur.

Það kom einnig fram í máli hans að menn gætu tekið upp skýrslur Ríkisendurskoðunar hvenær sem þeir vildu á fundum Alþingis. Það er rétt varðandi skýrslur um hin einstöku mál, stjórnsýsluúttektir og slíkt, en mér er til efs að þeim sem hér stendur hefði t.d. verið leyft að setja fram einhver mál eða fyrirspurnir byggðar á ársskýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem skýrslan hefði ekki fengið formlega umfjöllun á Alþingi áður.

Í skýrslunni er t.d. fjallað um innra eftirlit ríkisstofnana. Þar kemur í ljós að það er skoðun ríkisendurskoðanda að „verulega skorti á að innra eftirlit ríkisstofnana sé skjalfest, að skipulegt áhættumat hafi farið fram og að til séu skýrir verkferlar og verklýsingar“. Ríkisendurskoðandi lýsir þeirri skoðun sinni í þessari skýrslu að þetta sé ekki viðunandi. Rétt hefði verið að taka þetta upp strax þegar skýrslan var gefin út en ég hélt satt að segja, og það er kannski bara af því að ég er tiltölulega nýr þingmaður og hef ekki gert mér grein fyrir hvernig Alþingi starfar, að okkur leyfðist ekki að taka svona mál sem eru byggð á ársskýrslu Ríkisendurskoðunar upp á Alþingi án þess að skýrslan fengi fyrst formlega umfjöllun. Þætti mér vænt um ef ég væri þá leiðréttur með það.