131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Upplýsingar um Íraksstríðið.

[13:31]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Alltaf virðist aukast sú hula blekkingar sem lykur um Íraksmálið af hálfu íslenskra stjórnmála. Nú er það komið fram að íslensk stjórnvöld gáfu leyfi til þess í febrúar árið 2003 að herflugvélar gætu flogið um íslenska lofthelgi og haft viðdvöl vegna innrásar í Írak. Þetta fékkst staðfest í utanríkisráðuneytinu í gær samkvæmt fregnum Stöðvar 2.

Listi hinna svokölluðu staðföstu viljugu þjóða var hins vegar ekki birtur fyrr en 18. mars og í millitíðinni höfðu íslenskir ráðamenn talað með þeim hætti að ekki var hægt að draga þá ályktun af orðum þeirra að þeir mundu styðja innrás Bandaríkjamanna í Írak.

Hæstv. forsætisráðherra, þáverandi utanríkisráðherra, Halldór Ásgrímsson, lýsti því þannig þráfaldlega yfir, áður en nafn Íslands birtist á þessum lista, og það gerði hann síðast í viðtali þann 17. mars árið 2003, daginn áður en listinn var birtur með nafni Íslands, að hann teldi að öryggisráðið ætti að eiga síðasta orðið um Íraksdeiluna. Þannig gaf hæstv. núverandi forsætisráðherra það alveg ljóslega til kynna að engin ákvörðun hefði verið tekin. En þegar hæstv. forsætisráðherra sagði þetta hafa verið liðnar þó a.m.k. þrjár vikur frá því að hann sem utanríkisráðherra leyfði að flogið yrði um lofthelgi landsins og að herflugvélar hefðu viðdvöl vegna innrásar í Írak. Hæstv. forsætisráðherra hefur sagt að bandaríska sendiráðinu hafi ekki verið tilkynnt um stuðninginn fyrr en eftir ríkisstjórnarfund þann 18. mars. Nú virðist hins vegar mega draga þá ályktun af staðfestingu utanríkisráðuneytisins í gær að stuðningur Íslands við innrás Bandaríkjamanna í Írak hafi komið fram þremur vikum fyrr og ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Er það rétt?