131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Upplýsingar um Íraksstríðið.

[13:33]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Ég veit að formanni Samfylkingarinnar, hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, er mikið í mun að honum gangi vel í þeim átökum sem fram undan eru í flokki hans. En er ástæða til þess að koma hér upp á hverjum einasta degi út af þessu máli til að reyna að vekja athygli á sér í fjölmiðlum og með því að afhjúpa ótrúlega vanþekkingu í utanríkismálum? Man hv. þingmaður það ekki að ályktun 1441 var samþykkt í öryggisráðinu í nóvember 2002? Man hv. þingmaður ekki eftir því að byggður var upp mikill þrýstingur á Saddam Hussein að hann færi frá völdum sem allar þjóðir stóðu að, m.a. Þjóðverjar? Væri ekki rétt fyrir hv. þingmann að upplýsa flokksfélaga sína í Þýskalandi að með því að leyfð var notkun á þýskum flugvöllum hafi Þjóðverjar lýst stuðningi við stríðið í Írak? Það var verið að byggja upp mikinn þrýsting þessa mánuði og það voru allir að vonast eftir því að sá þrýstingur yrði til þess að Saddam Hussein færi frá völdum. Þetta veit hv. þingmaður og hann veit það líka að það hefur aldrei komið fyrir mér vitanlega að því hafi verið neitað að fá afnot af Keflavíkurflugvelli í sambandi við slík mál, aldrei. Væri ekki ráð fyrir hv. þingmann að leita í smiðju fyrrverandi flokksfélaga sinna og flokksfélaga sinna sem fóru með ábyrgð í utanríkismálum m.a. að ræða þessi mál við fyrrverandi utanríkisráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, þar sem hann sat í ríkisstjórn með honum og fræðast um þessi mál áður en hann kemur aftur upp til að afhjúpa vanþekkingu sína í þessu máli?